Kári skrifar: LÖG UM HEIMILS-OFBELDI Í ÞÝSKALANDI, ÍSLANDI OG FRAKKLANDI

Nálgunarbann

            Nálgunarbann (sbr. og Einstweilige Anordnung[i]) er skilgreint í 1. gr. laga nr. 85/2011. Þar segir: "Með nálgunarbanni samkvæmt lögum þessum er átt við þau tilvik þegar manni er bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við annan mann." Um er að ræða tímabundna aðgerð, gjarnan til 6 mánaða, (interim measure) þar til annari skipan er komið á.

Réttarvernd brotaþola samkvæmt þýskum lögum

            Í Þýskalandi tíðkast ekki sérstakar "fyrirskipanir" (CPO - criminal protection orders[ii]) sem dómarar gefa út, s.s. í Bandaríkjunum. En þeim er ætlað að vernda brotaþola þegar t.d. er um heimilisofbeldi að ræða eða þegar vernda þarf vitni.

            Þýskir dómstólar geta gefið brotamanni fyrirskipanir í tengslum við frestun á fullnustu refsingar eða í tengslum við eftirlit með brotamanni. Hins vegar eru einkaréttarlegar "tilskipanir" algengar (civil protection orders) og geta þolendur heimilisofbeldis lagt fram kröfu um vernd á þeim forsendum. Brot gegn slíkum "tilskipunum" eru refsiverð. Þá var fyrir nokkrum árum tekið upp að vísa mætti brotamanni af heimili brotaþola (barring order).

            Verði fólk fyrir áreiti eða ofbeldi, og krefjist aðgerða af hálfu yfirvalda svo binda megi enda á athæfið, koma nokkrir kostir til greina. Hægt er að leita til lögreglu sem getur gripið til tímabundinna aðgerða (Wegweisung und Betretungsverbot) gert brotamanni að yfirgefa íbúð brotaþola og meinað brotamanni aðgang að íbúð brotaþola, enda sé lífi og heilsu ógnað. Slík ráðstöfun lögreglu er til tveggja vikna. Ef innan þess tíma er farið fram á lögbann tekur ráðstöfun lögreglu enda að fjórum vikum liðnum. Skal lögregla gera skriflega skýrslu um ástand mála á viðkomandi heimili og leggja fram fyrir dómi hafi hann úrskurðað lögbann.

            Vernd brotaþola heimilisofbeldis í Þýskalandi er bæði á forræði alríkisins (Bund) og einstakra fylkja (Länder). Í landinu eru í gildi lög (alríkislög) gegn ofbeldi sem þessu (Gewaltschutzgesetz - GewSchG[iii]) og kemur þar til skoðunar 1. og 2. tölul. 1. gr. laganna. 1. tölul. kveður á um að dómstóll geti meinað brotamanni aðgang íbúð brotaþola. Samkvæmt 2. tölul. getur dómstóll fyrirskipað brotamanni að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá íbúð brotaþola. Þá er í 4. tölul. heimild fyrir dómara til þess að meina brotamanni samskipti við brotaþola, s.s. úr fjarlægð.

            Fjölskyldudómstóll (Familiengericht) hefur lögsögu í málinu hafi sambúðarfólk búið saman samfleytt í 6 mánuði áður en mál kom til kasta dómstóls. Gildir þá einu hvort um hjónaband er að ræða eða ekki. Sé ekki um sambúð að ræða kemur til kasta almennra dómstóla (Zivilgerichte).

            Ef sambúðaraðili (og börn hans) hafa verið þolendur heimilisofbeldis eða ofsókna, getur hann sótt um vernd fyrir sig, fjölskyldu sína, og heimili fjölskyldunnar til dómstóla. Lögsaga dómstólanna getur grundvallast á eftirfarandi:

• hvar afbrot var framið,

• hvar fjölskyldan er búsett, eða

• hvar varnaraðili er búsettur.

            Þegar svo háttar til að fólk býr ekki saman, sbr. gr. 1361b, 1568a í þýsku borgaralögbókinni (Bürgerliches Gesetzbuch - BGB) og kafla 14 og 17 í lögum um staðfesta samvist (Lebenspartnerschaftsgesetz - LpartG), skal lögsaga dómstóla eingöngu ákvarðast af staðsetningu (local jurisdiction). Það á við í eftirfarandi tilvikum:

  • þar sem hjúskaparmál eða mál sem snerta staðfesta samvist eru eða hafa verið til meðferðar,

  • þegar dómstóll er í sama umdæmi þar sem heimili hjóna er eða fólks sem skráð er í borgaralega samvist,

  • þegar dómstóll er í sama umdæmi og varnaraðili er búsettur,

  • þegar dómstóll er í því umdæmi þar sem brotaþoli er búsettur.

