Kári skrifar: RÉTTUR RÍKJA INNAN ESB MEÐ TILLITI TIL EVRÓPU-RÉTTAR

Í þessari grein verða rakin stuttlega nokkur atriði sem máli skipta varðandi lagalega stöðu ríkja innan ESB. Ætlunin er alls ekki að halda uppi áróðri með eða móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, heldur einungis að gera stutta grein fyrir ákveðnum þáttum í lagakerfi þess. Innan ESB starfa tveir dómstólar sem sjá um að lögum sambandsins sé framfylgt. Annars vegar almennur dómstóll (General Court, áður Court of First Instance) og hins vegar eins konar hæstiréttur, Evrópudómstóllinn, (Court of Justice, áður European Court of Justice) en báðir eru þeir staðsettir í Lúxemborg.

Réttarheimildir í Evrópurétti

Eins og margir vita, eru lög Evrópusambandsins (EU Law) samsafn ýmissa réttarheimilda. Heimildirnar hafa mismikið vægi eins og menn þekkja í réttarkerfum einstakra ríkja. Innan Evrópuréttarins má efsta telja sáttmálana sjálfa (treaties) en þeir eru æðstu réttarheimildirnar (primary law) enda er sáttmáli í eðli sínu bindandi samningur á milli aðilarríkjanna (eða annara ríkja). Þá má telja almennar reglur (general principles) í Evrópuréttinum til æðstu réttarheimilda líka en þar er um að ræða reglur sem byggja á dómum Evrópudómstólsins (Court of Justice). Því næst koma alþjóðasáttmálar sem gildi hafa í Evrópurétti. Á sáttmálunum (ESB sáttmálunum) byggist síðan önnur löggjöf (secondary law) s.s. reglugerðir og tilskipanir.
Evrópudómstóllinn (ECJ) mótaði í byrjun sjöunda áratugarins tvenns konar reglur, sem telja má lykilreglur í Evrópurétti, í sitt hvoru málinu. Hið fyrra er NV Algemene Transporten Expeditie Onderneming van Gend en Loos v. Nederlandse Administratie der Belastingen, mál 26/62 [1963].

van Gend en Loos

Þýðing þessa máls felst í reglunni um bein réttaráhrif (direct effect). Í dóminum er staðfest að einstaklingar geti byggt rétt á lögum ESB fyrir dómstólum heimaríkja (aðildarríkja), burtséð frá því hvort viðkomandi heimaríki hefur innleitt sérstaklega þau ákvæði sem réttinum er ætlað að byggja á. Þetta getur átt við um einstakar greinar sáttmála ESB (þær sem hafa bein áhrif), reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir (decisions). Beinum réttaráhrifum er gjarnan skipt í tvennt, þ.e. "lóðrétt-" og "lárétt áhrif". Þau fyrrnefndu vísa til sambands á milli ríkisvaldsins og borgaranna. Síðarnefndu áhrifin vísa hins vegar til sambands á milli borgaranna innbyrðis.
Upphaf málsins má rekja til þess að árið 1958 tók Holland þátt í stofnun BeNeLux tollabandalagsins. Það hafði í för með sér ólíka flokkun á ýmsum innfluttum vörum til Hollands. Ákveðið plastefni (ureaformaldehyde) sem van Gend & Loos flutti inn frá Þýskalandi árið 1960 hafði borið 3% toll. Með aðildinni að tollabandalaginu hækkaði tollurinn í 8%. Þessu vildi van Gend & Loos ekki una og taldi hækkunina brjóta gegn 12. gr. Rómarsáttmálans. En greinin mælti fyrir um það að aðildarríki ESB skyldu forðast að leggja á frekari tolla á innflutning og útflutning sín á milli og kvaðir sem hefðu sambærileg áhrif (equvalent effect), eða hækka þau gjöld sem þegar væru til staðar í viðskiptum ríkjanna. Evrópudómstóllinn tekur fram í dóminum (úrskurðinum) að orðalag þáverandi 12. gr. innihaldi skýrt og óskilyrt bann sem sé ekki jákvæð skylda heldur neikvæð [skylda til að gera ekki eitthvað]. Skyldan sé ekki skilyrt af neinum fyrirvörum af hálfu þess ríkis sem innleiðir hana. Í þessu felst að þótt ríki myndi setja þann fyrirvara að skyldan verði að samræmast landsrétti (lögum heimaríkis), þá myndi slíkur fyrirvari ekki halda þar sem skyldan (Evrópuréttur) er ofar landsréttinum.
Ákveðnar reglur hafa þróast í Evrópurétti [van Gend & Loos og síðar] um það hvað skilyrði þurfi að uppfylla svo lagagrein (í sáttmála) geti haft bein réttaráhrif. En þau eru:

  • i. greinin verður að vera nægjanlega skýr og nákvæm

  • ii. vera neikvæð (fela í sér neikvæða skyldu, vera óskilyrt)

