Þuríður Backman skrifar: AÐ GERA RANG-FÆRSLUR AÐ SANNLEIKA

Vegna endurtekinna frétta af máli sem er í vinnslu í laga-og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og umræðu um afstöðu og afgreiðslu undirritaðrar er rétt að fram komi bréf sem undirrituð sendi ritstjórn Fréttablaðsins þann 14. þessa mánaðar með beiðni um að það væri haft til hliðsjónar ef kæmi til frekari frétta um umálið. 

"Leiðrétting um frétt a máli í nefnd  Evrópuráðsþinsins.

Því miður hefur Ólafur Þ. Stephensen ekki haft nægar upplýsingar um ganga mála á þingi Evrópuráðsins í Strassborg þegar hann skrifaði leiðara í Fréttablaðið 12. júní sl. um ályktun sem laga-og mannréttindanefnd þingsins hefur afgreitt efnislega, og skýrslu sem stuðst er við í tillögunni.

Forsaga málsins er sú að Evrópuráðsþingið samþykkti í nóvember 2011 að heimila  þingmanninum Pieter Omtzigt úr þingflokki EPP (hægrimenn og kristilegir demókratar, "Europens People's Party") að vinna skýrslu um "Aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og sakarábyrgðar". Var skýrslunni síðan vísað til laga-og mannréttindanefndarinnar til afgreiðslu fyrir þingið. Höfundur tók einkum fyrir tvö ríki, Úkraínu og Ísland.  Skýrslan sjálf er alfarið á ábyrgð höfundar, en það er nefndarinnar að bregðast við skýrslunni og leggja fram tillögur til þingsins  um afgreiðslu og viðbrögð.

Á síðasta fundi nefndarinnar  23. apríl s.l. gerði undirrituð athugasemdir við nokkur atriði í sjálfri skýrslunni til að leiðrétta eða skýra atriði sem skýrsluhöfundur notar eða gefur sér til túlkunar og ályktunar, ekki síst þegar skýrsluhöfundur kemst að pólitískri niðurstöðu eða ályktun.  Athugasemdir mínar  fylgja skýrslunni, og er það í höndum skýrsluhöfundar hvort hann tekur tillit til þessara athugasemda  í viðbótarskýrslu við afgreiðslu málsins eða  ýmissa annarra athugasemda sem fram komu á fundum nefndarinnar.  Nefndin greiddi ekki atkvæði um skýrsluna, enda er skýrslan á ábyrgð höfundar.   Staðhæfing  um að 84 nefndarmenn hafi skrifað upp á skýrsludrögin er því beinlínis röng.

Á þessum sama fundi greiddi Laga-og mannréttindanefndiniatkvæði um frumdrög  skýrsluhöfundar að  tillögu til ályktunar sem leggja á fyrir þingið. Tillagan sem var í nokkkrum liðum var afgreidd efnislega  og greiddi undirrituð  atkvæði með þeim drögum sem nú liggja fyrir í nefndinni en þau eru frábrugðin tillögu skýrsluhöfundar.  Afgreiðsla málsins ræðst á þingi Evrópuráðsins nú í júnílok. Enn geta komið fram breytingartillögur, en að lokum verður sjálf ályktunartillagan rædd og borin undir atkvæði (en ekki skýrsla Omtzigts)

Í þessu efni er mikilvægt að fram komi að í fyrirliggjandi tillögu nefndarinnar til þingsins er landsdómsmálsins ekki getið og ekki minnst á Ísland, þvert á það sem skilja mætti af skrifum Fréttablaðsins.

Niðurlag leiðara Fréttablaðsins er ekki í samræmi við umfjöllun laga-og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.  Eðlilegt er að menn hafi misjafna sýn á landsdómsmálið, og ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við það að Ólafur Þ. Stephensen taki undir pólitíska sýn í skýrslunni eftir  Pieter Omtzigt og sem er alfarið á ábyrgð þess þingmanns . Vel má einnig túlka ályktunartillögu nefndarinnar með þeim hætti að Íslendingum - og þá einnig m.a. Dönum og Norðmönnum - beri að endurskoða gömul lög og stjórnarskrárákvæði um landsdóm og ráðherraábyrgð. Um það eru flestir sammála hérlendis, hver sem afstaða þeirra kann að vera í "landsdómsmálinu".  Hitt er alrangt að  laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins hafi samþykkt ályktun um landsdómsmálið og engin tillaga liggur fyrir nefndinni í þá veru.      
Þuríður Backman, fv. formaður  Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og þingmaður VG"

Afgreiðsla og meðferð mála í ERÞ er flókið ferli.  Með birtingu þessa bréfs til ritsjórnar Fréttablaðsins er það von mín að fjölmiðlafólk  kynni sér stöðu mála í ERÞ m.a. með því að fá upplýsingar hjá  þingmönnum íslandsdeildarinnar svo koma megi í veg fyrir "ekki fréttir" eins og þær sem hafa birst undanfarið.

Þuríður Backman, fv. þingmaður VG

Fréttabréf