Baldur Andrésson skrifar: "EKKI BENDA, SHIT HAPPENS !"

Rannsóknarfréttamenn eiga nú sitt blómaskeið því nóg er af félagsmálaklámi að taka þessa dagana.  Byrgið og Breiðavík hafa með réttu komið til umræðu en í báðum tilvikum er spjótum einkum beint að vanhæfum stjórnendum, látnum og lifandi.
Grafalvarlega hlið málsins er að í báðum tilvikum eru talin dæmi um áníðslu á varnarlaust fólk, fullorðna og börn í heilsufarsvanda og í félagslegum vanda. Reynt er að einangra þessi mál sem slys í góðu samfélgi en í raun eru þau fremur afrakstur slysalegs samfélags.
Bæði eru dæmin lýsandi fyrir gerðir samfélags sem traðkar á mannréttindum einstaklinga þegar færi gefst.
Í báðum dæmunum var valinn sá ódýri kostur að hreinsa a.m.k. tímabundið úr venjulegu samfélagi manna þau börn eða þá fullorðnu,sem hentast þykir , einstaklinga sem vegna æsku, fátæktar, sjúkdóma,eigin óreglu eða annarra, dæmdust réttlausir.Ógæfuaðferðin vörðuð góðum ásetningi.

Geymslurnar reyndust fúlar og illar, loksins þegar innsýnin gafst.

Breiðavík var eitt af mörgum fósturbörnum barnaverndarkerfis sem sjálft var í eðli sínu lokað valdníðslukerfi, samtvinnað rannsóknar- , meðferðar- og dómsvald þar sem réttarstaða barnins var hjómið eitt. Byrgið, einhvers konar öskuhaugur heilbrigðis- og félagsmálastofnana, byggt á trúarkreddurugli. Best þótt Byrgið vera þegar það kostaði lítið og hélst við í niðurníddum, eiturmenguðum herbröggum á Miðnesheiðinni. Þangað var hægt að vísa brotnum einstaklingum sem þáðu þar lélega vist frekar en götuna og best þótti valdsmönnum að vistunin var ódýr! Var á tombóluprís.

Fréttahaukar slá sig nú með réttu til riddara. Sýnin sem við blasir er ófögur, sárin opnast hvert af öðru, samviskan nagar samfélagið.Sagt er að Breiðavík sé "barn síns tíma" en gildir það þá ekki  um Byrgið?

Eru þá mannréttindi barna vel tryggð nú, eða geðheilbrigðisþjónusta við ungmenni? Eiga börn götunnar,hinir heimilislausu, veiku fíknarþrælar sér vísan stuðning í velferðinni ? Verða mál útrædd þegar einstakur perri er dæmdur eða barsmíðamaður barna ?

Vinstristefna er ekki lýðskrum. Hún felur í sér hugmyndir mannúðar,réttlætis og jöfnuðar. Vinstristefna krefst þess að að mannréttindi allra þegna verði virt og að best verði unnið að tryggingu réttinda þeirra, sem höllum fæti standa. Þar er sá áhættuhópur sem helst verður níðst á, fólkið sem varnarminnst er, börnin, gamlingjarnir og þeir veiku. Vaktina verður stöðugt að standa gegn skeytingarleysi markaðsafla, gegn þeim kuldaskít, sem kapítalisminn fæðir af sér. Nóg er komið af nískulausnum og gervigóðmennsku. Vaktin verður m.a.stunduð með þokkalegri lagasmíð, ásættanlegri lagaframkvæmd og fjármunum til nauðsynjaverka á sviði mannræktar.

Baldur Andrésson

 

 

Fréttabréf