Einar Árnason skrifar: OPIÐ BRÉF TIL FORYSTU-MANNA FRAMSÓKNAR-FLOKKS OG SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKS: SVAR ÓSKAST

Ónýt nöfn - Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Fyrst  um skoðanakannanir: Hví að eyða tíma í að tala um misvel unnar og a.m.k. gamlar kannanir? Þær eru bara skoðanamyndandi og misheiðarlega eða faglega  unnar. Þó kostur fyrir lata fréttamenn sem nenna ekki að setja sig inn í mál.

Loforð og svik: Í raun eru umræður um kannanir lítið áhugaverðar fyrir almenning sem oft er í miklum erfiðleikum t.d. með sín fjármál og vonar að einhver beri hag þeirra fyrir brjósti. Þá finnst mörgum betra að trúa þeim sem lofa þó að hinn sami hafi margoft svikið þá og logið að þeim. Nú er það leikið að láta eins og þeir sem hér réðu fyrir hrun séu "nýi" Framsóknarflokkurinn og  "nýi"  Sjálfstæðisflokkurinn, þótt bæði nöfnin séu orðin ónýt. Fyrir þessum flokkum í þrjú kjörtímabil  á árunum 1995 til 2007 sátu og réðu meginhluta tímans formennirnir Halldór Ásgrímsson fyrir Framsókn og Davíð Oddsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn  í umboði margra þingmanna núverandi flokka með sömu nöfn þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.  Þingmenn hvorugs flokksins hafa að því er ég best veit afneitað þessari fortíð. Þessir tveir fyrrum formenn lýstu yfir, án samráðs við hvorki nokkra í ríkisstjórn, á þingi né hjá þjóðinni - aðild Íslands, okkar friðsömu þjóðar - að innrásinni i Írak þar sem saklaus almenningur varð að fórnarlömbum gráðugra stórvelda í eigingjarnri innrás um auðævi, með lygar að vopni.

Eruð þið sammála þessum gjörningi fyrrum forystumanna ykkar flokka?  Ef ekki þá hvers vegna?

Hvar er kjötið:"Where is the beef?" Þannig var það með bökurnar frá Borgarnesi. Miklu lofað um kjötbökur á innihaldslýsingunni, en svo kom í ljós að þar var ekkert kjöt. Byrjað að kenna starfsmönnunum um. Við þekkjum þetta allt of vel. Svona hafa flokksmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar alltaf hegðað sér þegar þeir sviku loforðin. Þeir segjast hafa reynt en það hafi  bara ekki tekist að koma kjötinu í bökuna, einhverjum öðrum er um að kenna. Hvað skyldu þeir í raun þekkja neyðina sem almenningur upplifir? Varla á eigin skinni.

Hvar er innihaldið sem lofað er þ.e. útfærslan?  Er það kannski eins og með skattahækkunina sem þið stóðuð fyrir á millitekjufólki og lágtekjufólki á ykkar stjórnarárum en kölluðuð það skattalækkun? Þessi ósannindi ykkar hafa komið skýrt fram í fjölmiðlum undanfarið m.a. í skýrslu um skatta sem nefnd skilaði til Árna Mathiesen fjármálaráðherra mánuði fyrir hrunið. Skýrsluna má finna á vef BSRB. Þar á bls. 90 má finna töflu sem sýnir breytingu á skattbyrði hjóna og sambýlisfólks árin 1993 til 2005 en þann tíma var Sjálfstæðisflokkurinn við völd og Framsóknarflokkur megnið af þeim tíma. Í aftasta dálki töflunnar kemur fram hver breyting á skattbyrði heildartekna eftir tekjubilum hefur verið. Þannig jókst skattbyrði verulega á lægri tekjur og meðaltekjur en lækkaði aftur á móti mest hjá hátekjufólki. Þetta má lesa í textanum undir töflunni.

Logið dýpra og logið með þögninni: Nú eru þeir farnir að ljúga dýpra eins og ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra gerir gjarnan þegar hann er í vandræðum. Eða þá reynir hann og þeir að beina athyglinni annað, sprengja reyksprengju, nota smjörklípu eða láta sig ekki sjást  og  þegja. Reynt að venju að hafa stjórn á öllum fjölmiðlum "a la Soviet" og vona að fólk gleymi. Ljúga með þögninni. En í alvöru landi og þar sem eru alvöru fjölmiðlar gleymast staðreyndir ekki. En hér gerist það. Þjóðhagsstofnun var lögð niður svo ekki yrði mikið rætt um staðreyndir. Siðferði virðist ekki vera í hávegum haft í lögfræðingastétt hér á landi þótt til séu undantekningar. Það eitt og sér er verðugt  alþjóðlegt rannsóknarefni.

Svar óskast. Hrunflokkarnir núverandi, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, lofa miklu? Hvar er innihaldið? Hvar er útfærslan? Er þetta ekki sama og með loforð helmingaskiptaflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, um einkavæðingu ríkisbankanna í dreifða eignaraðild sem vitað er að aldrei stóð til , þó því hafi verið logið að íslenskum almenningi í fjölda ára þ.e. um Landsbanka og KB banka. Þeir slógu það sjálfum sér eins og segir í ævisögu séra Árna Þórarinssonar um sýslumanninn og Sigurð svinakarl sem nöppuðu fé og jörðum frá Guðmundi dúllara.

Í þessari helmingaskiptingu milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks greiddu þeir á víxl með lánsfé frá hinum ríkisbankanum.  Svik á víxl. Hvað skyldi forystumönnum núverandi stjórnarandstöðuflokka, þ.e. Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, finnast um loforðin á víxl?  Um einkavæðingu bankanna. Var þetta í lagi eða ekki? Hefur eitthvað breyst hjá þeim? Svar óskast.

Ónýt nöfn: Nú er enn logið og lofað á víxl. Vonað að almenningur og að venju fjölmiðlar muni ekkert. Nafnið á báðum flokkunum er ónýt í ljósi sögunnar og ekki til brúgs áfram. Hví skreyta núverandi frambjóðendur sig  með nöfnum á ónýtum, óheiðarlegum, grimmum, eiginhagsmunaflokkum sem ekkert hafa lært. Flokksnöfnin eru ónýt.  Þá er bara eftir útúrsnúningar og að koma því á framfæri við unga sem aldna að þetta sé allt svo leiðinlegt og ruglað, það taki því ekki að kjósa, allir séu eins. Eins slæmir og þeir eru sjálfir. Svo borga þeir botnlaust í auglýsingar í þetta keypta peningalýðræði sem hér hefur viðgengist.

Það er ótrúlegt hversu margir hafa gleymt fortíð þessara flokka sem ekki hefur verið gert upp við. Kennum líka börnum okkar lands að svona gerir maður ekki.

Nöfnin Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru ónýt í ljósi sögunnar.

Svar óskast.

Einar Árnason hagfræðingur og óflokksbundinn ráðgjafi innanríkisráðherra

Fréttabréf