Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar: ÞAÐ ERU AÐ KOMA JÓL
Bjössi föðurbróðir minn, Björn Leví, gaf alltaf fuglunum um
vetur. Þarna stóð ég með honum og Siggu minni og dáðist að fuglunum
þyrpast inn á svalir til þeirra og éta kornið sitt. Bjössi kenndi
mér margt um fegurð fuglanna og fegurð steinanna. Hann átti
einstaklega fallegt steinasafn úr íslenskri náttúru og æfði mig
fyrir jarðfræðipróf svo ég gæti nú kunnað einhver örlítil skil á
grundvallaratriðum tilverunnar.
Ég rifja þetta upp nú af því að það eru að koma jól og það er góð
gjöf að gefa fuglunum. Ég rifja þetta líka upp vegna þess að Björn
Leví var frændi Ögmundar Jónassonar og Björn Leví föðurbróðir
Ögmundar tefldi skák við ömmu mína Guðfríði Lilju. Og enga konu
dáði ég jafn heitt og ömmu mína Lilju. Hún var hugrökk, sjálfstæð,
grimm, kjaftfor, skemmtileg, frumleg, hlý, gjafmild . Hún var
gallagripur en sinn eigin herra, sín eigin frú, karakter.
Björn Leví föðurbróðir Ögmundar sem kom og tefldi við ömmu mína og
afa var einn af þeim fyrstu sem töluðu fyrir náttúrulækningum á
Íslandi. Hann var gagnrýndur fyrir og talinn halda fram undarlegum
sjónarmiðum. Síðari tímar hafa svo auðvitað viðurkennt að hans
sjónarmið voru langt á undan sinni samtíð, og það er fyrst nú sem
við sjáum hve takmörkuð hún var, sjónin, á fyrri tímum. Ég skrifa
þetta nú um Björn Leví og frændfólkið af því að þetta er heimasíða
Ögmundar Jónassonar og það eru að koma jól.
En hversu takmörkuð er okkar eigin sjón í dag? Úff, æ, púff, hæ,
hrikalega takmörkuð. Mín sem þín sem allra hinna. Við svo
takmarkaðan veruleika, hver er þá besti vegvísirinn, gjöfulasti
áttavitinn? Í fyrsta lagi heiðarleiki. Og hvað er þá í öðru lagi,
þriðja lagi, fjórða lagi? Kannski sannsögli, kannski réttsýni,
kannski sanngirni, kannski andans gildi.
Og þá spyr ég: Hverjir halda uppi slíkum gildum í þeirri runu
hneyksla, spillingar og fjárplógsstarfsemi sem við stöndum
frammi fyrir í dag? Hvar eru raunsönn gildi undirliggjandi? Við
skulum gleyma allri pólitík um stund og bara spyrja um heiðarleika
og sannsögli.
Sagði til dæmis Samfylkingin satt og rétt og heiðarlega frá í
umræðum um eftirlaunafrumvarpið í dag og í fyrradag? Nei.
Ef Heiðarleik og Sannsögli væru grafin í gröf - sem þau náttúrulega
eru fyrir löngu síðan - þá mundu þau snúa sér við og hvæsa.
Loddaraskapur og lýðskrum eru hins vegar kát við Austurvöll svona
rétt fyrir jól.
Nú er það þannig að ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn fari frá og það
strax. Ég vil mynda hér félagshyggjustjórn, sem þýðir þá - altént
miðað við núverandi pólitískt landslag með þeim flokkum sem fyrir
eru - að Samfylkingu og Vinstri grænum ber siðferðileg skylda
til að mynda starfstjórn og boða til kosninga sem allra fyrst.
Þetta segi ég ekki vegna þess að mér hugnist Samfylkingin. Ef satt
skal segja hef ég aldrei séð jafn mikinn loddaraskap,
tækifærismennku, sýndarmennsku og lýðskrum og viðgengst hjá þeim
flokki. Þau blekkja eins og ekkert sé. En mér hugnast um margt
stefna flokksins á blaði og ég veit fyrir víst að ég á mikla
samleið með kjósendum Samfylkingarinnar. Þar fer margt alvöru
félagshyggjufólk sem vill breytingar. Ég held þess vegna að það sé
hægt að sveigja forystuna á réttari braut.
Nú er alltaf verið að flækja pólitík. En í raun á hún að snúast um
grundvallaratriði sem sérhvert mannsbarn í þessu landi á að geta
skilið. Viltu að nokkrir auðjöfrar eigi Ísland eða viltu að gæðum
lands og hugar sé dreift sem víðast? Viltu að stjórnmálaflokkar
segi satt og rétt frá eða viltu að þeir komist ævinlega upp með að
villa um fyrir fólki?
