Baldur Andrésson skrifar: SPRENGI-DAGUR VIÐ VAÐLAHEIÐI

Árið 2006 var fædd sú hugmynd spekúlanta að vilja eignast Suðurlandsveg frá höfuðborgarsvæði að Selfossi.  Ætlaðan einkaveg sinn ætluðu þeir að bæta en  hirða veggjöld sér til arðs. Einkavæðing annarra þjóðvegaspotta var í ,,skoðun", þ.e. þeirra sem spekúlöntum gátu sýnst arðbær fjárfesting. Það  dró úr viljanum þegar nálgaðist hrun,sem virtist ganga af þessum einkavæðingardraumi dauðum. Eitt afbrigðið lifði þó Norðarlands, gjaldskyld Vaðlaheiðargöng í séreign.

Sem í spépegli endurfæddist þó einkavæðingarviljinn eftir hrun. Þá vær ætlun að eignarhaldsfélög réðu þremur þjóðvegatengslum við höfuðborgarsvæðið,sem yrðu þeim arðsuppspretta með veggjöldum. Vaðlagöng flutu með í  draumapakkanum. Þau göng voru áður kynnt sem fjárfestingarkostur fremur er samfélagsnauðsyn, en hlutu þá engar markaðsviðtökur.

Ekki þarf að orðlengja um misheppnuð drög að einkavæðingu burðarhluta þjóð-vega á S.-Vesturhluta Íslands. Hugmyndin rímaði hvorki við almannavilja né við veruleikann almennt. Umræddum drögum að einkavæðingu með vegjaldamúrum var eytt í kjölfar fjöldamótmæla. Drögunum var stefnt gegn því að meginstoðir þjóðvega héldist í almannaeigu, væru á almannaaábyrgð í þágu jafnræðis.

Vaðlagöng voru frá upphafi kynnt sem mögulega arðbært viðskiptaævintýri fremur en samfélagsnauðsyn. Þótt arðbærnin dæmdist útilokuð unnu pólitískar vélar áfram til framgangs verkefninu. Fór svo að göngin verða gerð, að öllu leyti kostuð með lánsfé frá skuldsettum ríkissjóði. Allir fjárfestar aðrir halda sig fjarri þessari ,,viðskiptahugmynd". Framtakið sem var kosið fremsta forgangsmál í samgöngum landsmanna með vélum, verður samfélaginu afar dýrkeypt.

2009 var spunnið fram 7.5 ma kr. kostnðarmat á gerðum Vaðlaheiðargöngum og þeirri tölu lengi veifað. Nú er viðurkennd  opinberlega 11.8 ma kr. matsgerð og er þá verðmiðavöxtur á Vhg hrokkinn upp um 4.3 ma kr. á stuttum spunatíma. Líklegt er að framlagður samfélagskostnaður  nemi samtals 15 ma kr. við verk- lok 2016, tvöfaldur kynntur verðmiði frá 2009, þrefaldur frá spunatíð fyrir hrun.

Spaunavél til framgangs Vhg.byggist á vanmati tilkostnaðar, ofmati á sértekjum. Tölur sýna að áætlað umferðarstreymi verður þriðjungi undir fyrri væntingum. Hlaupi stofnkostnaður í 15 ma kr. er sýnt að óendurkræft ríkisframlag gæti nálgast tug milljarða króna. Takmörk eru fyrir gjaldpíningu á vegfarendur, enda býðst þeim ágætur valkostur áfram um Víkurskarð.

Stórframlag ríkisins til gerðar Vaðlaheiðarganga Marti er ákveðið þegar varla fæst fé til viðhalds á þjóðvegum landsmanna, þegar nauðsynjarmál víkja vegna niðurskurðar. Ríkissjóður er sjálfur í skuldasúpu og nú skulu tökin hert að vel-ferðarkerfinu er sagt.  Öll dæmast því Vaðlaviðskipti ríkisins sem furðuspil. Ennþá er því haldið fram að þau munu ekkert kosta samfélagið, þótt annað blasi við.

Tvö síðustu sambærileg ríkisstórvirki við Vaðlagöng eru Óshlíðargöng Martis og Héðinsfjarðargöng Metrostavs, bæði opnuð 2010. Þau ríkisviðskipti standa enn lögformlega óendurskoðuð en leiddu til gífurlegs umframkostnaðar miðað við kynnta verksamninga við erlenda verktaka. Það örlæti ríkisins er óskýranlegt.   Marti er nú sett til Vaðlajötu og Metrostav ætluð gerð Norðfjarðarganga. Fyrri, gráleit ríkisviðskipti við sömu stórfyrirtæki haldast sem opinbert þöggunarefni.

Engin leið er fundin til að rökstyðja Vaðlaheiðargöng sem forgangsmál ríkisins.  Þess vegna er viðhaldið dauðyfli, spuna um sjálfbærni með vegtollum. Þess vegna er stofnað innatómt eignarhaldsfélag. VHG hf. og þessi ríkiskostaða fram-kvæmd kölluð eiginframkvæmd þess. Hlutafélagið það er fætt til eigin gjaldþrots.

Viðurkennt skal að Vaðlagöng gætu reynst einhver bót á byggðakröm N-A horns. Sú takmarkaða byggðabót er þó sýnd veiði, ekki gefin. Ein spunalínan var að sjálf gerð Vaðlaganga yrði lyftistöng fyrir norðlenskt atvinnulíf. Sú lína birtist nú í líki fárra tuga farandstarfsmanna, bormanna í vinnuskúrum svissneska Marti.

Viðskiptahugmyndin að arðbærum einkagöngum um Vaðlaheiði  var meðal ruglhugmynda á aðfaraárum hrunsins. Með vélum er ruglinu fyrirkomið á ríkis- herðar í kjölfar hrunsins og þar stendur það nú, blýþungur baggi.  Langlífi þessa ruglanda er viðbrugðið. Sem dæmatökumál er það afar athyglivert.                                   
Alþingi lofaði bót og betrun í eftirleik hrunsins. Tök þess að Vaðlamálinu eru meðal vísbendinga um skort á heilindum. Þar í er mesta alvaran fólgin.

 Baldur Andrésson,  sprengidag,12 júlí 2013

Fréttabréf