Fara í efni

OPIÐ BRÉF TIL GUNNARS GUNNARS-SONAR, FYRRVERANDI FRAMKVÆMDA-STJÓRA SJÚKRALIÐA-FÉLAGS ÍSLANDS

Í september blaði Sjúkraliðans birtist bréf frá þér til Ögmundar Jónassonar, bréf sem Ögmundur hafði reyndar þegar birt á heimasíðu sinni.  Þar sem bréfið fjallar að miklu leyti um samkomulag Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 9. júlí 2008, ákvað ég að skrifa þér lítið „letters bréf".  Ég hefði reyndar kosið að þú hefðir haft samband við mig áður en þú skrifaðir Ögmundi bréfið, því þá hefði ég getað skýrt fyrir þér þá hugsun sem liggur að baki samkomulaginu og leiðrétt misskilning.

Að mínu mati er mikilvægt að muna að kjarasamningar eru hluti af starfskjörum launamanna.  Hið sama gildir um starfsumhverfi.  Ég tel afar mikilvægt að samhengi sé á milli þessara tveggja þátta.  Jákvæðasta starfsumhverfi fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar vaktavinnu- og kvennastéttir er m.a. að:

  • - framlögð vaktskrá standist eins og kostur er,
  • - hjúkrunarfræðingurinn sé laus við truflun og beiðnir um breytingar á vöktum eða aukavaktir þegar viðkomandi á frí,
  • - að mönnun sé slík að hver vakt sé nánast fullmönnuð hjúkrunarfræðingum sem hafa gert ráð fyrir þeirri vakt með löngum fyrirvara og því getað samþætt vinnu og fjölskyldulíf.

Hið nýgerða samkomulag Fíh og ríkisins miðar að því að ná slíku starfsumhverfi.  Í samkomulaginu er einnig leitast við að semja miðlægt um þætti sem nýtast öllum hjúkrunarfræðingum, hvar sem þeir starfa eða hversu gamlir sem þeir eru. 

Lækkun yfirvinnustuðuls

Eins og þér er kannski kunnugt um skiptast heildarlaun hjúkrunarfræðinga þannig að um 67% eru dagvinnulaun, 13% eru álagsgreiðslur og um 20% heildarlauna eru vegna yfirvinnu.  Þetta yfirvinnuhlutfall er að mati forystu Fíh allt of hátt.  Hjúkrunarfræðingar eiga, eins og aðrir, að geta lifað af dagvinnulaununum.  Hitt er, að meðal starfshlutfall hjúkrunarfræðinga fer lækkandi, er nú komið niður í 75%.  Ein skýring þessa er stöðugt áreiti vegna aukavakta og möguleikinn að hækka heildarlaunin með því að taka aukavaktir.

Lækkun yfirvinnustuðulsins og veruleg hækkun dagvinnulauna á móti veldur því að hjúkrunarfræðingar hafa frekar „efni á því" að hafna aukavöktum.  Þeir velja þess í stað að hækka starfshlutfall sitt og vinna þá eingöngu fyrirfram skipulagðar vaktir.  Með því fæst fram jákvæð breyting á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, hver vakt verður betur mönnuð, álag minnkar á hvern og einn, fólk fær frið í fríum sínum, stjórnendur geta betur skipulagt starfsemina og síðast en ekki síst fá skjólstæðingarnir betri þjónustu.  Sem sagt - allra hagur. 

Þú segir í bréfi þínu til Ögmundar að yfirvinna hjúkrunarfræðinga hafi verið lækkuð um 9% og tiltekur prósentutölur „af sama stofni".  Þarna veist þú betur Gunnar!  Vissulega reiknast yfirvinnan enn af stofninum dagvinna en vegna verulegrar hækkunar dagvinnulauna hækkar yfirvinnuklukkustundin hjá öllum hjúkrunarfræðingum, í krónum talið.  Það er það sem skiptir máli.

Það er mikið ánægjuefni að vita til þess að áhrifa þessarar nýju og jákvæðu hugsunar í kjarasamningum er þegar farið að gæta.  Hjúkrunarfræðingar hafa aukið starfsprósentu sína og eru frekar en áður lausir við aukavakta-kvabbið.

Hvað á heima í miðlægum kjarasamningi?

Þegar dreifstýringu í launum ríkisstarfsmanna var komið á var skilið á milli miðlægra samninga og stofnanasamninga þannig að hið almenna ætti heima í miðlægum samningi en hið sértæka í stofnanasamningum.  En þetta þekkir þú nú betur en ég þar sem þú tókst þátt í að smíða þetta kerfi, en ekki ég.  Sértæk kjör einstakra hópa eða á einstökum stöðum eiga í dreifstýrðu kerfi heima í stofnanasamningum.  Í samræmi við þessa hugsun samdi Fíh um eftirfarandi breytingar á miðlægum samningi:

  • - Geðdeildarfríið var sett á sólarlag, þ.e. þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa þetta frí í dag halda því á meðan þeir starfa á geðdeildum en hjúkrunarfræðingar sem ráða sig á geðdeildir eftir gildistöku samkomulagsins fá ekki sérstakt geðdeildarfrí. Geðdeildarfríið kom til áður en stofnanasamningar voru gerðir og vegna þess að þá var erfiðara að manna geðdeildir en nokkrar aðrar deildir. Nú eru einungis reknar geðdeildir á Landspítala (LSH) og Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA). Auk þess er nú síður en svo erfiðara að manna geðdeildir en margar aðrar deildir. Þá má spyrja - er sanngjarnt gagnvart hjúkrunarfræðingum á t.d. taugalækningadeild LSH sem erfitt hefur verið að manna hjúkrunarfræðingum í nokkur ár, að þeir fái ekkert aukafrí á meðan að sá tiltölulega litli hluti hjúkrunarfræðinga sem vinnur á geðdeildum fær aukafrí sem samið er um í miðlægum samningi? Stjórnendur LSH og FSA (og stjórnendur annarra heilbrigðisstofnana) eiga þvert á móti að hafa svigrúm til að launa sérstaklega þá hjúkrunarfræðinga sem starfa á deildum sem erfitt er að manna á hverjum tíma.
  • - Hin svokallaða 55 ára regla var felld úr miðlægum samningi eftir mikla skoðun. Þar kom fyrst og fremst til það sjónarmið að ekki ætti að vera ákvæði um einn aldurshóp umfram annan í miðlægum kjarasamningi. Af hverju ættu t.d. einstæðir foreldrar með börn yngri en 13 ára ekki að vera undanþegnir næturvöktum? Hitt var að þegar rýnt var í gildistöku þessa ákvæðis kom í ljós að engin vatnaskil urðu við 55 ára aldurinn. Fjöldi hjúkrunarfræðinga tóku nætur- og bakvaktir eftir 55 ára aldur, aðrir voru hættir að taka slíkar vaktir löngu fyrir 55 ára aldurinn. Þeir hinir sömu höfðu annað hvort lagt fram læknisvottorð eða samið við sinn yfirmann um að vera lausir við slíkar vaktir. Og það er einmitt mergurinn málsins - þetta er sértækt ákvæði sem á heima í stofnanasamningum eða einstaklingssamningum.
  • - Greiðslur vegna breytinga á vöktum voru verulega minnkaðar. Eins og að framan greinir á skipulag starfa hjúkrunarfræðinga að vera þannig að framlögð vaktskýrsla standist eins og kostur er. Breytingar á skýrslu eiga að vera algjör undantekning og kjarasamningar eiga ekki að gera ráð fyrir verulegri umbun vegna slíkra neikvæðra inngripa í störf og líf hjúkrunarfræðinga. Mjög er misjafnt hversu mikið þetta ákvæði um breyttar vaktir er nýtt, bæði milli stofnana og milli deilda. Þetta er því dæmigert sértækt ákvæði sem á heima í stofnanasamningum. Auk þess er ljóst að það er fyrst og fremst hagur stjórnenda að hafa slíkt „gulrótar-ákvæði" inni í kjarasamningi. Þar sem mikil þörf er á að fá hjúkrunarfræðinga til að breyta vöktum munu stjórnendur því verða þeir aðilar sem tala fyrir umbun fyrir slíkar breytingar. Að öðrum kosti eru hjúkrunarfræðingar hvattir til að vinna sínar fyrirfram skipulögðu vaktir og virða frítíma sinn.

Að lokum

Ég ætla ekki að eyða plássi hér í rökræður um hvar samningsrétturinn eigi að liggja þ.e. hjá einstökum félögum eða bandalögum.  Það er efni í aðra grein og sitt sýnist hverjum um það atriði.

Ég vona Gunnar að þú skiljir þá nýju hugsun sem er í hinu nýja samkomulagi Fíh við ríkið.  Ég veit að það hefur þegar haft jákvæð áhrif á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga auk þess sem verulega hækkun dagvinnulauna er stórt skref framávið.  Ef eitthvað er enn óljóst, hafðu þá endilega samband.  Ég mun biðja Ögmund að birta þetta bréf á heimasíðu sinni, svona til að gæta jafnræðis.

Með kveðju og góðum óskum þér til handa,

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga