Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar: RÉTT OG RANGT HJÁ JÓHÖNNU

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ræðu í vikunni að niðurskurður í velferðarþjónustunni væri kominn að þanmörkum. Þetta þýðir að hætt er við því að frekari niðurskurður muni  bitna á þjónustu og störfum, umönnunarstörfum, kvennastörfum, störfum sem enginn vill eða getur með góðu móti verið án. Með þessum ummælum minnti Jóhanna Sigurðardótti okkur á að þessi ríkisstjórn vill vera velferðarstjórn, líka á erfiðum tímum samdráttar. Þetta eru orð í tíma töluð og lífsnauðsynlegt að draga skýrar varnarlínur. Ef gengið er of nærri velferðarkerfinu erum við að bregðast grunnhlutverki okkar og erindi. Ég var sammála mörgu öðru í ræðu Jóhönnu - t.a.m. nauðsyn þess að hlutur kvenna í viðskiptalífinu sé bættur og að Ísland færist nær skattaumhverfi norrænna velferðarsamfélaga, burt frá því að hygla auðugum á kostnað láglaunafólks.

Ég var hins vegar hugsi yfir því sem forsætisráðherrann sagði á nýafstöðnu þingi Viðskiptaráðs um fjármálastofnanir og afskipti stjórnmálannna af þeim. Ef ég skildi Jóhönnu rétt, vill hún meina að það sé af hinu illa að lýðræðislega kjörnir fulltrúar skipti sér af háttum viðskiptalífsins. Þessi afskipti hafi hafist þegar menn einkavinavæddu bankana.

Það liggur auðvitað fyrir í sögulegu samhengi að afskipti stjórnamálamanna af viðskiptalífinu á Íslandi hófust ekki við einkavæðingu bankanna, það er öðru nær; slíkt afskipti voru rótgróin í gegnum árin. Einkavæðing bankanna sem slík lyktar af átakanlegri pólitískri spillingu, og nauðsynlegt eins og komið hefur fram á þessari síðu að það ferli sé rannsakað ofan í kjölinn og staðreyndir færðar fram í birtuna. Það sem hins vegar gerist í framhaldi af einkavæðingu er að bankarnir færast miklu mun fjær allri lýðræðislegri aðkomu, kröfum um upplýsingar og aðgengi almenningi til handa. Spilling viðskiptalífsins grasseraði í skjóli einkaframtaksins svokallaða. Þeir voru jú orðnir svo mikið "einka" bankarnir og fjármálakerfið að stjórnmálamenn áttu ekki að voga sér að hafa  þar einhver áhrif eða jafnvel skoðun. Stjórnmálalífið tók miklu fremur við skipunum frá bönkunum og gerði m.a. tillögur Viðskiptaráðs að sínum. Fjármagnið fékk að skapa samfélagið í þeirri mynd sem það óskaði. Í raun átti að þurrka út lýðræðið í veigamiklum geirum samfélagsins og leyfa "einkageiranum" að taka yfir. Stjórnmálin eru spillt, sagði sagan, markaðurinn leysir vandann.

Vandinn í einkavæðinu bankanna og því fádæma gróðakerfi sem hér byggðist upp var ekki lýðræðið heldur spilling, skortur á gagnsæi og skortur á lýðræði, skortur á lýðræðislegri aðkomu og aðhaldi. Það er ekki tilviljun að viðskiptasamningar séu leyndarmál, handan lýðræðisins. Kapítalið vill búa sér til sitt eigið samfélag þar sem almenningur hefur takmarkað aðengi. Kjarni hugmyndafræðinnar sem óð hér uppi var að það kæmi fólki einmitt ekkert við þótt gerðir væru mörg hundruð milljóna króna kaupréttarsamningar.  Bankarnir höfðu verið gerðir "frjálsir", kraftarnir "leystir úr læðingi" - það kom ekki okkur hinum við.

Svo hrundi spilaborgin, en áfram virðist malla undirliggjandi og allt um kring sama gamla hugmyndafræðin um "frelsi" fjármálakerfisins. Spurningin nú er hvort því sé leyft að gerast að sama gróðakerfið reisi sjálft sig við eða hvort gera verði hlutina öðruvísi ef þeir eiga raunverulega að breytast. Nú er kallað á lýðræðislega kjörna fulltrúa í landinu að sitja ekki hjá meðan útrásarvíkingar eignist aftur íslenskt viðskiptalíf, skilanefndir skammti sér ekki fleiri milljónir á mánuði, og kerfið haldi áfram uppteknum hætti - allt einmitt í skjóli þess að þetta sé allt svo mikið einka að almenningi komi þetta ekki við né heldur lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings.

Sú stund hlýtur hins vegar að eiga að renna upp að það komi að hugmyndafræðilegum skilum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings eiga að geta haft eitthvað um það að segja hvernig viðskiptalíf er reist hér við, hvernig samfélag er reist hér við, þá verða þeir að hafa einhverja aðkomu að gerð viðskiptalífs framtíðarinnar. Ef þeir hafa enga slíka aðkomu er tómt mál að tala um að "stjórnmálamenn" séu að verða þess valdandi að útrásarvíkingar eignist aftur Ísland. Ef stjórnmálamenn eiga að geta haft þarna alvöru áhrif, þá verður hugmyndafræðin um "frelsi" fjármálakerfisins, frelsi til að vera ríki í ríkinu handan lýðræðislegrar aðkomu, að láta undan. Hversu slæmir sem fólki finnast stjórnmálamenn vera þá er það nú samt þannig að hlutverk þeirra er skilgreint sem þjónar í þágu almannahags. Skilgreining fjármálastofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til fyrir nýja Íslands er arseðmi eigenda, punktur.

