Fara í efni

ÞEGAR TÆKIÐ VERÐUR AÐ MARKMIÐI

Umræðan um hugsanlega inngöngu Evrópusambandið virðist vera orðin keppni um það hvaða sjálfstæðismaður getur sagt „aðild að ESB snýst aðeins um hvar hagsmunum Íslands er best borgið" oftast í einum sjónvarpsþætti. En er ekki eitthvað verulega bogið við málflutning af þessu tagi? Að baki hennar liggur auðvitað hugmynd um að hagsmunir séu eiginleiki sem eigna beri þjóðum fyrst og fremst en ekki einstaklingum, eða réttara sagt stéttum.

Sannleikurinn er auðvitað sá að þótt viðskiptajöfrar, eigendur fyrirtækja og atvinnurekendur hafi eflaust hag að því að ganga í ESB þá er allsendis óvíst að hið sama gildi um til dæmis fiskverkafólk, skrifstofustarfsmenn, hjúkrunarfræðinga og bændur. Fiskverkafólk á Íslandi á meira sameiginlegt með námustarfsmönnum í Bretlandi en viðskiptajöfrum á Íslandi og allt tal um „hagsmuni Íslands" er auðvitað ætla að fela þau augljósu sannindi. Upphafspunkturinn í umræðu um Evrópusambandið ætti því að vera þessi: Með inngöngu í ESB verða hagsmunir sumra stétta settir í forgang á kostnað annarra, kannski til hins verra en kannski til hins betra - um það snýst umræðan.

Sé þetta útgangspunkturinn er engin ástæða til að vera sérstaklega á móti ríkjabandalögum eins og ESB af sömu ástæðum og fáir eru á móti hnífum. Hvort tveggja er hægt að nota til góðs og til ills. En þá skiptir máli að við gerum okkur grein fyrir því að bæði hnífar og ríkjabandalög eru hættuleg áhöld sem hafa ríka tilhneigingu til að verða vopn í höndum þeirra sem standa betur að vígi - þeirra sem hafa völdin í samfélögum okkar og notfæra sér slík áhöld til að styrkja þau í sessi á kostnað allra hinna.

Auðvitað á þetta líka við um þjóðríkið, og raunar allt yfirvald. En ef reynslan af lýðræðis segir okkur eitthvað þá er það að eftir því sem valdastofnanir eru lýðræðislegri eru minni líkur á að valdamisnotkun og misrétti eigi sér stað. Og ef eitthvað má segja með vissu um Evrópusambandið þá er það að hinni lýðræðislegu ákvarðanatöku er þar stórlega ábótavant, svo ekki sé meira sagt, sem lýsir sér kannski best í ótrúlega slakri kosningaþátttöku, jafnvel í löndum sem hafa sterka lýðræðishefð. Kosningaþátttakan er þó jafnvel minna vandamál en áhugaleysið sem almenningur sýnir Evrópusambandsstjórnmálum.

Vandinn er sá að í krafti lýðræðishallans hefur ESB einmitt verið notað sem verkfæri - vopn - í höndum þeirra sem hafa völdin gegn þeim sem eru valdalausir. Það sést til dæmis á ítrekuðum tilraunum Evrópusamabandsins til að drepa niður starf verkalýðshreyfinga og auðvelda félagsleg undirboð, til að koma markaðshyggju inn í heilbrigðis- og menntakerfum aðildarríkjanna og svo framvegis. Við skulum ekki gleyma því að öll helsta frjálshyggjulöggjöfin sem Íslendingar hafa tekið upp á síðustu árum koma ekki frá Sjálfstæðisflokknum heldur frá Evrópusambandinu. Það er líka ástæða til þess að minna á að næstum allir íhaldsflokkar í Evrópu eru hæstánægðir með ESB, enda samræmist það þeirra pólitík. (Það sýnir hversu brengluð umræðan er hérlendis að íslenskir jafnaðarmenn nota þetta sem rök með, en ekki á móti, Evrópusambandsaðild.)

Vegna alls þessa er það dálítið skrýtið að flokkur eins og Samfylkingin, sem á að heita lýðræðislegur félagshyggjuflokkur, vilji ganga inn í ríkjabandalag þar sem hvorki lýðræði né félagshyggja er í hávegum höfð. En það er raunar dæmigert að talað sé um „Evrópuhugsjónina" í flokki sem gerði það að sínu helsta markmiði í pólitík að verða stór flokkur, „burðarflokkur í ríkisstjórn" hét það í örvæntingunni fyrir síðustu kosningar. Nú auglýsir ungliðahreyfing flokksins það sem sitt helsta markmið að verða stærsta ungliðahreyfing landsins. Og þannig mætti lengi telja.

Kannski leysir þetta ráðgátuna um stuðning Samfylkingarinnar við ESB. Flokkurinn virðist hafa gert aðferðina, tækið, að markmiði í sjálfu sér. Stærð flokksins er orðið að sjálfstæðu markmiði, ef marka má forystu hans, en ekki leið til að ná fram þjóðfélagsbreytingum. Og hið sama gildir um „Evrópuhugsjónina": ESB er ekki lengur tæki til að ná fram markmiðum eða gera hugsjónir sínar að veruleika, heldur markmið í sjálfu sér, hugsjón. Þess vegna er allt gott og rétt sem kemur frá ESB, samkvæmt skilgreiningu, enda virðist höfuðmarkmið flokksins ekki lengur vera að berjast fyrir félagslegum umbótum heldur að gera „Evrópuhugsjónina" að veruleika.