Karl Jóhann Lilliendahl skrifar: SPARIFÉ MILLJARÐAMÆRINGANNA !

Tilefni þessara skrifa minna er grein þín í Fréttablaðinu nýlega um misskiptinguna. Ég er innilega sammála þér og reyndar trúi ég ekki ef einhver er ósammála þér. (sjá HÉR)

Maður er orðinn hálfpartinn veikur vegna þessa ótrúlegu græðgi, þessari ótrúlegu svívirðu að nokkur einn maður geti gert svona lagað sbr. forstjóri Glitnis sem um ræðir í grein þinni. Ég veit ekki hve mikið er hægt að láta sér blöskra yfir þessu óréttlæti. Maður fyllist reiði, liggur við hreinasta hatri í garð svona manna sem greiða svo ekkert til samfélagsins. Ég kalla fjármagnstekjuskatt ekkert miðað við það sem við borgum til samfélagsins.

Ég hugsa stundum hvernig líður þessum mönnum? Um leið getur maður spurt sjálfan sig, eiga þessir menn einhvern tilverurétt hér á landi þegar þeir leggja ekkert til samfélagsins?  Geta þessir menn gengið um meðal fólks, fólks sem greiðir fullan skatt og meira en við almenningur þolir. Sjálfur er ég öryrki, missti fót fyrir ári síðan vegna sjúkdóms, en það er ekki málið hér, þetta er orðið svo yfirgengilegt, tvær þjóðir (eða fleiri) í þessu landi.

Enginn segir neitt þ.e.a.s. enginn rís upp gegn svona óréttlæti. Hvers vegna er það? Fjölmiðlar minnast aðeins á svona viðskipti sem menn eiga við sjálfan sig og svo er ekkert meira talað um þetta.

Ég man að fyrir nokkrum árum síðan þegar forstjóri Glitnis var gerður að forstjóra Íslandsbanka og hafði með einhverjum hætti lagt 100 milljónir í púkkið. Fréttamaður RÚV spurði hann hvernig hann hafi fjármagnað svona mál. "Ég lagði nú allt mitt sparifé í þetta" var svarið.

Sjáðu Framsóknarflokkinn, sem vonandi deyr í vor, hvernig menn haga sér, t.a.m. Jónína Bjartmarz sem er sögð hafa keypt gamla Landssímahúsið við Austurvöll. Það kom fram í Fréttablaðinu nýlega. Hvað ætlar hún að gera við það? S.l. sunnudag sendi ég fyrirspurn til hennar og spurði hvort þetta væri rétt, að hún væri búinn að kaupa húsið. En svar barst aldrei. Ég hef hvergi heyrt minnst á þessi húsakaup, ekki einu sinni í fréttum Stöðvar 2 og hlífa þeir nú engum.

Ég veit alveg Ögmundur að þú veizt hvernig mér líður yfir svona háttalagi hjá þessari ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum. Og þér líður örugglega eins og mér. Við erum bara venjulegt fólk. Við Vinstri grænir megum ekki gleyma að "skjóta" því á kjósendur þegar Sif stal úr framkvæmdasjóði aldraðra til að gefa út bækling um sjálfa sig o.fl o.fl. Fyrir utan allann hrokann í formanni Framsóknarflokksins. Ég hef óbeit á þessum manni og reyndar öllum framsóknarmönnum. Miðað við fylgi þeirra ættu þeir að eiga bara einn eða tvo ráðherra. Furðulegt þetta allt saman.

Þetta átti nú bara að vera stutt bréf til þín. En manni liggur svo margt á hjarta. En þú afsakar þessi skrif mín. Ég get varla verið einn um þessar skoðanir mínar. Nú er mál að linni að við köstum hreinlega ríkisstjórninni burt úr alþingishúsinu og stjórnarþingmönnum. Þetta gengur ekki lengur.

Með kærri kveðju,
Karl Jóhann Lilliendahl

Fréttabréf