            Í þessum tilvikum ákvarðast lögsaga dómstóla af búsetu hjóna eða sambýlisfólks. Hægt er og að óska þess að dómstólar grípi til ráðstafana fyrir hönd barna í samræmi við gr. 1666 og 1666a í þýsku borgaralögbókinni (BGB) þar sem lögin gegn ofbeldi (GewSchG) eiga ekki við í tilviki barna.

            Þessu til viðbótar má nefna tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins (The Council) 2011/99/EU (European Protection Order) á sviði sakamála. En tilskipun þessi miðar að gagnkvæmri viðurkenningu úrræða á milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Var frestur til innleiðingar tilskipunarinnar í landsrétt gefinn til 11. janúar 2015. Tilskipunin felur í sér að ráðstafanir sem yfirvöld (dómstólar) í einu aðildarríki hafa gripið til gilda einnig í öðrum aðildarríkjum. Lagalegan grunn tilskipunarinnar er að finna í 1. mgr. 82. gr. Lissabonsáttmálans (TFEU) sem fjallar um lagalega samvinnu á sviði sakamála.[iv] Þann 11. janúar síðastliðinn tók einnig gildi reglugerð (ESB) Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 606/2013 um gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja á ráðstöfunum, (protection measures) á sviði einkamálaréttar og gagnast geta gegn heimilisofbeldi.[v] Reglugerðinni er ætlað að auka þá réttarvernd sem fæst með tilskipun 2011/99/EU enda taka reglugerðir sjálfkrafa gildi í öllum aðildarríkjum ESB og innleiðast ekki sérstaklega  í hverju aðildarríki til þess að skapa réttaráhrif.

Íslensk dómaframkvæmd

            Umfjöllun um heimilisofbeldi og nálgunarbann kemur af og til upp í íslensku samfélagi. Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Hæstiréttur Íslands nýlega þrisvar sinnum fellt úr gildi nálgunarbann lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í einu þessara mála er áberandi hversu þvermóðskufull afstaða dómara Hæstaréttar er. Byggt er á hártogunum og bókstafstúlkun laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í anda lögskýringa íslenskra dómstóla sem oft er mjög ábótavant. Meira rýnt í orðanna hljóðan en ætlun löggjafans og tilgang viðkomandi laga.

            Og jafnvel þótt beitt sé textaskýringu er engin leið að komast að þeirri niðurstöðu sem Hæstiréttur kemst að. Enda er 4. gr. laga nr. 85/2011 mjög skýr hvað snertir skilyrði nálgunarbanns. Nærtækast er því að ætla að geðþótti hafi ráðið ferð Hæstaréttar í nefndu máli. Engum, sem fylgst hefur með íslenskri lagakennslu (þar sem haltur leiðir blindan) eða kynnt sér hæfisskilyrði fyrir skipun dómara, ætti hins vegar að koma þetta á óvart.  Í dóminum (nr. 62/2015) segir m.a.:

"Jafnvel þótt varnaraðili hafi með háttsemi sinni í hinu síðarnefnda tilviki gróflega rofið friðhelgi einkalífs A verður ekki talið að nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 veiti henni vernd gagnvart slíkri háttsemi. Þá er nokkur tími liðinn frá því atvik 30. júlí 2014 áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti."

            Hártogun þessi er "rökstudd" með vísan til 4. gr. laga nr. 85/2011 en hún tilgreinir skilyrði þess að nálgunarbanni megi beita.

 "Heimilt er að beita nálgunarbanni ef:

  • a. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða

  • b. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið."

            Um þetta er vert að hafa nokkur orð. Í fyrsta lagi er ljóst að lögreglustjóri leggur ekki nálgunarbann á fólk nema hann telji til þess gilda ástæðu (rökstuddur grunur).  Og menn sem sýnt hafa sig í því að beita aðra ofbeldi, eins og hér um ræðir, taka það sjaldnast upp hjá sjálfum sér að hætta því allt í einu (og hvað hefur Hæstiréttur fyrir sér í því að viðkomandi hafi ekki beitt ofbeldi síðan 30. júlí 2014? "Gögn málsins"?). Málið er því miður ekki svo einfalt. Enda ljóst að mörg ofbeldismál hafa staðið svo árum skiptir. 

