Helgi Guðmundsson skrifar: NAUÐUNG

"Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins "sömdu" okkur út í hafsauga í Icesave deilunni síðastliðið haust. Ýmsir lögfræðingar og þjóðréttarfræðingar hafa alla tíð sagt að ekki hafi verið um eiginlegan samning að ræða heldur yfirlýsingu sem þvinguð var fram á upplausnarstundu - auk þess sem hún byggði ekki á lýðræðislegum vilja. Síðan hefur verið reynt að ná betri niðurstöðu. Slík niðurstaða er nú til umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu."

Þannig byrjar grein hér á síðunni, skrifuð 12. júní sl. Verður ekki betur séð en skynsamlega sé ályktað - í Icesafe deilunni stöndum við frammi fyrir hreinni nauðung, sem útrásarvíkingar og pólitískir bandamenn þeirra hafa kallað yfir þjóðina. Minnisblað eða samkomulag sem ráðherrar Haarde-stjórnarinnar gengu frá hefur mikla þýðingu því "síðan hefur verið reynt að ná betri niðurstöðu" eins og segir í tilvitnaðri klausu og er þar komið nærri kjarna málsins.

Ekki verður undan því vikist að skoða Icesafesamkomulagið í ljósi þeirrar nauðungar sem uppá þjóðina var þrengt á haustdögum og fól meðal annars í sér að Íslendingar borguðu u.þ.b. helming þeirrar skuldar sem Landsbankaforkólfarnir stofnuðu til í Hollandi og Englandi. Ekki verður heldur undan því vikist að takast á við nauðungina, komast á einhvern þann hátt frá málinu að líkur séu á að það valdi ekki enn meiri skaða fyrir íslenskt samfélag en orðinn er.

Hvaða leiðir eru tiltækar eftir að fyrir liggur að samþykki íslenskra stjórnvalda um að Íslendingar muni borga að tilteknu marki? Ef samþykki hefði ekki legið fyrir (hvernig svo sem það var til komið) hvaða leið hefði þá verið hægt að fara?

Í báðum tilvikum hefði verið hægt að fara tvær leiðir: segja nei, við borgum ekki eða að semja um með hvaða kjörum og á hve löngum tíma við borgum. Segjum að umræddri nauðungarsamþykkt hefði ekki verið þröngvað uppá okkur, við stæðum nú við upphaf samningaviðræðna, hafandi sett neyðarlög sem mismunuðu innistæðueigendum. Myndum við þá treysta okkur til að segja blákalt nei, erlendir innistæðueigendur í Landsbankanum eiga að bera skaðann en hinir íslensku ekki? Snúum dæminu við andartak og hugsum okkur að enskur banki hefði haft útibú hér, bankinn hefði rúllað og breska þingið hefði ákveðið að tryggja enskum viðskiptamönnum inneign þeirra en ekki þeim íslensku. Við hefðum skiljanlega gert kröfur um greiðslu innistæðnanna en breska ríkið segði nei. Ætli okkur þætti það ekki nokkuð hart aðgöngu og ósanngjarnt?

Réttlátt eða ranglátt. Þætti okkur þægilegt að horfa hvert framan í annað vitandi að Alþingi Íslendinga hefði brugðist breskum innleggjendum en varið okkur fyrir falli sama banka í báðum löndum? Ég satt að segja efast um að okkur hefði fundist við standa heiðarlega að málum, samviskan væri líklega ekki tandur hrein.

Í hinu tilvikinu, að fyrir liggji samþykki fyrri stjórnvalda um að borga og við segðum núna nei takk - við tökum ekki á okkur nauðung sem þvingað var uppá okkur. Hverskonar aðstaða er það? Ríkisstjórnir landanna tveggja (Hollands og Englands) hafa þegar sýnt að þær beita áhrifum sínum hvar sem tiltækt er til að þvinga okkur að samningaborði og þær hefðu alveg örugglega gert það áfram. Í annan stað er það býsna vafasamt fyrirkomulag á skuldbindingum milli ríkisstjórna að hverri nýrri stjórn leyfðist að hafna gjörðum hinna fyrri.

Kjarni málsins virðist mér vera þessi: Við áttum engan kost annan en að borga. Á hinn bóginn gátum við "reynt að ná betri niðurstöðu" eins og segir í tilvitnaðri klausu. Viðfangsefni samninganefndar og ríkisstjórnar gat því aldrei verið annað. Flestir virðast á því að samkomulagið sem nú liggur fyrir sé betra en hið fyrra. Hvort hægt hefði verið að ná enn betri samningi er ómögulegt að fullyrða neitt um. Þótt samningurinn hafi ekki komið fyrir almenningssjónir, virðist enginn efast um að upplýsingar um innihald hans séu réttar. Og hvert er það: Íslendingar greiða það sem ekki verður vikist undan, fyrst með eignum Landsbankans. Ef þær duga ekki til fellur mismunurinn á skattgreiðendur. Með öðrum orðum: gengið er að eignum Landsbankans (gamla) ytra á næstu 7 - 15 árum. Hvað þær duga langt leiðir tíminn einn í ljós.

Hinsvegar birtust athyglisverð ummæli, höfð eftir Álfheiði Ingadóttur formanni viðskiptanefndar Alþingis í Morgunblaðin í dag. Hún sagði að engin ríkisábyrgð yrði veitt nema að þingmenn fengju að sjá samninginn. Þessi orð sýnast vísa til þess að á því sé nokkur vafi, þingmenn verði hugsanlega að láta sér lynda kynningu á efni hans. Ef rétt er ályktað er ekki nema eðlilegt að spurt sé: eiga þingmenn og þjóðin ekki að fá að sjá samninginn?. Eðlilegast væri að hann birtist á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Þjóðin hefur þegar fengið nóg af leyndarsamningum á borð við orkusölusamninga Landsvirkjunar.

hágé.

Fréttabréf