Fara í efni

ÓSTJÓRNLEG MARKAÐSHYGGJA RÍKISSTJÓRNARINNAR

Eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum hefur markaðshyggja stjórnvalda náð nýjum hæðum. Allt er sett á mælistiku peninganna og engin mótstaða virðist vera við einkavæðingu og einkarekstur. Er Sjálfstæðisflokkurinn enn að sækja í sig veðrið í þessum efnum? Getur verið að Framsóknarflokkurinn hafi þrátt fyrir allt haft meiri hemil á óstjórnlegri markaðshyggju Sjálfstæðisflokksins í síðustu ríkisstjórn heldur en Samfylkingin ætlar sér nú?

Í landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins segir: „Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.“ Það þarf enga snillinga til að sjá að þetta er einmitt það sem er að gerast. Fyrst er hluti Hitaveitu Suðurnesja seldur einkaaðilum og öflugt orkufyrirtæki í einkaeigu er orðið til. Þá var ráðist í það verkefni að háeffa Orkuveitu Reykjavíkur með mjög undarlegum rökum. Við sem munum eftir háeffun Símans vitum hvað klukkan slær þó enn sé þvertekið fyrir að breyting á OR sé undanfari sölu á fyrirtækinu.

Nú boðar viðskiptaráðherra breytingar á lögum þess efnis að rýmka möguleika útlendinga til að eignast fyrirtæki hér á landi – á sama tíma og erlend orkufyrirtæki bíða með stjörnur í augunum við landsteinana. Þarna virðast Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ganga saman í fullkomnum takti. Varla er minnst á mikilvægi þess að jafnréttis skuli gætt milli landshluta í gagnadreifingu og grunnnetsþjónustu. Er það tilviljun að bættir gagnaflutningar eru ekki inni í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar þorskkvótans?

Gott fylgi sitt í síðustu Alþingiskosningum á Samfylkingin án efa að þakka velferðaráherslunum sem voru mjög sýnilegar í kosningabaráttunni. Nú er hins vegar valdapólitíkin tekin við. Flestir ráðherrar Samfylkingarinnar nota tungutak markaðshyggjunnar en félagshyggjan er víðs fjarri. Þetta er mjög ljóst í umræðunni um hvort krónan sé gengin sér til húðar. Einungis efnahagsleg rök eru notuð til að reka áróður fyrir evrunni sem gjaldmiðli fyrir Ísland en það gleymist iðulega í umræðunni að það kostar að halda úti fullvalda þjóð í sjálfstæðu ríki. Á mælikvarða peninganna er engin skynsemi í því að halda úti íslenskunni. Það kostar ógrynni fjár að gefa út orðabækur, túlkaþjónusta er dýr, útgáfa skáldsagna væri miklu hagkvæmari á öðrum tungumálum, fjölmiðlarnir okkar gætu farið í útrás á ensku og svo mætti lengi telja. Það eru nefnilega önnur gild rök fyrir tilveru okkar en efnahagsleg. Þau rök verða líka að heyrast í umræðunni og það er ekki mörgum til að dreifa að halda þeim til haga. Verkefni okkar Vinstri grænna er því stórt sem endranær. Átakalínur vetrarins verða dregnar við markaðsvæðingu hvers króks og kima samfélagsins.
Drífa Snædal