            Það er verulega langsótt lögskýring að ætlun löggjafans hafi verið sú með setningu laga nr. 85/2011 að fela dómstólum sérstakt mat á því hvort, og þá hvenær, meintur brotamaður hafi farið yfir eitthvert tiltekið "tímamark" þegar hann kaus að beita ofbeldi sbr.: "Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti." En í a-lið 4. gr. segir "hafi framið[vi] refsivert brot eða raskað[vii] á annan hátt friði brotaþola". Vísar greinilega til fortíðar. Það má því færa fullgild rök að því að bæði skilyrði samkvæmt a- og b-lið 4. gr. séu uppfyllt. Þá er eftirtektarvert að Hæstiréttur kýs að takmarka ofbeldi við líkamlegt ofbeldi en eins og mörgum er kunnugt er andlegt ofbeldi[viii] stór hluti af málum sem þessum. Og er ekki nálgunarbann einmitt ráðstöfun sem spornað getur við andlegu[ix] ofbeldi, ekki síður en líkamlegu?

            Skilyrðin fyrir nálgunarbanni eru með öðrum orðum þau að rökstuddur grunur sé fyrir því að brot hafiþegar veriðframið, EÐA að hætta sé á því brotverði framið. Og því nægjanlegt að annar liðurinn (a, b) sé uppfylltur. Umræða um "tímamark" í dómi Hæstaréttar er útúrsnúningur og kemur málinu ekkert við, enda brot þegar framið. Héraðsdómarinn í hinu áfrýjaða máli áttar sig hins vegar á eðli og hlutverki nálgunarbanns og skilur samhengi þess [fer ekki út á hina hálu braut útúrsnúninganna]. Lögfræðilega er því mun meira á úrskurði héraðsdóms að græða, vilji fólk á annað borð kynna sér þau mál sem hér er um rætt.

            Og hvaða hagsmuni varði Hæstiréttur? Hagsmuni brotaþola, hagsmuni brotamannsins, eða jafnvel hagsmuni "kerfisins"? Hver var áhættan að mati Hæstaréttar að staðfesta úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann? Hvort skyldi sú "áhætta" liggja hjá brotaþola eða brotamanni? Er það hluti af frelsi manna að fá að beita aðra ofbeldi? Hefur Hæstiréttur tekið afstöðu til þess?

            Myndbirtingar sem um ræðir eru ákveðið form ofbeldis (heimilisofbeldis). Ljóst má vera að brotaþoli hefur fullan rétt til þess að leita sér verndar og grípa til þeirra löglegu ráðstafana sem að gagni mega koma. Nægir þar að vísa til 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu[x] (sem Ísland er bundið af). Enda þótt nálgunarbann breyti að sjálfsögðu ekki afturvirkt þeirri gerð brotamannsins að hafa birt myndir þá gefur auga leið, eins og mál eru vaxin, að brotaþoli kýs oft að binda enda á samband eða tengsl við brotamanninn.

            Nálgunarbann er liður í því, til verndar brotaþola. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur réttilega gert það sem í hans valdi stóð. En í þessum málum [sem og fleirum] er það hins vegar Hæstiréttur sem þarf heldur betur að endurskoða sína úrskurði og dómaframkvæmd. Og fráleitt að nokkur aðili fá stuðning dómstóla til þess að beita aðra ofbeldi. En öðruvísi verður úrskurður Hæstaréttar ekki skilinn.

Réttarvernd brotaþola samkvæmt frönskum lögum

            Í Frakklandi eru í gildi lög[xi] 2010-769, frá 9. Júlí 2010, um ofbeldi gegn konum, ofbeldi milli sambúðarfólks, og áhrif þess á börn.[xii] Enda þótt lögin taki til beggja kynja þá eru þau einkum ætluð til verndar konum og börnum sem hafa mátt þola heimilisofbeldi. Lögin innihalda bæði ákvæði einkaréttarlegs eðlis sem og refsiákvæði (criminal provisions). Þau mynda XIV. kafla í frönsku borgaralögbókinni (Code civil) sem kallast "Varnaðarráðstafanir fyrir fórnarlömb ofbeldis" [Des Mesures de Protection des Victimes de Violences].

            Lögin innihalda ákvæði til verndar (ordonnance de protection) sem dómari við fjölskyldudómstól getur beitt og heimila vernd fyrir brotaþola eftir ýmsum leiðum. Þar má nefna:

  • 1) fyrirskipun dómstóls um neyðarvernd brotaþola (gr. 515-9)

  • 2) vernd brotaþola með eða án lögsóknar (gr. 515-10)

  • 3) fyrirskipun dómstóls um vernd brotaþola á grundvelli rökstudds gruns um yfirvofandi ofbeldi eða hættu (gr. 515-11). Sé til staðar rökstuddur grunur getur dómstóll:

a) meinað brotamanni að hitta eða hafa samband við þá aðila sem dómstóllinn tilgreinir;

b) bannað brotamanni að bera vopn og ef það á við, gert honum að afhenda vopn í sínum fórum;

c) úrskurðað brotaþola rétt til þess að dvelja án brotamanns á heimili sínu;

d) heimilað brotaþola að leyna búsetu;

e) bannað för barns frá frönsku yfirráðasvæði nema með samþykki beggja foreldra;

f) úrskurðað brotaþola réttaraðstoð.

