Fara í efni

FRÚ RÁÐHERRA OG HERRA RÁÐHERRAFRÚ

Ráðherraheitið var tekið í notkun þegar fólk hafði varla ímyndunarafl til að hugsa þá hugsun að konur gætu gegnt ráðherradómi. Það var lögfest á þeim tíma þegar aðeins karlar fóru með völdin á opinbera sviðinu og endurspeglar valdaleysi kvenna fyrr á tímum. Í gær fögnuðu lýðræðissinnar því að 100 ár eru liðin frá því fyrstu konurnar (þótt ekki hafi þær verið margar) hlutu kosningarétt og kjörgengi til borgarstjórnar. Þrátt fyrir þann tíma sem liðinn er hefur ekki þótt ástæða til þess að aðlaga tungumál valdsins þeirri staðreynd að konur eru komnar til að vera í stjórnmálum. Þetta er undarlegt í ljósi þess að breytingar á kvenkyns starfsheitum fara þegjandi og hljóðalaust í gegnum kerfið um leið og karlmenn láta til sín taka í þeim stéttum. Þannig hefur fóstrum verið breytt í leikskólakennara og hjúkrunarkonum breytt í hjúkrunarfræðinga. Þetta eru að sjálfsögðu mjög eðlileg viðbrögð við því að kynjamisrétti innan stétta fer minnkandi. Þegar hins vegar kemur að þessum þungu valdastöðum er gerð sú krafa að konur aðlagi sig heimi karla með þeirra siðum og venjum og síðast en ekki síst, hinum karllægu starfsheitum. Það að við skulum enn notast við heitið ráðherra er skýrt merki um þetta, því það er ekki með nokkru móti hægt að færa rök fyrir því að herra sé kynhlutlaust orð. Það er heiti sem notað er yfir karla en ekki konur. Tvískinnungurinn verður augljós þegar um maka ráðherranna er að ræða. Enginn ætlast til þess að karlkyns makar ráðherra taki sér titilinn ráðherrafrú. Það þykir sennilega dónaskapur að karlar lítillækki sig með því að taka upp kvenkynsheiti en á sama tíma þykir það sjálfsagt að konur noti titilinn herra.

Sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir þinginu um að breyta heiti ráðherra í eitthvað sem rúmar bæði kyn er frekar tæknilegs eðlis en um leið er hér stórpólitískt jafnréttismál á ferðinni: Tæknilegs eðlis af því að það ætti að vera lítið mál að breyta þessu og sjálfsögð tillitssemi við konur sem gegna ráðherradómi. Stórpólitískt af því að með því er gerð krafa um að við endurskoðum tungumál okkar í takt við það jafnrétti sem við viljum að sjálfsögðu búa við. Með því að breyta heitinu gefum við til kynna að við ætlum að vinna að jafnrétti og að konur eigi sama erindi í æðstu stjórnunarstöður og karlar. Tungumálið notum við til að tjá skoðanir okkar en það er jafnframt sterkasta valdatækið sem við búum yfir. Við viðhöldum völdum karla umfram kvenna með því að nota alltaf karllægt tungumál. Ráðherra er skýrasta birtingamynd hins karllæga tungumáls sem viðgengst í stjórnkerfinu.

Það má koma með óteljandi rök fyrir því að afnema þetta steinaldarheiti en þegar öllu er á botninn hvolft kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu að það er einfaldlega dónaskapur við konur í stjórnmálum að ætla þeim að bera titilinn herra.

Drífa Snædal