Fara í efni

SATT OG LOGIÐ

Það er lærdómsríkt að fylgjast með pólitík. Þar virðist t.d. skipta alveg rosalega litlu máli hvort fólk segir satt eða ósatt, hvort fólk stendur við orð sín eða segir bara „allt í plati". Svo virðist líka skipta alveg rosalega litlu máli þótt fólk segi eitt en geri svo eitthvað allt annað. Aðhaldið er eins og lélegt gatasigti.

Nú skilst mér til dæmis að vegna „yfirvofandi kreppu" sem er víst alveg á næsta leiti þá sé fullkomlega út í hött að rukka fólk um loforð sem gefin voru síðasta vor. Þótt maður hafi lofað því að vernda náttúruna í gær þá sé ekki þar með sagt að það standi í dag.

Ég var ein hinna mörgu sem fagnaði hinu margauglýsta stóriðjuhléi Samfylkingarinnar. Töfralausn virkjanaframkvæmda með tilheyrandi náttúruspjöllum og þenslu átti að taka sér hlé, húrra fyrir því.

Hvað hefur svo gerst?

Ekki neitt, nákvæmlega ekki neitt, nema hvað virkjanaáform öll hafa haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Álver og fleira til eiga að spretta upp hér og þar, svona til að redda okkur fyrir horn með alíslenskum hætti. Breyttar aðstæður kalla víst á gamalgróna tækifærismennsku og svikin loforð, enn á ný skal íslensk náttúra og umhverfi borga fyrir sukkið og getuleysið við stjórn efnahagsmála.

Enginn vill þó kannast við að svíkja neitt í raun. Þetta eru víst bara svona pínu-pons svik af því að það er að koma kreppa. Nú segja loforðameistararnir frá síðasta vori að því miður hafi þau bara ekki völd til að koma í veg fyrir þetta allt saman þótt þau séu í raun öll af vilja gerð. Þau eru öll af vilja gerð og þau eru öll við völd en þau geta því miður bara engu breytt. Til hvers er verið að kjósa ríkisstjórn?

„Ég er á móti virkjunum í Þjórsá!" var hrópað, og það merkilega er að það er enn hrópað, nú á valdastólum. Húrra fyrri því. En hvar nákvæmlega fá verkin að tala, og hvað nákvæmlega er lagt á línuna til að úr rætist?

Það vill svo til að ráðherrar hafa völd og heilu ríkisstjórnirnar geta jafnvel fundið upp á því að láta hendur standa fram úr ermum í málum sem raunverulega brenna á þeim, skipta þau máli. En sum mál hjá sumum skipta bara máli í orði kveðnu, hjá sumum er nóg að sýnast.

Setjum sem svo að allir fjölmiðlar landsins séu á bandi ríkisstjórnarinnar, eða í það minnsta á bandi annars ríkisstjórnarflokksins. Og setjum svo að öllum fjölmiðlum landsins sé nokkurn veginn skítsama um virkjanir við Þjórsá og finnist fínt að virkja þar og geri það að nákvæmlega engu máli þótt álver eigi að rísa í Helguvík eða hér og þar um landið. Ímyndum okkur þetta bara svona sem tiltekna hugarleikfimi í morgunsárið. Ef þannig væri ástatt á Íslandi bæri fjölmiðlum samt ekki grundvallarskylda til að krefjast heiðarleika og sannsögli af valdhöfum? Bæri þeim ekki skylda til að fylgja hlutum fast eftir og veita aðhald gegn blekkingum og svikum, burtséð frá því með hvaða pólitíska lit slíkar blekkingar eru fegraðar? Og bæri heilli þjóð ekki skylda til að krefjast heiðarleika í stjórnmálum í stað sýndarmennsku?

Jú, það er víst, þeim bæri skylda til þess.

En í svalli doðans þá rúllar bara allt eins og vanalega, rétt eins og ekkert hafi í skorist, einkavæðing er ekki einkavæðing, stóriðja er ekki stóriðja, ríkisstjórn er ekki ríkisstjórn. Það sem miður fer er víst Seðlabankanum að kenna eða mörkuðum í henni Ameríku, nú eða þá bara því að við erum ekki enn búin að drattast inn í ESB. Bannsett krónan, allt henni að kenna.

En hverju og hverjum er í raun um að kenna ef Þjórsá og öðrum náttúruperlum er fórnað fyrir fullt og allt?