Baldur Andrésson skrifar: TÍMINN OG VATNIÐ

Landsfund Sjálfstæðisflokksins skorti kjark til að minnast á Íraksmálið í ályktunum

sínum, komplexinn er áberandi. Aðspurður í sjónavarpinu líkti íhaldsformaðurinn Íraksstefnu íslensku hægristjórnarinnar við vatn,  sem horfið er undir brúna, komið á haf út.  Þessi eru ummælin um burðarvirkið í utanríkisstefnunni, sífellda   undirgefni við grimmdarlega útþennslustefnu bandarískra hægriöfgamanna, m.a. í  Mið-Austurlöndum.  Fjögurra ára stríðsböl Íraka átti sér hvatningu frá Íslandi. Stríðstíminn stendur enn, eins og vatnið sem er djúpt og myrkt, væntanlega eins og vitund íhaldsformannsins.

Íraksstríðið hefur á fjórum árum kostað á bilinu 700.000 til milljón mannslífa. Fjöldi líkamlega og andlega farlama Íraka og slasaðra er gífurlegur.  Á fimmtu milljón Íraka eru á flótta frá landi sínu eða á vergangi innanlands. Bandaríski stríðskostnaðurinn vegna Íraks er nú sagður 34 þúsund milljarðar króna eða töluvert umfram kostnaðinn við Víetnamstríðið, metið á núvirði dala. Þessi fjáraustur hefur aðeins skilað Írökum dauða, sulti, seyru, niðurbrotnu hörmungasamfélagi.

Íraksstefna íslensku hægristjórnarinnar er stöðupollur, tímaafstæður breyta engu um eðli hennar og tilgang. Samhyggðin með kolsvartri grimmdarstefnu vestræns valds gagnvart þróunarlandi var ráðandi fyrir fjórum árum þegar Ísland var boðið fram í hóp vígfúsra ríkja gagnvart Írak. Þá voru hörmungar slíks stríðs fyrirséðar, þá vissi hægristjórnin að hún höndlaði gegn vilja allflestra Íslendinga, gegn friði, gegn mannúð, lögum og skynsemi. Enn dunar stríðið. Þótt Geir Haarde reyni að lygna aftur augum  halda aðrir ráði og  rænu, vita hvað fram fer.

Ef líkja má Íraksstefnu íslensku hægristjórnarinnar við vökva, verður henni helst líkt við eiturmengaða skólptjörn. Fýluna leggur víða og hún læddist hljóð undir borðum á landsfundi íhaldsins. Framsókn segir nú stefnuna byggða á missýn og mistökum, íhaldið fer á heimspekibrautir. Það sem var rétt  var rétt þótt það metist nú rangt og tíminn er vitundarvatn sem hverfur í haf aldanna eða gufar upp ! Ekki líta um öxl á verk okkar, kyrjar stjórnardúettinn.

Báðir stjórnarflokkarnir óttast nú að ekki takist líkt og áður að þagga niður eðli og inntak utanríkisstefnu þeirra þegar að kosningum kemur. Þöggun, undanbrögð og hundalógik er vörnin.

Aldrei sem fyrr birtast Írökum nú ljóslega afleiðingar stríðsglæpaathafnanna gegn þeim.  Árásarstefnan og hernám lands Íraka nístir og sker samvisku almennings á Vesturlöndum og þar er engin fortíðarþráhyggja á ferð. Fólk horfir til daglegra ótíðinda frá Írak og til framtíðar landsins. Vopnasendingar til Írak hafa Íslendingar mátt kosta en einnig efni í staurfætur fyrir farlama stríðsfórnarlömb. Nú er stríðsböl Íraka vaxið til þeirra hæða að óbærilegt er af að vita. Algert niðurbrot þessa fjölmenna

þróunarlands er stríðsglæpaferli, sem enn stendur yfir.

Íslenska hægristjórnin skelfist nú álitsgjöf íslenskra kjósenda. Hún hefur ástæðu til að óttast. Smjaðrið fyrir Pentagonvaldinu leiddi ekki einu sinni til ávinninga á vettvangi þess og lauk hermangstíma á Íslandi til óvirðingar fyrir hægristjórnina í eigin augum hennar. Penatgonvaldið nennti ekki lengur að púkka upp auðmjúk  þrælmenni í norðrinu. Lágkúran situr þó enn við völd í hugarheimi Geirsklíkunnar og enn skal spilað með í framtíðarstríðplönum vestænna herstjóra þótt íslenska sverðið sé stutt og deigt.  Ný stríð bíða við sjóndeildarhringinn, nýjir landvinningar, áframhald hervæðingar. Veröldin skal finna til valdsins og draumurinn er að styðja við voldugasta ofbeldisaflið  í ábatavon.

Ekki er þó mannúðarleysið algert. Fréttir herma að vígafús ríkisstjórn Íslands hafi nú veitt einni krónu og fimmtíu aurum á haus  hverjum  írökskum stríðsflóttamanni í tilefni  af kosningavori á Íslandi.

Venjulegir Íslendingar eiga enga samleið með þeim sem vilja áfram feta slóð óréttlætis og lágkúru í utanríkismálum. Þetta er ein af veigamiklum ástæðum fyrir því að bráðum hrekkst íslenska hægristjórnin frá völdum. Forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar sér ekki að víkja hænufet frá feigðarslóð Bush í alþjóðamálum, Framsókn töltir hlýðin í kjölfarið og samanlagt  lítilsvirðir blokkin æru Íslands á alþjóðavettvangi.

Íslendingar megna ekki einir að snúa gangi veraldarsögunnar. Hitt er víst að mannskemmandi er að draga taum svartnættisafla og ofbeldis. Það er lágmarkskurteisi við mannkynið að óska fólki friðar og velfarnaðar. Slík ósk, í samhljómi við raddir milljóna friðarsinna um heim allan, er lóð á vogarskálir, þyngra en margan grunar.
Bráðum kemur betri tíð á Íslandi.

 Á 1.sumardag 2007

Baldur Andrésson

Fréttabréf