Helgi Guðmundsson skrifar: UM ORSÖK OG AFLEIÐINGU

 Sæll kæri félagi.
Las greiningu þína á kosningaúrslitunum á heimasíðunni, sem mér finnst um margt umhugsunarverð. Mörgu er ég sammála, enda þótt ég hafi ekki lagst í jafn djúpar pælingar og þú. Í öllu falli verður fróðlegt að sjá hverni SDG gengur að koma saman stjórn, og hvort hann velur að gera alvöru tilraun til vinstri. Mér fannst reyndar vanta hjá þér - og það skiptir miklu máli - að helmingur þjóðarinnar kaus ekki til hægri. Líklega meira en helmingur, því af gamalli reynslu veit ég að innan Framsóknar eru vinstri sinnuð öfl, sem í mörgum málum eru ekki langt frá okkur í VG. Fyrir nú utan þau ósköp að meira en 10% kjósenda fá engan fulltrúa fyrir atkvæði sitt Greining þín á árangri VG vekur sérstaka athygli mína, en þú segir meðal annars:

"Út undan mér heyrði ég Egil Helgason, þáttastjórnanda á RÚV, tala um fólk sem gengið hefði úr þingflokki VG á tímabilinu eða horfið annað eins og einhverja óværu sem VG hefði þvegið af sér. Staðreyndin er sú að um framangreinda þætti var tekist á í þingflokki VG á síðasta kjörtímabili - um skuldamál heimilanna, niðurskurðinn, Magma, Icesave, ESB og fleira eins og frægt er orðið. Frá mínum bæjardyrum séð er gagnrýnin innri umræða af hinu góða og skilar sér í betri stjórnmálum. Og satt best að segja hefði verið betra fyrir fráfarandi ríkisstjórn að láta reyna á þolrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og jafnframt að hlusta af meiri athygli á áhyggjur af skuldamálum heimilanna, finna betri jafnvægislínu í niðurskurðinum og þannig hlífa samfélaginu betur. Síðast en ekki síst, ekki  ætlast til að stjórnarmeirihlutinn samþykkti Icesave blindandi. Gæti verið að ef þetta hefði verið gert og ef VG hefði haldist betur á fólki, hefðum við haft víðari skírskotun í kosningum?"

Ég tek sérstaklega eftir orðunum um orðin um að gagnrýnin innri umræða skili sér í betri stjórnmálum. Ekki vegna þess að ég sé því ósammála að hún eigi að fara fram, heldur af því að á einhverri stundu verður henni að ljúka með niðurstöðu. Ég hef reyndar ekki verið virkur í VG fyrr en lítillega fyrir kosningarnar með því að halda úti Þjóðviljanum á Skaganum.(á netinu) Ég hef því horft á rifrildið í þingflokknum eins og hver annar velviljaður kjósandi og fundist þyngra en tárum taki. Aftur á móti var ég í Alþýðubandalaginu allan líftíma þess og man vel hvernig "gagnrýnin innri umræða" fór með flokkinn. Ólafur Ragnar var ákaflega hallur undir "átakakenninguna", það er að flokksfélagar ættu í sífellu að takast á, það væri hollt. Ljúki slíkri umræðu ekki með niðurstöðu, sem flokksfólk unir og stendur að, skemmir hún stjórnmálin en bætir þau ekki. Að halda henni endalaust áfram, bæði innan og utan flokks, sýnir að viðkomandi flokkur hefur ekki getu til að útkljá mál í eigin ranni. Afleiðingin gagnvart kjósendum verður sú ein, að viðkomanfi flokkur sé meira og minna óstarfhæfur vegna "innri umræðu" forystumannanna.

Alþýðubandalagið var að þrotum komið vegna "átakakenningarinnar". Þess vegna taldi ég, og og aðrir í meirihlutanum, skást að flokkurinn stæði að stofnun SF, þó ég vildi ekki fara þangað sjálfur. Minnihlutinn kaus aðra leið og í ljós koma að rúm var fyrir VG í hinu pólitíska mynstri.

