Fara í efni

VIÐHALDSSTJÓRNIN

Núna, þegar ljóst er að Samfylkingin ætlar að falla í faðm íhaldsins og endurnýja vald sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, er gott að hafa í huga að sjálfsagt mun sá dagur koma að vinstristjórn fái að ýta af atað umbótastefnu í okkar ágæta landi. Slíkt verður þó vart gert af alvöru nema með forystu Vinstri grænna.

Í sjálfu sér er ég á margan hátt sáttur við það að Samfylkingin skuli fara með íhaldinu í eina sæng og lofta aðeins út eftir þaulsætinn fnyk Framsóknar. Ég óttast að vísu að málamiðlanir verði þess efnis að varla verði hægt að tala um heilagt hjónaband, öllu heldur verði um það að ræða að Samfylkingin verði viðhald á meðan Framsókn fer á heilsuhæli til að reyna að endurnýja fingralengdina og þrótt til frekari sjálftöku.

Ég heyrði því fleygt í vikunni að Vinstri grænir vildu frekar fara í stjórn með Samfylkingu og Framsókn en leyfa Samfylkingunni að leggjast með íhaldinu. Ég verð að segja einsog er: Ef þetta er hugsun þeirra manna sem ég styð alltaf annað slagið, þá held ég að þeir þurfi að skoða það vel hversu lítið þeir hyggist fá fyrir sálir sínar á næstu útsölu.

Hafa menn ekki minnsta snefil af sómatilfinningu? Er allt í lagi að lyfta skúrkum á stall um leið og það er hægt að hafa að því eitthvert yndi? Er hægt að breyta sálum hugsjónamanna í aurasálir á einni nóttu? Eru mínir menn búnir að gleyma öllu?

Hversu lágt er eiginlega hægt að leggjast?

Framsóknarflokkurinn er svo slæmt fyrirbæri að það liggur við að Vinstri grænir ættu að reyna að komast í þríleik með íhaldinu og Samfylkingunni bara til að losna við að starfa með Framsókn í stjórnarandstöðu. Ég mæli bókstaflega með því að Vinstri grænir brúki sína krafta á þann hátt að þeir verði ekki smitaðir af eilífum smeðjuhætti þeirra manna sem fyrst hugsa um vini og vandamenn en láta svo þjóðarhag mæta afgangi.

Ég veit ekki hvort Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn reyna að setja af stað rannsókn sem varpað getur ljósi á hina svokölluðu ,,sölu“ Búnaðarbankans – þ.e.a.s. þegar Framsóknarflokkurinn gaf gæðingum sínum þann ágæta banka sem Búnaðarbanki hét. En ég veit að það hefði orðið afar pínlegt ef Vinstri grænir hefðu reynt eitthvað slíkt í stjórnarsamstarfi með Framsókn og Samfylkingu. Og svo veit ég það líka að Vinstrihreyfingin – grænt framboð á að krefjast þess að fyrrum samstarfsaðilar í stjórnarandstöðu fylgi eftir kröfum um téða rannsókn, því ljóst er að Framsóknarflokkurinn mun ekki gera þá kröfu.

Svo er spurning hvort Samfylkingin mun reyna að opinbera þær kenndir sem urðu að hvatberum Baugsmála. Þarna hafa samfylkingarmenn ekki verið á eitt sáttir við yfirgang Sjálfstæðismanna og eignarhald þeirra á einföldum sálum undirgefinna embættismanna.

Auðvitað blöskraði mér að sjá um daginn orðsendingu frá Jóhannesi í Bónus, þar sem hann hvatti menn til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar. Ekki sárnaði mér að Jóhannes hvetti menn til  að krota yfir nafn Björns, því ég tel það sjálfsagða skyldu aðdáenda íhaldsins að reyna að flokka kjarnann frá hisminu. Hitt þótti mér skelfilegt að sjá: Jóhannes sýndi þann ófyrirgefanlega undirlægjuhátt að gefa atkvæði sitt mönnum sem, leynt og ljóst, hafa reynt að leggja líf hans í rúst.

Kjarni íslenskrar stjórnkænsku birtist akkúrat í þeirri undirgefni sem opinberuð var orðsendingu Jóhannesar, því mottóið er alltað eitt: Gerum það sem við græðum á!

Heiðarlegir hugsjónamenn verða ekki af aurum apar og þeir hafa ekki heldur asnaeyru sem hægt er að draga þá á. Sannir hugsjónamenn vilja leiðrétta ójöfnuð, eyða spillingu, tryggja velferð og vernda náttúru landsins fyrir ágangi auðhringa, svo fátt eitt sé nefnt.

Ágætu vinstrimenn, við erum ennþá í því eftirlitshlutverki sem í stjórnarandstöðunni felst. Það er skylda okkar að sýna stjórninni aðhald. En við verðum líka að passa okkur á því að umgangast Framsókn af tilheyrandi varúð. Ódaunninn er ennþá til staðar – jafnvel þótt kykvendið hafi nú verið sett í sóttkví.

Viðhaldið með von og þrá
verður hvatt til dáða
en íhaldið mun áfram fá
öllu hér að ráða.

Kristján Hreinsson, skáld