Baldur Andrésson skrifar: BANNAÐ BÖRNUM

Í  des.2007 vakti athygli mína spillingarsamningur þáv. menntamálaráðherra við Samson Properties, en þá lofaði hún með ríkisábyrgð að greiða fyrir lóðabraski fyrirtækisins við Laugaveginn, á Frakkstígsreit, borga kostnað við leigukassasmíði.   Milljarðasamningur var gerður til rekstarleigu á óbyggðu einkahúsi braskaranna til Listaháskólans, 14.000 fm. ferlíki í þröngu, grónu, miðborgarumhverfi. Að auki fékk einkafyrirtækið að gjöf verðmætt  ríkisland í Vatnsmýri(!).   Ríkisgjöfin til braskfyrirtækis Björgólfs var metin á nálega 6 milljarða. Samson átti að verða borgið í bili. Ríkisgjöfin var ,,utan ríkisreiknings", geðþóttagerningur. Á þessum tíma var þjóðin þögul.  Ísland var óspillt !   Bollaleggingar mínar um fyrrnefnda spillingargjörð leiddu nýrri athygli minni að annarri, stærri  hliðstæðu við Austurhöfnina, TR- húsinu og þeim ósköpum öllum sem fylgja áttu í nágrenninu.  Í desember 2007 vissi ég fyrir víst að þar var í gangi annð, grófara spillingardæmi, og líka hitt að þegar Frakkastígsruglið varð, var TR-málefnið þá þegar á allan hátt í uppnámi, fjármál og verkáætlun. Eigendur stefndu í fullkomið þrot !   Snillingar, nátengdir Landsbankanum, voru ennþá góðir með sig í ársbyrjun 2008 og spunavél þeirra gekk greiðlega í öllum fjölmiðlum. Stjónmálamenn þjónuðu vel ! Nokkrum mánuðum síðar kom stóra hrunið, stórlygunum og spillingunni var ekki lengur leynt. Svo kom pottaslagur.   Reynt er að hreinsa Frakkastígsspillinguna úr sögubókum, skömmustuleg grafarþögn ríkir. Sagan er bönnuð börnum .   Ráðstefnugímaldið við Austurhöfnina blasir hálfbyggt við alþýðu manna, það sem átti að verða þjóðargjöf Íslendinga til auðfélaga og braskara, viðskiptadraumur glæframanna.   Barnavernd á Íslandi leiðir til þess að rétt saga TR-málsins verði aldrei sögð. Ekki verður gímaldinu þó leynt eða þeim 30 milljarða tilkostnaði, sem alþýða manna mun nú bera.   Athygli er beint að menningarást, glerverki og upplognum rekstrargróða. Vanir menn spinna, þeir sömu og spunnu á bólutímanum. Ekkert munar þá um að ljúga um tilkostnað svo nemur á annan tug milljarða ! Brotinni braskhugmynd er nú umbreytt í sannkallað alþýðuframtak í þágu fólksins, í bili.   Gamalt og nýtt kusk á hvítflibba veldur börnum augnskaða. Ef kuskinu er sópað undir teppi, þá hverfur hættan um leið. Sumar sögur eru bannaðar börnum. Aðrar sögur eru enn í smíðum. Þær væru hættulegar börnum , en skapandi höfundar finnast  sem skapa barnslega fegurð úr vondum veruleika. Á Íslandi ríkir réttsýni, skynsemi, heiðarleiki, segja þeir.   Eigum við sjálf að trúa slíku bulli ?                                      
Baldur Andrésson, arkitekt.

Fréttabréf