Fara í efni

UM RÁÐHERRA-ÁBYRGÐ

Þorsteinn Pálsson skrifaðí grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 4. júní síðastliðinn og ber fyrirsögnina: "Gerska ævintýrið í nýrri útgáfu". Greinin er í stuttu máli samasafn og sambland af alls konar rangtúlkunum og hreinni vitleysu. Í fyrsta lagi gefur Þosteinn sér það að löngu tímabær réttarhöld yfir Geir Haarde séu pólitísk réttarhöld. Það eina sem er rétt í því samhengi er að pólitík virðist hafa ráðið því að fleiri voru ekki ákærðir af Alþingi í fyrra haust (þingsályktun). Eins og ég hef oft sagt, þá átti að minnsta kosti að ákæra þá fjóra ráðherra sem þar stóðu frammi fyrir ákæru. Þorsteinn ætti að hafa það í huga, að ákært er á grundvelli laga um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Þá er og í ákærunni vísað til ákvæða almennra hegningarlaga.

Samkvæmt kenningu Þorsteins á aldrei að ákæra samkvæmt ákvæðum neinna laga ef minnsti möguleiki er á því að hægt sé að tengja slíka ákæru við pólitík af einhverju tagi. En er ekki Alþingi pólitísk stofnun? Setur það ekki ábyggilega lögin sem þegnum landsins er ætlað að fara eftir (þar með taldir stjórnmálamenn)? Svo virðist sem Þorsteinn sé þeirrar skoðunar að ráðherrar skuli undanþegnir lögum, þ.e. að lög skuli ekki ná til þeirra. Þá vaknar sú spurning í hvaða tilvikum skuli beita lögum um ráðherraábyrgð og enn fremur hvort beiting laganna verði ekki ævinlega tengd pólitískum störfum ráðherra. Hvers konar tilvik sér Þorsteinn fyrir sér þar sem lögunum væri beitt en ekki reyndi á pólitísk störf viðkomandi ráðherra? Eða er Þorsteinn almennt þeirrar skoðunar að ráðherrar skuli standa algerlega utan við lög og rétt? Ber þá að túlka alla beitingu laga gegn ráðherrum sem pólitíska aðför gegn þeim? Þetta þarf Þorsteinn nauðsynlega að skýra betur. Öll útlegging Þorseins á réttarhöldum í fyrrum Sovétríkjum í þessu sambandi er vitleysa þeirrar gerðar að engu tali tekur - á ekkert skylt við það mál sem hér er til umræðu. Ef ekki er þörf á að kalla ráðherra til lagalegrar ábyrgðar (og pólitískrar) eftir ígildi þjóðargjaldþrots (greiðsluþrots) hvernær er þá ráðherra lagalega ábyrgur samkvæmt lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð?