Fara í efni

EINKA-SJÚKRAHÚS FYRIR MILLJARÐA, 120 MILLJÓNIR FYRIR GRENSÁS

Föstudagskvöldið 25. september greip ég Fréttablað dagsins til að fletta meðan ég horfði með öðru auganu á söfnunardagskrá ríkissjónvarpsins „Á rás með Grensás". Svona söfnunarátak er aðdáunarvert og í þættinum var virkileg samstöðustemning. Samkvæmt fréttum kvöldið eftir höfðu 120 milljónir safnast þá. Það er hins vegar dapurlegt að þörf sé á slíku söfnunarátaki fyrir jafnbrýna heilbrigðisþjónustu og Grensádeildinni er ætlað að veita. Og vel að merkja, þessi söfnun er ekki til komin vegna þeirrar kreppu sem við búum við núna, hér var verið að bregðast við gömlum vanda, vanda sem deildin bjó líka við meðan var allt í bullandi uppsveiflu.

Á 2. síðu Fréttablaðins þennan dag var fyrirsögnin „Leggja milljarða í nýtt einkasjúkrahús". Í fréttinni var sagt frá áætlunum um byggingu einkarekins sjúkrahúss sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum á erlendum ríkisborgurum og sagt að sjúklingar muni aðallega koma frá Evrópu og Bandaríkjunum, „en kjósi Íslendingar að kaupa sér heilbrigðisþjónustu á eigin kostnað sé það þeim í sjálfsvald sett," er haft eftir framkvæmdastjóranum.

Það þarf svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta. Eflaust má færa rök fyrir því að einkasjúkrahús fyrir vel stæða Evrópu- og Bandaríkjamenn sé ákjósanlegur kostur fyrir okkur, færi okkur tekjur og gjaldeyri og skapi heilbrigðisstarfsfólki og fleirum vinnu. En jafnframt minnir þetta okkur á þá hörðu staðreynd að kapítalismanum fylgir misrétti, óþolandi misrétti sérstaklega þegar það lýtur að heilbrigðismálum. Þeir, sem hafa efni á, og þeir eru talsvert margir, eiga að borga skatta, sem duga fyrir allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, í stað þess að láta af gæsku sinni aura af hendi rakna loks þegar einhver eldhugi hrindir af stað söfnunarátaki.

Einar Ólafsson