            Brot gegn einhverjum þeim ráðstöfunum sem dómstóll fyrirskipar varða tveggja ára fangelsi og sekt sem nemur 15.000 Evrum (gr. 227-4-2). Ráðstafanir gilda í fjóra mánuði og má framlengja þær hafi krafa um aðskilnað eða skilnað borist. Dómara er hvenær sem er heimilt að grípa til annara ráðstafana sem hann metur nauðsynlegar. Ef ofbeldi eða brot varðar fangelsi allt að fimm árum er heimilt að fyrirskipa brotamanni að bera ökklaband.

            Lögin innihalda einnig nokkrar refsiheimildir sem miða að því að efla baráttuna gegn fjölskylduofbeldi, þar á meðal sálrænu ofbeldi. Um er að ræða áreiti af hálfu maka, sambúðaraðila eða samstarfsaðila, með síendurteknum athöfnum sem draga úr lífsgæðum brotaþola eða valda breytingu á líkamlegri eða andlegri heilsu hans. Varðar slíkt þriggja ára fangelsi og 45.000 Evru sektar. Ef áreitið hefur í för með sér að brotaþoli er frá vinnu lengur en átta daga má auka refsingu í fimm ár og 75.000 Evra sekt (gr. 222-33-2-1).

            Í frönsku refsiréttarlögbókinni (Code Pénal[xiii]) er að finna ýmis ákvæði sem snerta ofbeldi almennt. Gr. 222-7 mælir fyrir um það að beiting ofbeldis sem hefur í för með sér dauða án ásetnings varði 15 ára fangelsi. Þetta er ákvarðað frekar í gr. 222-8. Þar eru nefndar ýmsar ástæður sem þyngt geta viðurlög, skv. gr. 222-7, í 20 ára fangelsisvist. Það á m.a. við þegar um er að ræða ofbeldi gegn barni yngra en 15 ára, aðila sem er sértaklega berskjaldaður sökum aldurs, veikinda eða annara ástæðna. Þetta á einnig við ef um er að ræða ofbeldi gegn fjölskyldumeðlimum, skilgetnum foreldrum, fósturmóður eða fósturföður, gegn maka eða sambúðaraðilum. Morð (ásetningur) varðar hins vegar 30 ára fangelsi (gr. 221-1 Code Pénal). Þá varðar morð lífstíðarfangelsi ef fórnarlambið er barn yngra en 15 ára, foreldrar eða fósturforeldrar, aðili sem er sértaklega berskjaldaður sökum aldurs, veikinda eða annara ástæðna, maki eða annar nákominn (gr. 221-4).

Menntun og hæfni dómara

            Hæfnis- og menntunarkröfur íslenskra dómara eru skilgreindar í lögum nr. 15/1998 [dómstólalög]. Vísast þar til II. kafla, 4. gr. um Hæstarétt Íslands og til III. kafla, 12. gr. um héraðsdómstóla.[xiv]

            Það er verulegt áhyggjuefni að á Íslandi virðist réttarvernd marga, í ýmsum málum, byggjast á duttlungum einstakra dómara og geðþóttaákvörðunum. Verður það ljóst við lestur úrskurða og dóma. Slíkt er óviðunandi í ríkjum sem vilja kenna sig við rétt. Margt bendir til þess að eitthvað verulega mikið sé að, t.d. í lagakennslu á Íslandi, og að mikið skorti á að íslenskir lögfræðingar, almennt talað, hafi sem slíkir þá færni til að bera sem t.a.m. margir íslenskir læknar hafa í sinni starfsgrein. Enda má fullyrða að almenningur á Íslandi beri mun meira traust til íslenskra lækna en til íslenskra lögfræðinga (enda þótt til séu heiðarlegar undantekningar á flestum hlutum).

            Dugar ekki að vísa einvörðungu til þess að lögfræði og læknisfræði séu ólíkar greinar. Vandamálið er augljóslega flóknara en svo. Og ekki verður því haldið fram að traust á íslenskum dómstólum sé sérstaklega mikið, að ekki sé rætt um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu[xv] þar sem íslensk dómaframkvæmd fær iðulega falleinkunn.

