Fara í efni

LÍTIL ÞÚFA

 Á næstu vikum verða tvennar þýðingarmiklar kosningar og má varla á milli sjá hvorar eru mikilvægari. Fyrst kjósa Hafnfirðingar um stækkun álversins í Straumsvík þannig að það verði um þrefalt stærra en það er nú – segi þeir já. Síðan kjósa allir Íslendingar sér þing í maí, eins og lög gera ráð fyrir.
En er eitthvert vit í að bera saman kosningu um deiliskipulag í einu sveitarfélagi og kosningar til þings? Já reyndar. Að þessu sinni hagar svo til að lítil þúfa Hafnfirðinga getur velt því þungu hlassi sem stóriðjustefnan er orðin á öllum Íslendingum. Felli þeir stækkunina verður ekki af ráðstöfun enn meiri orku til stóriðju í bili, og ekki nóg með það. Talsmenn Alcan segjast munu loka álverinu verði ekki af stækkun. Með öðrum orðum: Felli Hafnfirðingar stækkunina, mun ný ríkisstjórn neyðast til að skoða öll þau áform sem eru í farvatninu. Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og formaður Framsóknar, heldur því að sönnu fram að stóriðjustefnan hafi verið flutt af höndum ríkisvaldsins til orkufyrirtækja, sveitarfélaga og einkafyrirtækja, rétt eins og annar atvinnurekstur. Samkvæmt kenningu Jóns koma þessi mál ríkisvaldinu ekki lengur við, líklega ekki frekar en opnun rakarastofu eða bílaverkstæðis. Rísi almenningur gegn þessum áformum horfir málið öðru vísi við, hvað sem lagabókstafnum líður.
Samkvæmt þessu er Ísland galopið fyrir hverjum sem vill seilast í þá takmörkuðu orku sem til ráðstöfunar er í landinu. Þannig hafa Norðmenn, sem á sínum tíma runnu á rassinn á Reyðarfirði, sagst vilja reisa „litla” 600.000 tonna álverksmiðju á Íslandi og munu hafa opnað kontór með starfsfólki til að vinna að málinu. 
 Áformin sem nú eru í uppsiglingu munu á 10 – 15 árum klára allt virkjanlegt vatnsafl á Íslandi ef ekki verður spyrnt við fótum. Að virkja til áliðjuvera er þess vegna ekki bara spurning um umhverfisáhrif, losun gróðurhúsalofttegunda o.þ.h. Þess vegna er ábyrgð Hafnfirðinga sérstaklega mikil. Felli þeir stækkunina yrðu þeir fyrstir til að segja með atkvæðagreiðslsu: Nú er komið nóg! Alcanliðar segja að með neii muni Hafnfirðingar hafna miklum tekjum og hagvexti því álverinu verði lokað ef þeir segja nei. Ekki er ástæða til að draga í efa að forystumenn Alcan séu góðir í reikningi – annað hvort væri nú. En hagfræði þeirra er ekki að sama skapi traustvekjandi vegna þess að þeir sleppa alveg að nefna hvaða hag má hafa af því að loka álverinu og hann er hreint ekki svo lítill.
Í fyrsta lagi losnar sú orka sem framleidd er handa Alcan og hefur aldrei í sögunni fundist hagkvæmari virkjunarkostur. Þessa hundódýru orku mætti nota til margskonar nýsköpunar og er td. vert að spyrja: Er þarna á lausu rafmagn til að framleiða vetni?
Í öðru lagi losnar mikið land innan Hafnarfjarðar, land sem er miklu stærra en sjálf álverslóðin. Álverið yrði skipulagslegt skrýmsli í byggðarlaginu og mun um marga áratugi hamla eðlilegri þróun byggðarinar.
Í þriðja lagi myndi landið nýtast undir aðra starfsemi – fyrirtækja sem yrðu öll minni í sniðum – og má slá því föstu að störfin sem þannig sköpuðust yrðu ekki færri en álverið býður uppá.
Í fjórða lagi myndu Hafnfirðingar, með því að segja nei, taka fram fyrir hendurnar á stóriðjuforkólfunum á svo afdráttarlausan hátt að frekari stóriðjuáform yrðu væntanlega endurskoðuð, jafnvel lögð á hilluna í fyrirsjánlegri framtíð, því það eru miklu fleiri en Hafnfirðingar sem spyrja spurninga. T.d. Hvað liggur á?
Viðfangsefni næstu tíu til fimmtán ára á ekki að vera kapphlaup um að koma allri mögulegri orku í verð sem allra fyrst. Verkefni í orkumálum á að vera að rannsaka svo sem nokkur kostur er hvaða orkutækifæri gefast með djúpborunum. Orkuverð fer hvarvetna hækkandi, þess vegna vilja iðjufyrirtæki sem eiga líka orkuver sem framleiða handa þeim orkuna fyrir alla muni leggja niður álbræðslur þar sem svo hagar til (t.d. í Canada). Þannig geta þau selt orkuna, sem áður fór til að bræða ál fyrir miklu hærra verð á almennum markaði. Þess vegna er t.d. upplagt fyrir Alcoa að setja sig niður á Reyðarfirði og fá orkuna frá Kárahnjúkum á lágu verði en selja á sama tíma orku frá eigin orkuverum vestanhafs á miklu hærra verði.
Það er því prýðilegur kostur fyrir Hafnfirðinga (og landsmenn alla) að þeir segi nei og Alcan loki í kjölfarið.
hágé.