Fara í efni

Í STÓRU OG SMÁU

Síðastliðinn föstudag var Kastljós í Sjónvarpinu að venju. Viðmælendur ritstjórans voru borgarfulltrúarnir Svandís Svavarsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson. Umræðuefnið átti að vera fréttir vikunnar, en eins og verða vill í slíkum þáttum fór umræðan nokkuð á víð og dreif. Meðal annars hafði þáttastjórnandinn orð á því að ekki hefði Íslendingum vegnað vel í landsleik við Svía. 5 – 0 eru satt að segja ekkert sérstaklega smart úrslit og manninum nokkur vorkunn að hafa orð á þessum ósköpum.

Svandís benti réttilega á þær gleðilegu fréttir að þótt karlpeningnum gengi illa yrði ekki það sama sagt um konurnar. Þær hefðu staðið sig frábærlega vel undanfarin misseri. Hvað gerðist þá í þættinum? Jú, Þórhallur þáttarstjórnandi vék talinu snarlega að öðru, hvernig konum gengi í íþróttinni skipti greinilega svo litlu máli að ekki væri einu sinni umræðuvert – best að tala um Baug eða peninga í staðinn.

Viðbrögð Þórhalls voru í meira lagi sláandi og dónaleg og greinilegt að persónulegt áhugamál hans réði ferðinni. Hlutlægnin sem fréttamenn  nútímans státa sig mest af rauk út í veður og vind á augabragði – í smáu sem stóru mega konur þola að talað sé niður til þeirra, jafnvel í sjálfu ríkissjónvarpinu.

Nú er undirritaður almennt á því að mótsetningarnar milli stétta séu miklu meiri og alvarlegri en á milli kynja, þótt launamunur sé vissulega sláandi og víða sé langt í land að eðlilegu jafnrétti milli kynja sé náð. Fréttamönnum líðst hinsvegar, hvað eftir annað, að sýna konum ótrúlegan dónaskap hvort heldur er viðmælandanum í sjónvarpssal eða konum sem hópi úti í samfélaginu. Í stað þess að gleðjast yfir árangri kvenna í fótboltanum og velta jafnvel fyrir sér spurningunni hvers vegna konur séu svo miklu framar í keppni við kynsystur sínar en karlar á sínum vettvangi, þótti Þórhalli helst viðeigandi að þagga snarlega niður í borgarfulltrúanum, sem var hvorttveggja, kvenkyns og fulltrúi VG. Ekki þarf að taka fram að Gísli Marteinn sat að venju með sitt góðlega bros á vör.

Íþróttir snúast sem betur fer um meira en afrek. Þannig taka þúsundir ungmenna um land allt þátt í hvers kyns íþróttastarfi, meðal annars fótbolta, og stelpur gera það eins þótt karlalandsliðið verði sér hvað eftir annað til skammar, og þrátt fyrir að í karlaboltann sé ausið margföldum peningum á við það sem stúlkunum er ætlað.

Með hegðun sinni í þættinum sendi stjórnandinn tvennskonar skilaboð til áhorfenda. Í fyrsta lagi sýndi hann Svandísi forstokkaðan dónaskap, sem hann hefði aldrei reynt að komast upp með við karlmann af hægri vængnum. Í öðru lagi þau skilaboð að Sjónvarpinu kæmi ekki við, og hefði engan áhuga á að konum gangi vel í fótbolta á alþjóðlegum vettvangi. Hverjir eru móttækilegastir fyrir slíkum skilaboðum? Auðvitað að einhverju leyti stelpur, en þó fyrst og fremst strákar, sem fá það á tilfinninguna að þeir séu margfalt mikilvægari en stúlkurnar. Það sé hörmulegt slys að karlarnir séu með allt niðrum sig á alþjóðlegum vettvangi, einskonar þjóðarskömm, en hitt skipti ekki máli að stelpurnar standi sig með prýði. Það skiptir sem sagt máli hvernig körlunum gengur ( þótt þeim vegni ömurlega) en stelpurnar eru aukaatriði. Reynslan sýnir að stúlkur láta þetta stanslausa „bögg” ótrúlega lítið á sig fá. Þær halda áfram að æfa sína íþrótt, og reynast fullboðlegar hvar sem er í heiminum.

Að hinu leytinu til eru skilaboðin ætluð VG. Sá flokkur er ekki margra fiska virði að mati ritstjórans og líkt honum að kona úr forystusveitinni hafi orð á aukaatriði eins og þessu – það tekur því varla að spyrja foringja VG spurninga sem skipta máli.

Í nýliðinni kosningabaráttu þótti sérstaklega vel til fundið sð spyrja Steingrím Sigfússon með nokkrum þjósti (Helgi Seljan) hvað ætti að koma í staðinn, fyrst VG væri á móti álveri, og var spyrlinum greinilega ekki kunnugt um að fjöldi þjóða getur ekki látið eftir sér þann „lúxus” að virkja fyrir álver, en komast ágætlega af samt. Þetta leiðir hugann að því hve mikilvægt það er fyrir nýja  talsmenn VG, ekki síst þá sem eru að stíga sín fyrstu spor á hálum velli stjórnmálanna, að láta ekki fréttamenn vaða yfir sig á skítugum skónum, heldur svara þeim skilmerkilega og fullum hálsi ef það á við, og fletta ofan af vanþekkingu þeirra þegar hún blasir við. Ég veit að þetta er ekki alltaf auðvelt, því fréttamennirnir hafa það álit á sjálfum sér að þeir starfi á hlutlausan hátt fyrir almenning, séu þjónar almennings, eigi það til að kjafta viðmælandann útaf laginu, og ráði auk þess við hverja þeir tali. Reynslan sýnir reyndar að starfsmenn Rásar eitt virðast vandaðastir að virðingu sinni og maður hnýtur sjaldnast um þekkingarskort og dónaskap af þeirra hálfu. Um blöðin sem 365 gefur út þarf ekki að fara mörgum orðum, raunar er Blaðið selt undir sömu sök. Á þessum blöðum situr fjöldi blaðamanna, daginn út og inn, og skrifar svokallaða „umfjöllun” um vörur eða fyrirtæki, sem blöðin fá borgað fyrir. Það hlýtur að vera heldur snautleg atvinna , svo ekki sé fastar að orði kveðið og þurfa sérstakt hugarflug til að telja sjálfum sér trú um að blaðamennirnir séu í þjónustu fólksins en ekki fyrirtækjanna.
hágé.