Helgi Guðmundsson skrifar: GLEYMIST MISRÉTTI STÉTTASKIPTINGARINNAR?

 Vikulegar skoðanakannanir Gallups, sýna allar sömu þróun og það sem meira er, flestir áhugamenn um stjórnmál hafa á tilfinningunni að kannanarnir séu í góðu samræmi við það sem þeir finna fyrir í sínu nærumhverfi.

Á hinn bóginn vekur það undrun að svo virðist sem stjórnarflokkarnir muni halda velli - að sönnu eru um 4 vikur til kosninga og ýmislegt getur gerst á þeim tíma. Í því efni er umhugsunarverðast að Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf stærsti flokkur landsins og hefur svo verið óslitið frá stofnun hans 1929 (ef mig misminnir ekki um of) Það væri verðugt verkefni fyrir stjórnmála- og félagsfræðinga að greina ástæður fyrir þessu, því pólitíska mynstrið hér á landi er öndvert við ástandið á Norðurlöndum. Þar eru hægri menn yfirleitt klofnir og systurflokkar Sjálfstæðisflokksins ævinlega langt á eftir jafnaðarmönnum, sem jafnan eru öflugustu flokkarnir.

Hver gæti skýringin verið? "Farsælir foringjar", er alþekktur frasi sem skýrir alls ekki grunnmúrað fylgi flokksins. Miklu líklegra er að flokknum hafi tekist að skapa sér það yfirbragð að hann sé í fyrsta lagi "flokkur allra stétta" og í öðru lagi að allt sem hann geri sé gert til að styrkja efnahagslegar undirstöður samfélagsins, í því skyni m.a. að efla velferðarsamfélagið - og gildir þá einu þótt staðreyndirnar tali öðru máli. Síðustu tólf ár hefur flokkurinn haft forystu fyrir því að auka á misréttið í samfélaginu. Hinir ríkustu hafa nú 200 sinnum hærri laun en hinir lakast settu. Eigi að síður heldur flokkurinn sama svipmóti út á við og nú bætist það við að íhaldið er allt í einu orðið grænt! Skýringuna á styrk flokksins er líklega að leita í því að innan hans eru sennilega "sósíaldemókratísk element" sem hafa þau áhrif að ásýnd flokksins er miklu mýkri en systurflokkanna í grannlöndunum. 

 Á vinstri vængnum hefur staðan líka verið afar ólík. Þannig hefur ysta vinstrið lengst af haft meira fylgi en jafnaðarmenn hér á landi, á meðan sambærilegir flokkar á Norðurlöndum hafa jafnan verið smáir, en vissulega oft öflugir, og er næstum alltaf haldið utan ríkisstjórna. Kannanir núna sýnast benda til þess að VG sé að ná þessari sömu stöðu og verða stærri en Samfylkingin. Rétt er þó að ítreka að kannanir eru allt annað en kosningar og þótt þær hafi stundum verið nokkuð nærri úrslitum, er engan vegin víst að kosningarnar fari eins og kannanir gefa til kynna. Verkefni vinstri flokkanna næstu vikurnar er því að ná fylgi af Sjálfstæðisflokknum fyrst og fremst, því ef stjórnin heldur velli er það vegna styrkrar stöðu hans en þrátt fyrir fylgistap Framsóknar sem virðist dreifast á stjórnarandstöðuflokkana.

Kaffibandalagið svonefnda, stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, SF, VG og F hafa, sem eðlilegt er, sagt að eðlilegast sé að þeir byrji að tala saman um nýja stjórn, fari svo að stjórnin falli í kosningunum. Hins vegar verða flokkarnir ekki öfundsverðir af að takast á við þau verkefni sem við blasa. Á valdaárum núverandi ríkisstjórnar hefur ríkissjóður haft miklar sjálgefnar tekjur af þenslunni sem stóriðjuframkvæmdirnar hafa kallað fram. Verkefni næstu ára er hins vegar að koma á betra jafnvægi og kæla "ofhitnun" hagkerfisins, draga úr þenslunni, en um leið að jafna lífskjörin í landinu að því leyti sem það er í valdi stjórnvalda.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar eru ein verstu hagstjórnarmistök undanfarinna ára. Tækifærið til að draga fé út úr hagkerfinu með því að breyta ekki skattheimtunni að neinu ráði hefur ekki verið notað. Þannig hefur glatast möguleikinn á að hafa taumhald á þenslunni annars vegar og að hafa fé aflögu til rýrari ára og síðast en ekki síst: að nota skattkerfið til tekjujöfnunar.

Kaffibandalagsstjórn hefur því flókið og erfitt verkefni til úrvinnslu; að draga úr þenslunni án þess að dragi til atvinnuleysis og að hafa nóg fé milli handanna til að ráðast í þær miklu lagfæringar sem nauðsyn ber til, í heilbrigðis- trygginga- mennta- og samgöngumálum. Ríkisstjórnin hefur ekki einungis lækkað skatta hátekjufólks, heldur líka selt mikilvægar mjólkurkýr eins og Símann. Þeirri sölu var meðal annars ætlað að fjármagna byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, en var með þeim endemum að arðurinn, sem fyrirtækið greiddi í ríkissjóð hefði dugað til að kosta byggingu sjúkrahússins á þeim 10 árum sem áætlað er að taki að reisa bygginguna.

VG og SF hafa lagt mikla áherslu á kvenfrelsismálin, mikilvæg mál sem verða sífellt að vera á dagskrá. Hinsvegar má nú lesa út úr skoðanakönnunum að karlar kjósi til hægri í æ ríkari mæli. Styrkur VG felst meðal annars í staðfestunni, sama á hverju hefur gengið stendur flokkurinn og talsmenn hans við pólitísk stefnumið sín og uppskera virðingu fyrir. Það yrði því ekki trúverðugt á síðustu vikum kosningabaráttunnar að breyta verulega um kúrs til að ná til karla í ríkari mæli, auk þess sem það myndi vafalaust fæla margar konur frá að kjósa flokkinn. Eigi að síður verður flokkurinn að finna leið að "hjörtum" karlanna, því það nær engri átt að karlar verði sífellt hægrisinnaðri á sama tíma og jafnrétti kynjanna lagast þótt hægt fari. Til langs tíma mun slík þróun þýða að hægri sinnaðir karlar herða enn völd sín - stéttaskipting kapitalismans hverfur í skuggann af áherslu á jafnrétti kynjanna en misrétti stéttaskiptingarinnar gleymist.

hágé.

Fréttabréf