Fara í efni

LÖGFRÆÐILEGT ÁLITAMÁL?

Ég þurfti að klípa mig í lærið til þess að komast að því hvort ég væri vaknaður eða ef til vill að dreyma, þegar ég heyrði fréttina á RÚV (sem bráðum verður hf.) um dóm yfir forstjórum olíufélaganna.

,,Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari segir ýmislegt hafa ráðið þessari niðurstöðu héraðsdóms, til dæmis að í 10. grein samkeppnislaganna sé ekki nægilega skýr heimild til þess, að refsa megi einstaklingum fyrir brot fyrirtækja. Þá hafi dómari talið að ekki hafi verið gætt jafnræðis það er að ekki hafi allir verið ákærðir sem nefndir eru í ákærunni.”

Í fyrsta lagi er ekki hægt að dæma fyrirtæki, samkvæmt þessu. Hvað er fyrirtæki, hugmynd, ímynd? Samkvæmt þessu er fyrirtæki allavega fyrirbæri til þess að taka á sig sakir, græða og firra eigendur ábyrgð.  Í ljósi þessarar hugmyndafræði ættu allir að vera á sömu launum í svona fyrirtækjum og bera sömu ábyrgð og ef ekki næst til allra eru er hinir saklausir.

Út frá þessari reglu er leyfilegt að stela, ef um það er stofnað félag. Félagið fremur glæpina og gerendur eru saklausir, því glæpirnir eru framdir í nafni þess. Ef síðan einhver reynir samt sem áður að ákæra stórtækustu brotamennina er það ekki hægt, nema allir aðrir sem tengjast félaginu náist einnig!

Skilaboð dómstólanna er sem sé, stofnið fyrirtæki og stelið. Þeir sem hlíta þessari reglu þurfa ekki að óttast dómstólana. Héraðsdómur hefur nú sagt við hvítflibbabófann: Friður sé með yður!

Rúnar Sveinbjörnsson ,
Rafvirki.