Fara í efni

FÆÐIST ÍVAR?

Eitt af mikilvægum skrefum til hagræðis og niðurskurðar gæti verið að sameina endanlega yfirstjórn ASÍ og SA. Fáráðlegt er að reka tvær yfirstjórnir yfir tveimur samtökum, þegar ástarsamband þeirra yfirstígur alla venjulega rómantík innan lokaðra skápa. 
Sameiginleg gildi atvinnurekenda og verkamanna voru fyrsti félagsgrundvöllur verkafólks sem fljótlega villtist þó til sjálfstæðrar hagsmunabaráttu. Svo kann að virðast að íslenskir verkalýðsforingjar vilji nú hverfa að fyrstu gerð.   Hann hét Benitó, Ítalinn, sem þarlendis lagði á ný grunn að formlegri sameiningu samtaka atvinnurekenda og verkalýðssamtaka undir forsjá ríkisins. Ekki stendur á ríkinu og ekki stendur á atvinnurekendum á Íslandi og víst er að ASÍ er nú þegar viljugt. Saman standa ASÍ og SA að þeirri skoðun að varðveita eigi skattakerfi sem liðsinnir fjármagnseigendum og ábatasömum rekstri. Saman fullyrða samtökin, að úr gróða eignamanna komi sú smurning, sem hjól efnahagslífsins þarfnast umfram allt. Saman sjá þau helst þá úrlausn að samneysla landsmanna verði skorin niður, velferðarkerfið skaddað rækilega. Saman vilja þau ,,báknið burt". Sem alkunna er leiðir það einkum  til brottreksturs láglaunakvenna úr ummönnunarstörfum við fatlaða, gamla  og sjúka. Það er smáverð, sem gjalda þarf fyrir þá smurningu, sem ASÍ og SA eru sammála um að þurfi áfram að vera til staðar. Það er bara keppur í atvinnuleysistíð.    
Raunar birtist samhugur ASÍ forystunnar og SA á fjölmörgum öðrum sviðum. Einkavæðingarhyggjan á sér þar góða talsmenn og þar vilja SA & ASÍ leggja lóð á vogarskálar með stuðningfjármagni, smurningu frá lífeyrirssjóðunum sínum. Lækkun rauntekna almennings er sameiginlegt markmið, enda væri annað óábyrgt vegna hjólanna.     Forystumenn ASÍ og SA hljóta að sjá, að þeim ber að sýna gott fordæmi og slá sér einfaldlega saman formlega í eina sæng.
Nýja apparatið þeirra gæti heitið ÍVAR sem táknar, Íslenskir VinnumarkaðsAðilar og Ríkið". ÍVAR gæti orðið ljómandi samstöðustofnun, sem eflir samhug, eyðir miskilningi milli stétta og óþarfa ágreiningi um kjaramál landsmanna. Hagræðingarávinningurinn er augljós með ÍVAR. Íslenskur almenningur þarf síst af öllu á deilum og ósamlyndi að halda. Forysta ASÍ og SA vita öðrum betur að framgangur frægra hjóla byggist á því að næg verði smurningin og að fórnarlund íslensks almennings verði styrkt og efld. Ekkert ráð er betra en stofnun ÍVAR, sem aldrei má þó rugla saman við fantinn Ívar Hlújárn. Ef hinn merki frömuður, Benító lifði,mundi hann gleðjast yfir samtökum á borð við ÍVAR á Íslandi.                                                     
Baldur