Fara í efni

AÐ GRÍNAST MEÐ ALVARLEG MÁL

Amma mín er að mínu viti með merkilegri konum. Hún er skýr í hugsun, með sterka réttlætiskennd og á fáar manneskjur set ég meira traust. Amma kunni mér þess vegna litlar þakkir fyrir spaug mitt í Íslandi í dag nýverið þar sem ég sagðist ekki treysta fólki sem drekkur ekki – það væri alltaf að plotta eitthvað annað meðan aðrir væru fullir. Amma hefur nefnilega aldrei bragðað áfengi og kæmi mér ekki á óvart að þess vegna sé hún svona skýr í kollinum, að verða 78 ára gömul!

Áfengisneysla getur verið meinlaus en hún getur líka verið mikil bölvaldur. Í nánast öllum fjölskyldum er a.m.k. einn alkóhólisti og samfélagsleg viðhorf gera það oft að verkum að strembið getur verið að kljást við drykkjuna. Þannig sagði faðir minn mér frá því að þegar hann hætti að drekka, fyrir bráðum 30 árum síðan, hefði hann oft pantað sér gos með sítrónu á veitingastöðum þannig að fólk væri ekki að amast yfir að hann væri edrú.

Brandarar, eins og þessi sem ég glopraði út úr mér í áðurnefndum þætti óg Vilhjálmur Ingi gerir athugasemd við hér á síðunni, geta verið hluti af félagslegum þrýstingi og um leið réttlætt misnotkun á áfengi. Til að taka af allan vafa þá var það alls ekki mín ætlun að taka þátt í slíku, enda þekki ég úr mínu nánasta umhverfi hversu slæm áhrif áfengisneysla getur haft.