Fara í efni

SÆTTUST STÉTTIRNAR?

Las stórskemmtilegt viðtal við Ögmund í Fréttablaðinu. Hann bendir réttilega á að nær sé að leggja hærri skatta á auðmenn og að samfélagið deili út peningunum, en að þeir velji sér verkefni til að styrkja eftir geðþótta. Mér kom í hug skrýtla sem ég rakst á í blöðum nýlega. Maður nokkur segir fullur aðdáunar við Móður Theresu: „Ég myndi ekki gera það sem þér gerið þótt ég fengi milljón dollara fyrir." Hún svarar að bragði: „Ekki ég heldur."

Vissulega er gott og blessað að auðmenn láti eitthvað af hendi rakna til góðra málefna. Á hinn bóginn er það sjálfstætt efnahagsvandamál hvað skattbyrði hástéttanna er létt en þung á lágtekjufólki. „Ölmusur" auðmanna eru smáaurar úr þeim bauk sem þeir hafa fyllt undanfarin ár. Í viðtalinun víkur Ögmundur að þeim mikla samtakamætti sem þróaðist á 20. öld, segir jafnframt að náðst hafi mikill árangur, meðal annars á sviði mennta, vísinda og velferðar vegna hans. Síðan segir hann orðrétt: „Um þennan grunn myndaðist merkilega víðtæk sátt og það var ekki fyrr en undir aldarlokin undir verkstjórn Thathcers og Reagans og hirðar þeirra að þetta breyttist."

Við þessi orð finnst mér ástæða til að staldra aðeins við. Á fyrstu árum sjötta áratugarins urðu hvað eftir annað harðvítug verkföll í landinu, sem náðu hámarki með sex vikna löngu allsherjarverkfalli á alennum vinnumarkaði árið 1955 (opinberir starfsmenn höfðu ekki verkfallsrétt). Verkfallinu lauk loks í apríllok með samningum um launahækkanir, og það sem meira var: um að taka upp atvinnuleysistryggingar. Allar sex vikurnar voru gerðar stanslausar tilraunir til að brjóta verkfallið á bak aftur og urðu verkfallsmenn m.a. að loka aðkomuleiðum að Reykjavík með vegatálmunum. Verkalýðsfélögin máttu vel una við hinn sýnilega árangur. Það sem hinsvegar kom ekki fram formlega í samningunum var þó enn meira virði. Verkfallið sýndi svo ekki varð um villst að landinu yrði ekki stjórnað til langframa í andstöðu við verklýðssamtökin. Komið var upp tvíveldi í landinu, valdajafnvægi stéttanna var orðin staðreynd.

Ég er þeirrar skoðunar að um þetta hafi ekki myndast „merkilega víðtæk sátt" heldur hafi borgarastéttin og auðmenn landsins neyðst til að horfast í augu við staðreyndir. Tekist hafði að skipuleggja samtakamátt almennings þannig að fram hjá honum varð ekki gengið. Næstu árin voru enn háð verkföll og þegar opinberir starfsmenn fengu loks verkfallsrétt, urðu þeir að berjast hart, beinlínis fyrir því að láta taka mark á sér. „Sáttin" var með öðrum orðum knúin fram í andstöðu við valdhafana - þeir voru neyddir til að taka tillit til samtaka almennings.

Þetta er ekki sagt til að draga úr vægi orða Ögmundar heldur til að minna enn einu sinn á að öll þau réttindi sem þykja sjálfsögð í lýðræðisríki eru fengin með baráttu almennings í andsöðu við ríkjandi valdhafa og auðmenn. Ýmsir vilja halda því fram að verkalýðssamtökin hafi sofnað á verðinum um leið og frjálshyggjunni óx fiskur um hrygg. Ég tek ekki undir það, en vissulega þarf hún á öllu sínu að halda til að verja árangurinn. Nefna má glænýtt dæmi. Rétt í þessu var haft eftir einum ungliðanum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að það væri aðeins spurning um tíma hvenær skólagjöld yrðu tekin upp í ríkisháskólum, samkeppnisstaða þeirra gagnvart einkaskólunum væri óviðunandi, þar sem þeir tækju skólagjöld til viðbótar ríkisframlaginu.

Verkalýðshreyfingin barðist ekki fyrir jafnrétti í víðasta skilningi, þ.á.m. til náms, til þess að staða skólanna yrði jöfnuð með skólagjöldum. Samkeppnisstaða nemenda skiptir hér öllu máli. Vilji auðmenn senda börn sín í rándýra „einkarekna" háskóla þá hafa þeir vafalaust efni á því. Ungt fólk sem kemur frá efnaminni heimilum á að eiga raunverulega möguleika á langskólanámi án þess að þurfa að greiða hininhá skólagjöld á hverju ári. Meðal annars um þetta snýst jafnréttið, sem á sinni tíð var þröngvað uppá borgarastéttina með harðvítugum verkföllum.

hágé.