Baldur Andrésson skrifar: RÍKIS-STJÓRNIN VEÐSETUR BÖRNIN OG FRAMTÍÐINA
Á yfirstandandi bulltímum um ,,þjóðarsamstöðu"gengur nú
ríkisstjórnin með betlistaf að lánasnapi þannig að skuldsetja megi
hvert íslenskt heimili um tugi milljóna. Aðeins eitt
stórlánið sem fer strax til skuldagreiðslu, þetta frá
Alþjóðabankanum og Norðurlöndunum leggur sig á 16 milljónir
á hvert íslenskt heimili segir Viðskiptablaðið. Nú á ríkið að
skrá sig að auki fyrir hundraða milljarða skuld við breska
ríkið vegna Landsbanka-glæpanna. Áfram verður
strokkað því mörg önnur Evrópuríki undirbúa
álíka kröfugerð. Glitnis-hyskið sætir nú lögreglurannsókn
vegna milljarða-þjófnaða í Noregi.-
Krimmarnir eru í felum en íslensk börn og framtíðin er veðsett
vegna afbrotanna. Örvæntingarfullir ráðherrar eru nú í samningagerð
um ríkisútgjöld sem nema margföldum þjóðartekjum Íslands,
svo ekki sé minnst á upphæðir fjárlaga.
Lánskuldbindingar svara auðvitað til útgjalda !
Allt þetta ferli er sönnun á að ráðmenn Íslands telja sig meðseka
og ábyrga fyrir þeim efnahags-landráðum,sem framin hafa verið
undanfarin ár. Allt taut Geirs Haarde um frábæra stöðu ríkissjóðs
ber vott um ófyrirgefnalegar blekkingar. Málið snýst ekki einungis
um kunna ágalla kapítalisma og nýfrjálshyggju. Þetta er
afbrotamál sem snýst um stórþjófnaði, peningaþvætti,
skjalafals, bókhaldssvik, ótrúlega fjárglæfra.
Alþjóðalánsfjárkreppan afhjúpaði svindlið en hún er auðvitað ekki
orsakavaldur þess. Glæpa-kerfið var séríslensk uppfinning, stutt af
íslenskum stjórnvöldum. Nú er heilt ár liðið síðan ljóst var
að glæpakerfið var í raun hrunið !
Í þessu Írafári er varla minnst á Alþingi Íslendinga.
Það tók sér laaangt frí sl. vor og er nýmætt til þeirra daglegu
starfa að þusa um smámálin á meðan skipið sekkur. Engum virðist
detta í hug lengur að Alþingi sé lýðræðisvettvangur og að til þess
eigi að gera kröfur. Á meðan situr ráðherravaldið og skrifar upp á
stjarnfræðilega framtíðarvíxla !
Baldur Andrésson