Fara í efni

EINAR ÁRNASON HAGFRÆÐINGUR: STÖÐVUM ÓSANNINDIN

Lesið staðfestar sannanir. Grundvallarstaðreyndir.  Ekki meðhöndla þær eins og ólíkar skoðanir.  Staðreyndir eru bara staðreyndir.  Það er sannað að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hækkuðu skatta verulega  á lágtekjufólk og millitekjufólk á sínum stjórnartíma  ­- á sama tíma og þeir sögðust hafa lækkað skattana. Nú lofa þeir aftur.  Skyldi vera hægt að treysta þeim í þetta sinn þegar þeir viðurkenna ekki einu sinni borðleggjandi staðreyndir úr fortíð sinni? Framsóknarmenn þegja meira um þetta eins og þeir gera enn í dag, þegar um þetta er rætt. Enginn spyr þá um hið sanna né vitnar í skýrsluna þar sem þessar grundvallarstaðreyndir koma fram. Þetta er ljótur leikur. Á sama tíma, t.d. 1993 til 2005, eins og skýrslan greinir frá, lækkuðu skattar verulega á þá tekjuhæstu, þar sem fjármagnstekjur uxu en þær voru skattlagðar mun minna en tekjur af atvinnu.

Skoðar enginn staðreyndir eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.  Halló fréttamenn, halló stjórnendur umræðuþátta, halló stjórnmálamenn, halló háskólasamfélagið, halló almenningur.  Stöðvum rangfærslurnar. Skoðum staðreyndirnar þegar þær liggja fyrir. Þær liggja fyrir og hafa legið fyrir mjög lengi.  Samt viðgengst lygin ennþá. Við getum varla kallað okkur alvöruþjóðfélag meðan svona háttar.  Hér koma svo staðreyndirnar sem allt of fáir virðast nenna að setja sig inní, þó þær skipti almenning höfuðmáli og snerti trúverðugleika ákveðinna stjórnmálamanna:

Vinsamlegast lesið vandlega og dragið ályktanir.

Skýrslan „Íslenska skattkerfið: Samkeppnishæfni og skilvirkni" var skilað til Árna Mathiesen fjármálaráðherra og ráðherra Sjálfstæðisflokksins þann 11. september 2008 eða tæpum mánuði fyrir hrun.  Í nefndinni voru: Friðrik Már Baldursson formaður, Indriði H. Þorláksson fyrrum ríkisskattstjóri, Maríanna Jónasdóttir tilnefnd af  fjármálaráðherra, Vilhjálmur Egilsson  frá SA, Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ, Ragnar Ingimundarson hagfræðingur  BSRB, Tanya Zharov, Tryggvi Þór Herbertsson nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Þorlákur Björnsson og Sveinn Agnarson ritari.

Ekki var haldinn blaðamannafundur né efni skýrslunnar kynnt almenningi svo ég viti. Undirrituðum  tókst með herkjum að finna skýrsluna á vef fjármálaráðuneytisins og koma henni á vef  BSRB þar sem hana nálgast.

Á blaðsíðu 90 í skýrslunni er tafla sem segir allt sem segja þarf um þróun skattbyrði hjá hjónum og sambúðarfólki en allan þann tíma var Sjálfstæðisflokkurinn við völd og Framsóknarflokkurinn lengst af. Í aftasta dálki töflunnar kemur fram hver  breyting á skattbyrði heildartekna eftir tekjubilum hefur verið.  Þannig jókst skattbyrði lægstu tekjuhópanna um 10 til 13,5% á þessum tíma en þáverandi stjórnvöld fullyrtu að þeir hefðu samt lækkað. Þessi aukna skattbyrði var vegna þess að skattleysismörk lækkuðu að raungildi þessi ár svo almenningur var að borga skatta af stærri hluta tekna sinna en áður (skattprósentan hefði þurft að lækka mun meira til að þeir stæðu í stað með skattbyrði).  Skattbyrðin jókst síðan verulega á alla aðra tekjuhópa allt til tekjuhæstu tíundarinnar en þar kom lækkun og lækkaði skattbyrðin mest hjá þeim tekjuhæstu - 5% þegnanna eða lækkuðu um heil 15,1% á þessu tímabili. Þar hafði afnám hátekjuskattsins mikið að segja; auk þess sem auknar fjármagnstekjur vógu þar mjög hátt og voru skattlagðar lægra en launatekjur almennings. Lækkuð skattprósenta hafði líka mest að segja fyrir þá tekjuhæstu.

Sem sagt.  Sjálfstæðismennirnir sögðu ósatt allan tímann og Framsóknarmennirnir „lugu með þögninni" eins og Séra Árni Þórarinsson orðaði það svo skýrt í ævisögu sinni sem Þórbergur Þórðarson færði í letur.

Veitum réttar upplýsingar um grundvallarstaðreyndir.  Stöðvum ósannindin!
Einar Árnason hagfræðingur og óflokksbundinn aðstoðarmaður innanríkisráðherra

Sjá skýrsluna í heild á vef BSRB: http://www.bsrb.is/files/Islenska-skattkerfid-samkeppnishaefni-og-skilvirkni_1201802312.pdf