Annað í því sem þú segir vekur sérstaka athygli mína. Að flokkurinn hefði til dæmis átt "að hlusta af meiri athygli á áhyggjur af skuldamálum heimilanna" . Ég skil satt að segja ekki hvað átt er við. Skuldirnar lækka því miður ekki þótt vel sé hlustað. Þeir sem lagt hafa til, og barist af hörku fyrir, almennri niðurfærslu skulda heimilanna um 20%, hafa ekki minnst einu orði á þá skelfilegu tekjutengingu sem á sér stað í neðstu þrepum þjóðfélagsstigans. Öryrkjar mega varla afla sér einnar krónu svo hún sé ekki tekin af þeim aftur með skerðingu almannatrygginga. Almenn 20% niðurfærsla skulda, án tengingar við tekjur og eignir, er í fullkominni mótsögn við það sem gert er á neðstu stigunum. Slík aðgerð hefði í för með sér himinhrópandi ranglæti. Þeir sem eru með 40 milljón króna húsnæðislán fengju 8 milljónir felldar niður á meðan hinir tekjulægstu með 5 milljónir í skuld ættu áfram í erfiðleikum, að ekki sé nú minnst á vanda leigenda . Að mínu viti hefði það verið hrein og klár hentistefna að taka undir þessa leið í kosningabaráttunni. Hitt er þó ekki síður alvarlegt, að lánastofnanir fengju þá 300 milljarða sem Framsókn talaði um í, stað þess að taka á sig lánaniðurfærsluna. Mér hefur allan tímann fundist að ríkisstjórnin reyndi að mæta skuldavandanum með aðgerðum, sem ekki lentu á ríkissjóði. Mér fyrirgefst vonandi þó ég telji það skynsamlegt og álíti að 300 milljarðar væru betur komnir hjá ríki og sveitarfélögum, til að rétta af kúrsinn - n.b. öllum til hagsbóta.

Ég ætla ekki að ræða frekar einstök atriði, sem ollu því að VG fékk ekki betri útkomu og SF hreint út sagt hörmulega. Mér virðist þó ljóst að stjórnarflokkarnir hafi tapað nánast öllum áróðursstríðum um mikilvæg mál á kjörtímabilinu, eins og Icesave. Það er svo allt annað mál að ég sé ekki betur en verið sé að greiða Icesavekröfurnar nokkurnveginn eins og samið var um í tvígang. Eignir Landsbankans eru notaðar til að greiða innistæðurnar. Hver útkoman endanlea verður er ekki auðvelt að sjá. Sjálfum finnst mér að árangur ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu hafi verið ótrúlega góður. Lít svo á að ómögulegt hefði verið að ná niður halla ríkissjóðs (úr 216 milljörðum) án þess að það kæmi harkalega niður um allt samfélagið. Hærri og réttlátari skattar ásamt niðurskurði - hvaða leið önnur var fær fyrir vinstri sinnaða ríkisstjórn?

Kosningaúrslitin benda líklega til þess að mikillar óþolinmæði gæti í samfélaginu. Ekki er það undarlegt, en miklu alvarlega að á þessa óþolinmæði spilaði Framsókn með loforðum um fé í budduna, úr sjóðum sem enginn veit hvað hægt er að fá úr - eða yfirleitt hvort.

Já, þá man ég það: Mikilsverð mál komust ekki í gegnum þingið. Var það vegna þess að forseti neitaði að beita valdi sínu til að ljúka umræðu og afgreiða þau mál? Við, háttvirt atkvæði, höfum aldrei verið upplýst um það, en forseti hefur þetta vald. Virðing þingsins jókst að minnsta kosti ekki við málþóf stjórnarandstöðunnar og traustið á SF enn síður.

Þegar öllu er á botninn hvolft má enda þennan texta með því að endurtaka þá staðhæfingu að "innri umræðu" verði að ljúka með niðurstöðu, sem meirihlutinn kemst að, og minnihlutinn unir. Annað leiðir til vantrausts og leiðinda hjá kjósendum og bætir ekki stjórnmálin, heldur þvert á móti.

hágé.

Fréttabréf