Hægt er að spyrja spurningarinnar: Vill fólk að bara Björgólfur Thor eða einnig Ögmundur Jónasson hafi eitthvað um það að segja hvernig viðskiptalíf byggist hér aftur upp? Ef fólk vill aftur tært og ómengað hið svokallaða "frelsi" fjármálakerfis (sem að mínu mati er vanvirðing við hugtakið frelsi en það er annað mál) þá verður það um leið að skrifa upp á að Björgólfur Thor hafi alla þá aðkomu sem honum lystir að endurreisn viðskiptalífsins. Fólk getur ekki bölvað og ragnað stjórnmálamönnum fyrir að gera ekki neitt í málinu ef það skrifar um leið upp á hugmyndafræðina um að stjórnmálamenn eigi ekkert að hafa um það að segja hvernig viðskiptalíf er reist hér við - stjórnmálamenn eigi að vera utan "frelsis" fjármálakerfisins og ekki að "skipta sér af".

Ef fólk vill hins vegar að Ögmundur Jónasson hafi eitthvað um endurreisn viðskiptalífsins að segja þá verður það að endurskoða hugmyndafræðina um frjálst fjármagnskerfi og skora á hólm heilaþvottinn sem átt hefur sér stað í þessum efnum öll hin síðari ár. Það klappa allir þegar sagt er að fjármálakerfinu eigi ekki að vera "miðstýrt" af stjórnmálunum. Þetta hljómar mjög vel - við erum frjálst, upplýst fólk. Sú sem þetta skrifar er ekki hrifin af miðstýringu, alls  ekki. En við erum afvegaleidd frá kjarna málsins þegar hlutum er stillt upp sem vali á milli "miðstýringar" eða "frelsis". Þetta snýst ekki um val milli "miðstýringar", "hafta", "afskipta" eða "frelsis" heldur hvernig hægt er að tryggja að hér byggist upp það samfélag sem fólk vill sjá, samfélag lýðræðis í þágu fólks en ekki fjármagns.

Það eru til spilltir stjórnmálamenn og það eru til heiðarlegir stjórnmálamenn. Það eru til spilltir viðskiptamenn og heiðarlegir viðskiptamenn. Sumir stjórnmálamenn ljúga, aðrir segja satt; og hið nákvæmlega sama á við um menn í viðskiptalífinu. Þetta á við um allt hið mannlega litróf - það eru árþúsunda gömul sannindi um mannlegt eðli.

Það sem gagnvart almenningi og samfélagslega aðgreinir "stjórnmálamanninn" Ögmund Jónasson og "viðskiptamanninn" Björgólf Thor er að þann fyrrnenfda getur fólk rekið úr starfi þegar það vill, og til hans sem stjórnmálamanns er gerð sú sjálfsagða krafa að allt séu uppi á borðum, hann sé þjónn almennings og eigi að framfylgja því sem hann er kosinn til. Þegar kemur að Björgólfi Thor þá hefur almenningur nákvæmlega ekkert um það að segja hvenær hann er ráðinn eða rekinn, hvaða stefnu hann framfylgir, hvaða tengslum hann hyglar, hver hans ítök eru í gerð samfélagsins, hver hans auður og lífssýn yfirhöfuð er. Þótt hann ráði óhemju miklu um það hvernig samfélag byggist hér upp í krafti auðs, valda og tiltekinnar gerðar af fjármálakerfi, þá er hann sem "viðskiptamaður" handan lýðræðisins.

Ef fólk vill að kjörnir fulltrúar almennings í landinu - hinir alræmdu "stjórnmálamenn" - hafi eitthvað um það að segja hverjir koma að viðskiptalífinu á "nýja Íslandi", með hvaða hætti viðskiptalífið er endurreist  og hvers konar fjármálakerfi verður hér aftur til,  þá verður fólk að þora að endurskoða heilaþvottinn um "frelsi" fjármagnsins. Án slíkrar endurskoðunar er tómt mál að úthúða stjórnmálamönnum fyrir að sitja hjá en hrópa að þeim um leið fyrir að ætla að hafa áhrif á gang mála.  

Um eitt er ég altént sammála Viðskiptaráði í nýrri ályktun: Það verður að passa að stjórnmálamenn láti ekki undan öflugum þrýstihópum. Samkvæmt reynslu fyrri ára hlýtur Viðskiptaráð þar að vera að vara við sjálfu sér og sínum eigin öflugu áhrifum innan Stjórnarráðsins á árunum fyrir hrun. Þökk sé höfð fyrir áminninguna. Hún er áríðandi sem aldrei fyrr og mál til komið að stjórnmálamenn hlusti meira á grasrótarsamtök fólksins í landinu heldur en hagsmunasamtök fjármagnsins.

Fréttabréf