Fara í efni

KALLAÐ EFTIR ÁBYRGÐ OG STEFNUMÖRKUN

Íslensk stjórnvöld hafa lagalegum skyldum að gegna gagnvart öllum sjúklingum í landinu. Þetta á líka við um vímuefnasjúklinga og fólk með geðræn vandamál. Það er ljóst af umræðu undanfarinna daga að þessum skyldum hefur hið opinbera brugðist. Umræðan um Byrgið sem upphaflega stjórnaðist af áhyggjum af fjámálamisferli er vonandi að þróast út í umfjöllun um þann mannlega harmleik sem átt hefur sér stað. Að sjálfsögðu skiptir máli að vel sé   farið með opinbert fjármagn. Sér í lagi þegar staðreyndin er sú að fjárframlög til viðkomandi faglegarar heilbrigðisþjónustu er skorin niður vegna framlaga til glæframanna. Það segir sig sjálft að það á að láta   þá sem bera ábyrgð á slíku, taka afleiðingum þess. Ríkisendurskoðun hefur farið vandlega ofan í saumana á fjármálahliðinni og staðan í dag virðist vera sú að það bendir hver á annan til ábyrgðar.

Vitneskja árum saman

Mér vitanlega hefur ekki farið fram nein opinber rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum sem fram hafa komið á hendur starfsmönnum og umsjónarmanni Byrgisins um meðferð þeirra á vistmönnum. Svo merkilegt sem það nú er þá vistaði Fangelsismálastofnun fanga á staðnum og komið hefur í ljós að frelsi þeirra var svo ótakmarkað að einhverjir fundust ekki þegar eftir var leitað. Börn voru vistuð á staðnum sem er nógu alvarlegt en verður enn óhugnarlegra í ljósi þess að rökstuddur grunur er um að umsjónarmaður og jafnvel einhverjir starfsmenn hans hafi misnotað aðstöðu sína og brotið í starfi gegn trúnaðarsambandi við skjólstæðinga og komið hafa fram kærur sem varða meint kynferðissamband. Þessar ásakanir eru studdar enn frekar með bréfi sem Pétur Hauksson geðlæknir sendi Landlæknisembættinu strax í janúar 2003 þar sem hann skýrir frá því að hann hafi ítrekað heyrt frásagnir af kynferðislegum samböndum starfsmanna við   sjúklinga eða vistmenn Byrgissins.

Ekki brugðist við

Í greinagerð Landlæknisembættisins um samskipti þess og Byrgissins frá 5. janúar sl. þar sem meðal annars er vitnað í bréf   Péturs Haukssonar segir að erindi hans væri Landlæknisembættinu óviðkomandi þar sem Byrgið væri ekki heilbrigðisstofnun og þar ynnu ekki heilbrigðisstarfsmenn. Þar segir einnig að Landlæknir hafi tvívegis hafnað beiðni Byrgissins um starfsleyfi til reksturs afeitrunar þar sem Byrgið hafi ekki leyfi sem sjúkrastofnun. Þetta hlýtur að koma mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að ítrekað og nánast í beinni útsendingu fréttamiðla voru starfsmenn Byrgissins að flytja dauðadrukkið og illa vímað fólk beinustu leið í Byrgið. Það sem er jafnvel enn einkennilegra er að í skýrslu Heilbrigðisráðherra um þjónustu við áfengis- og vímuefnaneytendur á Íslandi sem lögð var fyrir Alþingi í mars 2005 segjast Byrgismenn aðspurðir að þar sé veitt bráðaþjónusta og afeitrun. Hafi það verið gert í óleyfi og af ófaglærðu fólki, vegna hvers var ekki brugðist strax við af hálfu hins opinbera ?

Hver er skýringin?

Í áðurnefndri greinargerð Landlæknisembættisins segir " Ljóst er að þörf er á úrræðum fyrir einstaklinga með þau vandamál sem Byrgið hefur sinnt. Nauðsynlegt er að þau séu á faglegum grunni og undir nauðsynlegu eftirliti" og þar segir ennfremur: "Landlæknisembættið leggur á það höfuðáherslu að nauðsynlegt sé að aðskilja sem mest trúarstarfsemi og lækningar". Sé þetta skoðun Landlæknisembættisins, hver er þá skýringin á því að það lét það vísvitandi óáreitt að einstaklingar með þau vandamál sem Byrgið sinnti væru meðhöndlaðir af ófaglærðu fólki sem stundaði lækningar af trúarlegum toga? Það má einnig spyrja að því hvort Landlæknisembættinu er ekki skylt að mæla gegn meðferðastöðum á borð við Hlaðgerðarkot þar sem trúariðkun og bænahald er samofið meðferðastarfinu.? Og væri þá líka ástæða fyrir Félagsmálaráðherra að endurskoða áform sín um að láta Samhjálparmennina í Hlaðgerðakoti taka við Byrginu.

Opinberir aðilar ábyrgir

Það kemur fram í gögnum málsins að vistmenn Byrgisins sem dvalið hafa þar um lengri eða skemmri tíma eru að megninu til þeir sem annars eru taldir til heimilislausra í borginni, vímuefnaneytendur sem margir hverjir eiga við geðræn vandamál að stríða. Viðhorf hins opinbera hvort heldur sem um er að ræða ríkið eða Reykjavíkurborg hafa einkennst af því að þetta fólk væri best geymt hjá trúarsamtökum eða samtökum tengdum þeim. Reykjavíkurborg hefur gert Samhjálp að sínum stærsta samstarfsaðila á velferðasviði og telur við hæfi að líknarfélag Hvítasunnusafnaðarins sinni sjúku fólki götunnar. Að sama skapi jós borgin fé til Byrgisins beint og óbeint án nokkurs eftirlits með starfseminni. Velferðarsvið hafði milligöngu um greiðslur margra vistmanna og gaf Byrginu þannig sinn gæðastimpil.

Ekkert yfirklór!

Afstaða hins opinbera til stórs hóps vímuefnaneytenda er fyrir neðan allar hellur og ekki verður betur séð en að þar hafi verið brotin lög. Fyrir utan ákærur og ásakanir um kynferðislega misnotkun og óheimila vistun barna er að öllum líkindum verið að brjóta á rétti áfengissjúklinga til faglegrar meðhöndlunar. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir í mjög athyglisverðu lögfræðiáliti um réttarstöðu áfengissjúklinga sem birt var á vef SÁÁ 28. jan. sl. " Áfengissjúklingar eiga því rétt til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ   á að veita" og hann segir að þar sem svo sé "þá er ríkinu jafnframt skylt að haga   málefnum heilbrigðisþjónustu þannig að fyrir hendi sé næg   þekking á sjúkdómnum og aðstaða til meðferðar við sjúkdómnum" Það er nokkuð ljóst að réttur þessara sjúklinga hefur verið brotinn. Það bendir hver á annan, embættismenn eru réttilega ásakaðir en það er hinsvegar ljóst að eftir höfðinu dansa limirnir og einbeittur vilji ráðherra til samstarfs við trúfélög um meðferðastarf er óyggjandi. Það má ekki gerast að bakari verði hengdur fyrir smið því að ef grannt er skoðað er það Heilbrigðisráðherra sem augun ættu fyrst og fremst að beinast að.
Eitt er víst að þessari umræðu má ekki ljúka með yfirklóri. Það þarf að greina hvar ábyrgðin liggur og þá ekki síður hitt á hvaða forsendum skal hadið inn í framtíðna með þennan málaflokk.