Kristján Hreinsson skrifar: SAMAN TIL SIGURS

Þegar ég sé niðurstöður skoðanakannana síðustu vikna og set þær í samhengi við það sem ég hlera í heita pottinum, þá finn ég bæði meðbyr og mikinn stuðning við málstað Vinstri grænna. En samtímis hljómar einkennilegur barlómur sem fyrst og fremst virðist hafa þann tilgang að finna höggstað á Samfylkingunni. Einkum er voli og væli ætlað að rýra málstað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Það verður að segjast einsog er að formaður Samfylkingarinnar hefur verið afar óheppinn með eigið ágæti síðustu misserin. Hæst hafa farið nokkrar setningar og ótti við ákvarðanir. En einnig hefur óeining og sundrung innan fylkingarinnar látið á sér kræla. Það er einsog menn séu ennþá að sleikja sár eftir formannsslag og svo er einsog margur kratinn ætli aldrei að sætta sig við það að hafa fengið Ingibjörgu Sólrúnu í sæti þess sem ferðinni ræður. Maður hefur meira að segja orðið þess áskynja að dyggir stuðningsmenn Össurar hafi farið mikinn við að reyna að koma framboði Framtíðarlandsins á koppinn.
Hvað er ég að velta mér uppúr óförum Samfylkingarinnar? Á ég ekki bara að vera sáttur og sannfærður um að ágætt gengi míns flokks muni vara um aldur og ævi?
Það hryllilegasta sem getur gerst er það að Framsókn fái nokkra þingmenn, því það gæti hugsanlega nægt helmingaskiptaveldinu til áframhaldandi stjórnarsetu. Þetta má ekki gerast. Og við sem teljum okkur vinstrimenn verðum að reyna með öllum hugsanlegum ráðum að tryggja það að slíku óláni verði afstýrt.
Og hvernig högum við málflutningi okkar þá?
Jú, við styðjum við bak þeirra sem við teljum að standi okkur næst. Við hjálpum þeim, jafnvel þótt þar finnist menn sem vilja að Hægri græn eða Framtíðarland fari í stjórn með Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar.
Já, við eigum að styðja við þá sem standa okkur næst, jafnvel þótt margur samfylkingarmaðurinn telji Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ekki vænsta kostinn í stjórnarsamstarfi.
Við styðjum þá sem standa okkur næst.
Íhaldið mun gefa Framsókn pening í kosningamaskínuna ef það má verða til þess að halda völdum. Og við vitum að Framsókn hikar ekki við að selja þjóðarsálina fyrir stjórnartauma. Þess vegna segi ég: Ágætu Íslendingar ef þið ætlið ekki að kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, þá ættuð þið að velja næst besta kostinn - sem er Samfylkingin.
Kristján Hreinsson, skáld

Fréttabréf