Kristján Hreinsson skrifar: NÚ ER KOMIÐ NÓG

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd á Íslandi í 16 ár. Ýmsum þykir þetta vera 16 árum of mikið en ég held að flokkurinn hafi sýnt og sannað að einu megi treysta þegar hann fer með stjórn - þá verða þeir ríku ríkari og þeir fátæku fátækari.
Auðvitað hefur eitthvað gott gerst á þessum langa tíma. Það væri til of mikils ætlast ef maður reiknaði með því að sjálfstæðismönnum tækist að sneiða hjá öllum góðum gjörningum.
 Sjálfsagt þykir mörgum til háborinnar skammar að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa haldið Framsókn í helmingaskiptabandalagi í 12 ár. Og vissulega er skelfilegt til þess að hugsa að jöfrar helmingaskipta og spillingar skuli hafa farið með völd í landinu í eina tylft ára.
En verstur er sá ljóti listi sem eftir flokkinn liggur.
Auðvitað má ekki gleyma að minnast á Davíð Oddsson, jafnvel þótt eitthvað segi manni að þeirri ágætu sál sé gott að gleyma. Það er spillingin sem varpar skugga á feril flokksins og þar á forystan stærstan hlut að máli. Nú er nefnilega svo komið að dómsmál, lögregla og yfirleitt allt sem lýtur að rannsóknum sakamála er komið í hendur Sjálfstæðismanna. Það hefur verið auðvelt fyrir flokkinn að fela spor þeirra sem þurft hafa á slíku að halda og svo hefur verið auðvelt fyrir flokkinn að ráðast að þeim sem ekki hafa sýnt skilyrðislausa hlýðni við flokkinn. Og þótt holdgerfingur hroka og yfirgangs hafi yfirgefið forarpytt flokksins og hafi náð að hreiðra um sig í Seðlabankanum þá liggur sakaskrá flokksins opin hverjum sem í vill rýna.
Ég nefni spillingu varðandi samráð olíufursta.
Ég nefni svindl vegna sölu bankanna og Símans.
Ég nefni rannsókn Baugsmála.
Ég nefni aðför að velferð aldraðra og öryrkja.
Ég nefni svikin loforð í velferðarmálum og skólamálum, endalausa biðlista hvert sem litið er og skólagjöld hvar sem þeim hefur verið við komið.
Ég nefni það að geðfatlaðir eru jafnvel vistaðir á salernum stofnana vegna þess að ekki er búið að efna loforð um betri aðbúnað. Málefni þeirra sem þurfa vistun vegna áfengissýki eða vímuefnaneyslu eru í lamasessi.
Ég nefni umhverfissóðaskap, þar sem Kárahnjúkavirkjun fer fremst og loforð um álver í hverju plássi fylgja fast á eftir. Stuðningur Sjálfstæðisflokksins við stækkunina í Straumsvík lá ljós fyrir.
Utanríkismálin eru sóðaskapur frá a-ö. Innrásin í Írak og skilyrðislaus stuðningur við stefnu Bandaríkjamenn í öllum þeirra níðingsverkum.
Ég nefni stuðning stjórnvalda við yfirgang Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum.

Listinn getur orðið svo langur að það tæki menn næstu sextán árin að lesa um allan hroðann. Og loforðalistinn sem Íhaldið hefur opinberað fyrir næstu kosningar er lesning sem maður lítur ekki á mena hafa lært á alla fyrirvarana. Því jafnvel þótt fyrirheitin séu sögð fögur og jafnvel þótt íhaldið skipti reglulega um grímu og geti farið í allra kvikinda líki, þá er markmið þess alltaf eitt og hið sama: Að gera þá ríku ríkari og þyngja bagga þeirra sem minnst mega sín.

Íhald hefur andlit mörg
og ef þar finnst nú galli
þá hafa menn þá bestu björg
að breyta andlitsfalli.

Þeir ergja þá sem eiga bágt,
þeir efla ríka dela,
þar á bæ menn leggjast lágt,
ljúga, svíkja og stela.

Íslensk þjóð á gallagrip
sem grettir sig og reynir
að setja upp þann auma svip
sem illum hvötum leynir.

Kristján Hreinsson, skáld

Fréttabréf