Eitt af því sem ég er stolt af við íslenskt samfélag - og það er
margt - er þessi sérkennilega og merkilega blanda
einstaklingshyggju og kröfu um jöfnuð. Allir eru jafnir, en um leið
eiga einstaklingarnir að fá að blómstra. Þess konar landslag
einkenndi okkur lengi vel en undanfarin ár og í alltof langri
valdatíð Sjálfstæðisflokksins hefur bara annað einkennið í þessari
jöfnu fengið yfirhöndina. Auðvaldsríkið í nafni einstaklingshyggju
hefur bókstaflega fengið að valta yfir hina djúpu taug jöfnuðar og
sanngirni sem lengi vel sagði sitt. Samfylkingin hefur í orði
kveðnu spilað inn á jöfnuðarbreytuna en í verki gert hið
gagnstæða.
Fjárlög ríkisins fyrir næsta ár bera þess átakanleg merki. Aðförin
að íslenska velferðarsamfélaginu, og hugsjóninni um jöfnuð,
jafnrétti og jafnræði, er dramatísk og hún er raunveruleg. Hún er
hræðileg, og hún er fyrirlitleg, og hún er núna. Komandi frá flokki
sem vogar sér að taka sér orðið "Jafnaðarmannaflokkur" í munn er
þetta náttúrulega eins fáránlegt og hægt er að vera. Þetta er
ekkert annað en bein svik við kjósendur og það sem fólkið í landinu
kaus. Og vel að merkja - ég hef ekki minnst einu orði á spillinguna
og ruglið sem viðgengst hér dag eftir dag í málefnum og úrvinnslu
bankanna gömlu og fleiru til. Heiðarleiki í pólitík?
Ég byrjaði pistilinn á því að tala um fugla. Og ég ætla að enda
þar. Ögmundur frændi minn segir að þetta megi ekki vera of langt. Á
endanum þegar að er gáð erum við Íslendingar öll frændur. Við getum
öll flett upp Íslendingabók. Og ef eitthvað samfélag ætti að geta
staðið saman, hugsað um alla sína þegna, sína íbúa, sem hluta af
sinni eigin fjölskyldu, frændsemi, þá er það okkar litla samfélag.
Þar liggur vonin okkar megin. Ólíkt Bandaríkjum Norður-Ameríku,
Bretlandi og öðrum stærri ríkjum, sem eru rifin niður í kjöl af
ójöfnuði, stéttaskiptingu, rasisma og öðrum óhugnaði, þá eigum við
eyríkið-örríkið við Norðurhaf enn tækifæri til að vera stærri og
meiri í andanum og í samfélagsbyggingu heldur en við flest gerum
okkur grein fyrir. Stórkostlegar auðlindir umvefja okkur allt um
kring, fiskurinn i sjónum er okkar eiginlega verðtrygging, náttúran
heillar fólk um allan heim, og mannauðurinn sem hér býr er
takmarkalaus ef við kunnum að gefa því gaum. Það gerum við hins
vegar aldrei ef við líðum ósannsögli, óheiðarleika og loddaraskap
hjá íslenskum ráðamönnum. Þau verða að fara að læra, þótt fyrr
hefði verið, að fólkið í landinu krefst ekki bara áferðarfallegrar
ímyndar, það krefst innihalds. Heiðarleiki er lykillinn að
upprætingu spillingar, upplýsingar upp á borðið er lykillinn að
betri stjórnsýslu, þátttaka allra er lykillinn að alvöru
lýðræði.
Og nú er ég búin að skrifa alltof langt mál hér í örpistli á
heimasíðu. Það sem ég vildi sagt hafa er einfalt: Gleðileg jól kæru
landar nær og fjær, íbúar Íslands af öllum uppruna og fleiri til,
ekki síst þið Færeyingar! Megi gæfa og gleði fylgja ykkur öllum á
nýju ári. Og megum við í framtíðinni bera happ til að velja
heiðarleika sem fyrstu kröfu til allra okkar fulltrúa og stefnu til
framtíðar.
Þar sem úthreinsun tekur tíma skulum við gera eitt í millitíðinni
og það er þetta: gefa fuglunum, alveg sérstaklega smáfuglunum, og
huga að steinunum allt um kring. Steinarnir tala, sagði Þórbergur,
og hann kunni sitt og hvað í henni veröld. Gleðileg jól!