Gestur Svavarsson skrifar: RÍKISSTJÓRNIN ER FRJÁLSHYGGJU-STJÓRN

Það er ömurlegt að sjá til ríkisstjórnarinnar núna sem endranær. Í kjölfar stórrar kollsteypu frjálshyggjunar á Íslandi er haldið áfram að einkavæða - starfsemi St. Jósefsspítala er rétt Róbert Wessman og félögum á silfurfati.
Hafnfirðingar eru stoltir af spítalanum sínum. Hann er vel rekinn stofnun sem hefur þjónað Íslendingum vel. Sérhæfðar aðgerðir unnar á hagkvæman hátt. Þannig mætti sennilega lýsa þessum frábæra spítala. Nú á að gefa þetta. Einkavæða. Svona hvetur ríkisttjórnin til "fjölbreyttari rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu". Án ávinnings. Og hverjir eru ánægðir?
Margrét Björnsdóttir, samstarfskona formanns Samfylkingar til fjölda ára er ánægð. Það sá ég á Vísi.is. Henni finnst Guðlaugur vera hugrakkur. Árni Páll Árnason formaður heilbrigðisnefndar er ánægður. Honum finnst rétt að minna á að gjaldtaka þurfi að vera hófstillt í Speglinum á Rás 2 þann 8. Janúar. Þar réttlætti hann töku komugjalda. Svo þjónustan sé ekki misnotuð. Komugjöld fín, finnst honum. Ríkisstjórnin öll er væntanlega ánægð.
Ég hef ekki enn hitt ánægðan Hafnfirðing. Sama úr hvaða flokki hann er. Samfylkingin í sjálfum Hafnarfirði hefur ályktað gegn stefnu eigin ríkisstjórnar. Hafnarfjörður sem eitt sinn var talin sterkasta vígi jafnaðarmannaflokksins.
Það voru mótmæli í friðsama bænum í gærkvöld. Með þeim starfsmönnum sem voru á fundi á spítalanum sjálfum voru á þriðja hundrað manns sem mættu. Á netinu hefur orðið til tæplega 3000 manna hópur.
Það eru fáir í liði Frjálshyggjunni lengur. Nema Sjálfstæðisflokkurinn. Og svo Samfylkingin. Hún er í ríkissstjórn.

Fréttabréf