Fara í efni

SÚSSI OG SÓKRATES

Mitt ríki er ekki af þessum heimi sagði Sússi, sem fór á kross. Hann var staddur í spillingarumgjörð valdabárða, þar sem kepptust þjóðrembuprestar og Rómverjaþjónar í pólitík. Sússi vildi ekkert hafa með þessa valdbjálfa að gera og hæddist að loddarabrögðum valdsjúklinga. Það varð hans bani umfram annað. Hann ógnaði valdabröskurum, spillti sameiginlegum leikvettvangi þeirra. Spillti æskunni.  
Rúmlega 400 árum fyrr neyddist Sókrates til eiturtöku í Aþenu. Kallinn sá var líka blánkur fræðari á götum borgar, líka þekktur fyrir að taka aldrei við fé eða vegtyllum frá valdastéttinni. Sá kallinn átti sammerkt með Sússa, sem síðar fæddist, að halda áru sinni hreinni. Beið því dauða síns ókeyptur og hreinlyndur, en skildi eftir sig menningarstofn, sem sannarlega lifir ennþá.
Sókratesi var umhugað um lýðræði, lögin, spillingarvarnir og upplýsinguna. Hann lagði grunn að siðferði og líklegt er að Sússi hafi þekkt til fræða Sókratesar 400 árum síðar, líkt og margir aðrir hafa gert frá dögum götufræðarans í Aþenu. Æskunni stóð sérstök ógn af orðum Sókratesar, töldu valdsmenn í Aþenu.  
Siðgæðafólk hefur margt fleira hrærst í veröldinni, þótt aðeins séu nefndir tveir ofsóttir heiðursmenn til sögu. Þúsundir fjölmiðlamanna hafa látið líf sitt fyrir það eitt að vilja upplýsa fólk um veruleika þess. Sömu örlög hafa mætt rithöfundum og fræðurum um víða veröld, ekki síst á okkar dögum. Eitt samheiti slíkra er andófsfólk. Sums staðar búa valdbjálfar slíku fólki bana eða fangelsi með pínu. 
Lúmskari eru þau tökin að setja slíka í verkbann (Breufsverbot) eða ritbann, brúka mjúkar kúgunaraðferðir, sem samt hafa reynst góðar til árangurs. Útlegðardómar fást í ýmsum gerðum á markaði kúgunar.  Í Íslandi þekkjast slíkir vel.  
Valkunn aðferð á kúgunarmarkaði er að nýta ofurfjármagn og tækni til stöðugs ruglandaáróðurs um samfélagsveruleikann. Endurtekningu á lygabulli má keyra af þeim krafti, að ekkert annað komist að. Yfirborðsskrumi má útvarpa, svo sannleikskornin týnist með öllu. Þetta eru helsu markaðsvörurnar sem íslenska valdstéttin nýtir sér um þessar mundir. Þær hafa yfirbragð sakleysis, líkist sjóbissness,en árangurinn lætur hvergi á sér standa. Þessi aðferð er ekki nýnæmi og er svonefnd árangurstengd kúgunaraðferð. Hún dugar sæmilega.   Væru Sússi og Sókrates meðal okkar nú, væri forvitnilegt að vita á hvaða geðdeild þeim væri haldið. Mögulega gengju þeir þó lausir, aðeins óhressir starfsmenn Sorpu, tautandi við sjálfa sig yfir tunnum. Báðir trúartengdu þeir andóf sitt til samræmis við ríkjandi menningarviðhorf á liðnum æviskeiðium þeirra. Báðir voru þeir þó andófsmenn gegn veraldlegum valdabjálfum.  Fyrir það eiga þeir ennþá virðingu skilið.                                      
Baldur Andrésson, arkitekt.  Jan 2012.