Fara í efni

GÓÐÆRINU ER EKKI LOKIÐ

- af því að það var ekkert góðæri. Góðæri er þegar vel árar þannig að hægt er, vegna veðurfars eða annarra náttúrulegra skilyrða, að afla vel, hvort sem er til sjávar eða sveita, án þess að ganga á auðlindina. Og skynsamir menn leggja þá fyrir til mögru áranna.

Hið svokallaða góðæri undanfarinna ára var blekking. Það var ekkert til að leggja fyrir. Það byggðist ekki á meiri fiskafla, meiri uppskeru til sveita eða meiri framleiðslu í verksmiðjum. Okkur var sagt að það væri verið að skapa auð, en þessi auður var ekkert annað en síhækkandi tölur sem hringsóluðu á rafrænan hátt milli tölvukerfa, banka og fjármálafyrirtækja. Og þó urðu þessar tölur að auði í höndum útvalinna manna í lykilstöðum. En þessi auður var ekki nýr auður, hann kom ekki úr neinni framleiðslu og því síður af himnum ofan. Hann var sjálftekið lán og reyndar þýfi.

Það hlaut að koma að skuldadögum. Og nú skulu þeir borga sem minnst nutu blekkingarinnar, sem ekki eyddu um efni fram, heldur unnu sína vinnu af samviskusemi og heiðarleika. Og unglingarnir og börnin, vinnuafl framtíðarinnar.

Góðærið var þjófnaður. Á árum áður var notað orðið arðrán, sem þýðir að arðinum af vinnu almennings er rænt. Það er það sem gerðist.

Hefur eitthvað tapast? Engin hús hafa brunnið í eldsvoðum eða hrunið í jarðskjálftum. Enginn hefur sett jarðskálftana í sumar í samhengi við það sem nú dynur yfir. Eldgos hafa ekki lagt lönd í eyði. Það hefur ekki orðið uppskerubrestur eða aflabrestur, engin snjóflóð hafa eyðilagt mannvirki og langt er liðið frá meiriháttar skipsskaða. Ekkert hefur eyðilagst. En margir hafa tapað þótt ekkert hafi brunnið, hrunið eða sokkið.

Það er jafnrangt að líkja kreppunni við náttúruhamfarir og kalla undanfarandi tímabil góðæri. Kreppa er í raun skuldadagar, þegar skuldum braskaranna og arðræningjanna er velt yfir á alþýðuna. Í kreppunni nær arðránið hámarki, þá er farið í vasa almennings og arðinum af vinnu hans stolið til að borga sýndargróða undanfarinna ára, sem var í raun fyrirfram nýttur ránsfengur. Hið svokallaða góðæri og kreppan eru í raun tvö stig í arðránsferlinu.

Kreppur eru ekki náttúruhamfarir. Þær eru kannski óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans. En kapítalisminn er ekki náttúruafl, hann er samfélagskerfi og samfélagskerfum er hægt að breyta eða bylta.