Fara í efni

KÖTTUR ÚT Í MÝRI

Íslendingar hafa löngum verið í þeirri stöðu að vera valdir af öðrum til þess að gegna hlutverki án þess að vera spurðir.  Þetta á meðal annars við í flugvallarmálum þar sem þeir hafa gegnt hlutverki hins feita þjóns.
Bretinn setti niður herflugvöll í Vatnsmýrina og Kaninn í Keflavík. Bretar eru farnir fyrir löngu og Ameríkanar eru að yfirgefa okkur. Skilnaðurinn er staðreynd og reynist sumum sár.

Reykjavíkurflugvöllur var kosinn í burt af borgarbúum á sínum tíma og þó svo hann hafi orðið að kosningamáli í borgarstjórnarkosningunum í maí á síðasta ári eru allar líkur á að hann verði fluttur fyrr eða síðar. Rætt er um að setja niður tugþúsunda byggð í hans stað. Settur hefur verið verðmiði á Vatnsmýrina og tölurnar eru háar.

Það má tvímælalaust líta á það sem tækifæri til að fegra borgina, bæta hana og glæða lífi, að Vatnsmýrin er ekki byggð meira en orðið er. Sem betur fer tókst mönnum ekki að fylla upp í tjörnina á sínum tíma og Hljómskálagarðurinn stendur fyrir sínu.

 En það vantar samfelluna. Það vantar mýrina.

Takist að endurheimta þetta íslenska landslag með mófuglum og lækjum hafa borgarbúar eignast sinn miðgarð. Vatnsmýrin er í mínum huga vel geymdur fjársjóður. Á honum liggur grá steinsteypan eins og niðadimm þoka sem gerir mýrina ósýnilega og hann er varinn af organdi flugdrekum sem spúa eldi og brennisteini á alla þá sem nærri koma. Úr því að svona er væri óskandi að hann yrði geymdur handa þeim sem skilja að mýrin er annað lunga borgarinnar og þá fyrst þegar henni hefur verið bjargað frá eyðileggingu getur hún sameinast Tjörninni í fullkominni öndun.

Í óljósu barnsminni blunda minningar um ferðir fjölskyldunnar í tívolíið í Vatnsmýrinni. Kandífloss, trúðar, dansandi fólk og skotbakkar. Ævintýrið, óljóst en tilfinningin, alsælan, enn í skýru minni.  Kannski get ég áður en lýkur farið með barnabarnið í göngutúr sem byrjar við Tjörnina og endar í Vatnsmýrinni í tívolíinu sem þar verður búið að byggja á útivistarsvæði Reykvíkinga með köttinn út í mýri í nýju ævintýri!

Þorleifur
Gunnlaugsson