•iii.      skyldan [sem felst í viðkomandi lagagrein] má ekki þurfa að byggjast á frekari aðgerðum af hálfu bandalagsins (ESB) eða innlendra yfirvalda til þess að verða virk. Þarf að vera óskilyrt. 
 Í öðru máli (mál 57/65, Alfons Lutticke) komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bein réttaráhrif gætu einnig náð til jákvæðra skyldna (sjá ii-lið hér á undan). Sé ofangreindum skilyrðum fullnægt er kominn grundvöllur þess að grein í sáttmála (treaty provision) geti haft bein réttaráhrif og að hægt sé að sækja rétt sem í viðkomandi grein felst fyrir dómstólum aðildarríkja. En hvort ákveðið mál fullnægir nefndum skilyrðum er viðfangsefni Evrópuréttarins og dómstóla ESB. Rétt er að taka fram að lagagreinar reglugerða, tilskipana og ákvarðana (decisions) geta líka haft bein réttaráhrif. En almennt þarf að uppfylla sömu skilyrði til þess og hér um getur.
Ein af megin niðurstöðunum í málinu van Gend en Loos er sú að með tilkomu ESB (the Community) hafi í raun orðið til "nýr réttur" innan alþjóðalaga (a new legal order) þar sem ríki hafi takmarkað fullveldisrétt sinn, á afmörkuðum sviðum, sem ekki taki einvörðungu til ríkja heldur einnig einstaklinga. Óháð landsrétti viðkomandi ríkja leggi því Evrópurétturinn ekki einungis skyldur á einstaklinga heldur veiti þeim einnig réttindi (rétt). Á þetta hefur reynt í fjölmörgum málum þar sem einstaklingar hafa rekið mál sín fyrir dómstólum heimaríkja og þeir dómstólar hafa leitað forúrskurðar (preliminary ruling) Evrópudómstólsins. Í Nice-sáttmálanum var réttur til slíkrar álitsbeiðni tryggður undir 234. gr. Í Lissabon-sáttmálanum (The Treaty on the Functioning of the European Union) er rétturinn tryggður (þ.e. dómstólar ríkja mega leita álits) undir 267. gr. Þá er vert að taka fram að ekki einungis hafa dómstólar einstakra ríkja rétt til þess að fá ráðgefandi álit (og forúrskurði) Evrópudómstólsins heldur ber þeim einnig skylda til þess ef svo háttar til að lög heimaríkis ná ekki yfir viðkomandi ágreiningsmál. Þá sker Evrópudómstóllinn úr um það hvernig með skuli fara. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er samræming, ákveðin samfella í dómaframkvæmd, enda er ríkjum ESB óheimilt að skipa málum sínum þannig að það brjóti gegn Evrópuréttinum.
Almennt má segja að réttaráhrifin sem skapast, þegar mál hefur unnist fyrir Evrópudómstólnum séu þau að viðkomandi aðili getur, í krafti niðurstöðu dómsins, sótt rétt sinn fyrir dómstólum heimaríkis. Það merkir í þessu tilviki að "van Gend" þyrfti ekki að greiða þau viðbótar 5% sem um ræðir og gæti gert kröfu þess efnis fyrir dómstólum heimaríkis.

Costa v ENEL

Síðara málið er Flaminio Costa v ENEL 6/64 [1964]. Þar mótaði Evrópudómstóllinn þá reglu að lög ESB skyldu hafa forgang (supremacy of EU law) umfram lög aðildarríkjanna, í þeim tilfellum þegar árekstrar verða á milli laga aðildarríkja og laga ESB. Með öðrum orðum, Evrópurétturinn hefur forgang. Þetta felur í sér að forgangurinn nær til ákvæða í lögum ríkjanna, þar með talinna stjórnarskrárákvæða.
Forsaga þessa máls er sú að árið 1962 var framleiðsla og dreifing á rafmagni þjóðnýtt á Ítalíu. Stofnað var fyrirtækið Ente Nazionale Energia Elettrica (ENEL). Eigendur hinna þjóðnýttu raforkufyrirtækja fengu bætur vegna þessa. Einn vildi þó ekki una niðurstöðunni og andmælti þjóðnýtingunni. Sá var lögfræðingur, Costa að nafni. Hann neitaði í framhaldinu að greiða orkureikning uppá 1.925 lírur sem hann fékk sendan frá Enel. En þar sem ítalski stjórnarskrárdómstóllinn hafði þegar staðfest að þjóðnýtingin samræmdist ítölsku stjórnarskránni, þá leitaði Costa til héraðsdómstóls og hélt því fram að þjóðnýtingin bryti gegn ýmsum greinum Rómarsáttmálans (EEC Treaty). Fór Costa og fram á að fengið yrði álit Evrópudómstólsins í málinu. 
Ítölsk stjórnvöld héldu því fram að þarlendum dómstólnum bæri að fara að ítölskum lögum. En mikilvæg niðurstaða Evrópudómstólsins varð engu að síður sú að Rómarsáttmálinn (EEC Treaty) væri sjálfstæð réttarheimild, vegna eðlis síns og uppruna, og því gæti hann ekki vikið fyrir greinum í lögum einstakra ríkja ESB, því með því móti væri grafið undan áhrifamætti sáttmálans sem og um leið lagalegum grundvelli sjálfs Evrópusambandsins.

Meira um það síðar.

Nokkrar slóðir:

www.cris.unu.edu/riks/web/treaties/Benelux.pdf 

http://europa.eu/legislation_summaries/institutional_affairs/decisionmaking_process/l14547_en.htm

http://www.eurofound.europa.eu/areas/industrialrelations/dictionary/definitions/supremacyofeulaw.htm

http://www.enel.it/it-IT/

Fréttabréf