Fara í efni

ERU ÓLYMPÍULEIKAR PÓLITÍSKUR VETTVANGUR?

Ég hef fylgst náið með ástandi mála í Tíbet og í Kína á meðan á Ólympíuleikarnir hafa staðið yfir. Ég hef reynt að setja mig í spor ráðamanna okkar og þeirra sem halda því fram að það sé rangt að blanda saman íþróttum og pólitík. Þar hafa farið fremst í flokki menntamálaráðherra Íslands, Þorgerður Katrín og íslenska Ólympíunefndin.
En hafa kínversk yfirvöld sjálf virt þessar siðareglur Alþjóða Ólympíusambandsins?
Það þarf ekki að kafa djúpt ofan í fréttir sem tengjast Ólympíuleikunum til að sjá að svo er ekki.
Þegar kyndill fór í gegnum Lhasa í Tíbet notuðu þeir tækifærið til að úthúða Dalai Lama, kölluðu hann ónöfnum og lítilsvirtu hann með hinn helga ólympíuloga sér í höndum.
Lokadagskrá Ólympíuleikana inniheldur áróðursóperu þar sem ástandið í Tíbet er málað fögrum litum og hve mikil blessun það er fyrir Tíbeta að vera innlimaður í Kína.
Þann 18. ágúst skutu kínverskir hermenn yfir 100 Tíbeta sem voguðu sér að mótmæla. Stórir hlutar Tíbets hafa eru eins og fangelsi og hefur ástandið sjaldan verið eins slæmt og núna í landinu.
Kínversk yfirvöld lofuðu að opna aðgang fjölmiðla að landinu og að heimila óhindraðan aðgang fyrir kínverskan almenning að erlendum fjölmiðlum. Þetta var reyndar skilyrði sem IOC setti þeim fyrir hátíðina en það hefur verið þverbrotið. Enginn fjölmiðill fær aðgang að Tíbet. Landið er lokað og þeir sem fluttu fréttir af fjöldamorðinu þann 18. ágúst stofnuðu lífi sínu í hættu. Öllum fréttum sem koma frá Tíbet er smyglað út úr landinu, voðaverkin sem þar fara fram hafa fengið að fara fram hindrunarlaust á meðan heimurinn skemmtir sér við að horfa á íþróttir í glæsilegum mannvirkjum. Mannvirki sem hafa kostað fjölda fólks heimkynni sín og síðast í gær voru tvær konur 77 ára og 79 ára dæmdar í árs vinnuþrælkun fyrir það eitt að biðja um leyfi til að mótmæla því að hús þeirra voru jöfnuð við jörðu fyrir glæsilegu mannvirkin.
Forseti Íslands á þess kost að ræða um bágt ástand mannréttinda í Kína þegar hann hittir forseta Kína í dag. Þó finnst mér sennilegt að ekkert verði af slíkri hetjudáð enda má ekki spilla góðu viðskipta sambandi þjóðanna.
Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með fréttum af Tíbet bendi ég á að slá inn leitarorðið Tibet í google news. Ég verð reyndar að lýsa furðu minni á hve íslenskir fjölmiðlar hafa staðið sig illa í að flytja fréttir á gagnrýninn hátt um voðaverkin sem framin eru í skugga Ólympíuleikana.

Læt hér fylgja með bréf sem Tsewang Namgyal sendi á alla fjölmiðla landsins en fékk hvergi birt.

 

Ákall um frið í Tíbet

Mig langar til að minna á orð forseta Evrópska þingsins Hans Gert Pottering, sem hvatti íþróttamenn til að sýna sannan íþróttaanda með því að andmæla mannréttindabrotum þegar þeir koma saman í Kína. Það geta þeir gert með því að sýna í verki að þeir hafi ekki "gleymt" Tíbet.  Hver og einn íþróttamaður getur gert það á sinn hátt, með því að gefa merki sem umheimurinn skilur. Engin opinber starfsmaður getur hindrað það. Þar fyrir utan, er þetta kjörið tækifæri til að gefa kínverskum stjórnvöldum möguleika á að sýna heiminum að þau virði mannréttindi og hafa í raun og veru áhuga á að bæta ástandið í Tíbet. Kína ætti að vera fært um að höndla meiri ábyrgð með vaxandi áhrifamætti og völdum á alþjóðavísu.
Ég, fyrir hönd allra þeirra Tíbeta sem hafa misst réttinn á að tjá sig undir kínverska einræðinu, langar til að biðja íþróttafólkið sem eru fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum í Peking um að sýna okkur stuðning ykkar á hvern þann hátt sem ykkur finnst við hæfi. Þannig getið þið lagt ykkar að mörkum til að bæta stöðu mannréttinda í Kína og hvatt til að varanleg lausn finnist á málefnum Tíbets áður en menning þjóðar minnar þurrkast endanlega út.
Yfir tvöhundruð Tíbetar hafa verið drepnir í kjölfar mótmælana í mars í Tíbet og þúsundir hafa verið fangelsaðir þar sem þeir eru pyntaðir fyrir það eitt að eiga mynd af Dalai Lama í fórum sínum. Til að auka á aðförina á þjóð mína hefur landinu verið lokað fyrir fjölmiðlum þannig að ógerlegt er fyrir alþjóðasamfélagið að fá vitneskju um það harðræði sem Tíbetar búa við í dag, en samkvæmt fréttum sem smyglað er út úr landinu verður ástandið sífellt verra.
Eina leiðin til að fá fréttir sem hægt er að treysta er frá þeim Tíbetum sem hefur tekist að flýja landið yfir Himalayafjöllin en það er um mánaðarganga yfir hæstu fjallagarða heimsins. Margir deyja á leiðinni, sérstaklega er mannfallið mikið meðal barna sem leggja í þessa háskaför til frelsis.
Þetta er einlægt ákall til allra þeirra sem eru að fara á Ólympíuleikana í Peking sem og íslensku þjóðarinnar um að sína þjóð minni stuðning. Saman getum við gert þessa Ólympíuleika minnisstæða með því að sýna samstöðu með frelsi og mannréttindum. Björgum Tíbet með því að gera okkur meðvituð um hvað er að gerast þar og ljá þeim röddum sem hafa verið þaggaðar rödd okkar.
Með friðarkveðju,
Tsewang Namgyal
f.h. Tíbeta á Íslandi