            Ef almenn vanhæfni, og vankunnátta, íslenskra dómara er rót vandans, blasir við að auknar fjárveitingar í dómskerfið leiða ekki sjálfkrafa til úrbóta en um fjárveitingar hefur nokkuð verið rætt í þessu sambandi. Breyttar aðferðir við skipan dómara[xvi] munu þá heldur ekki koma að gagni. En hvað er þá til ráða? Ein leið gæti verið sú að fara að dæmi Frakka og setja á stofn sérstakan skóla sem menntar dómara- og saksóknaraefni. Er þar átt við Écolenationale delamagistrature eða ENM[xvii] í Bordeaux sem upphaflega var stofnaður með sérstakri  tilskipun (ordonnance) frá 22. desember 1958 (Statut de la Magistrature) og varð síðan ENM árið 1970. En þess má geta að skóli þessi býður erlendum dómurum[xviii] (og saksóknurum[xix]) að sækja námskeið í dómarastörfum (Training programme for foreign magistrates).[xx]

            Á Íslandi hefur hins vegar viðgengist að lögmenn sem nýlega hafa horfið af vettvangi verjenda séu síðan, á undraskömmum tíma, orðnir dómarar við Hæstarétt. Það vekur upp spurningar og er til þess fallið að spilla trúverðugleika sem enn kann að vera staðar gagnvart dómskerfinu. Lágmarkskrafa væri sú að umsækjanda væri gert að sækja sér sérþekkingu á dómarastörfum erlendis (t.d. í eitt ár) áður en hann er settur eða skipaður hæstaréttardómari. En lögmennska, fræðimennska og dómarastörf eru um margt ólík störf.

            Hins vegar er það mjög mismunandi eftir ríkjum hvernig staðið er að menntun og skipan dómara. Í Frakklandi[xxi] hélst það fyrirkomulag til ársins 1958 að verðandi dómarar, sem þreyta vildu samkeppnispróf til dómarastarfa, skyldu áður hafa lokið tveggja ára þjálfun  (bar traineeship). Þetta skilyrði var afnumið, að hluta vegna þess að slík þjálfun var ekki talin gagnast verðandi dómurum. Í dag eru menntunarkröfur meistarapróf (sambærilegt við "maîtrise") og góð útkoma úr samkeppnisprófum sem veita aðgang að ENM.[xxii] Um 250 pláss [í öllum þremur flokkunum[xxiii]] eru til ráðstöfunar á hverju ári. En um 5 til 20 dómaraefni eru síðan ár hvert valin inn í ENM á grundvelli "sérstakrar hæfni". Þar er gjarnan um að ræða þriggja til fjögurra ára starfsreynslu sem háskólakennari í lögfræði.[xxiv] Skal forseti Frakklands standa vörð um sjálfstæði dómsvaldsins sbr. 1. mgr. 64. gr. frönsku stjórnarskrárinnar.[xxv]

            Í Þýskalandi[xxvi] eru í gildi lög um dómstóla (Deutsches Richtergesetz) frá 19. apríl 1972. Í II. kafla laganna eru skilgreindar hæfniskröfur dómara. Kemur fram (gr. 5) að dómaraefni skal hafa lokið bæði fyrra og síðara prófi (sbr. erste und zweite juristische Prüfung) þar sem fyrra prófið er próf frá lagadeild en hið síðara veitir lögmannsréttindi [og er mismunandi eftir fylkjum í Þýskalandi]. Laganám skal hafa staðið í 4 ár en skemmri tími getur þó komið til álita (gr. 5a). Undirbúningsþjálfun (Vorbereitungsdienst) er skilgreind í gr. 5b sömu laga. Þar kemur fram að þjálfunin skal standa í 2 ár sbr. gr. 5b(1). Hún skal fara fram hjá dómstóli sem lögsögu hefur á sviði einkamála, hjá saksóknara eða dómstóli með lögsögu á sviði sakamála (einer Staatsanwaltschaft oder einem Gericht in Strafsachen), hjá stjórnsýsluembætti, hjá lögmanni (Rechtsanwalt) og hjá valfrjálsri (yfirþjóðlegri) stofnun eða meðal erlendra lögmanna sbr. 5B(2). Í gr. 7 kemur enn fremur fram að sérhver lagaprófessor í fullu starfi við háskóla, sem lögin taka til, skuli hæfur til þess að gegna dómarastarfi.

            Vert er að nefna í þessu sambandi að þýskir lagaprófessorar [þýskir prófessorar almennt sbr. og "Habilitation à Diriger des Recherches" í Frakklandi] hafa lokið doktorsprófi (auk fyrra og síðara lagaprófs). Væri mjög athugandi að gera sambærilegar kröfur til lagaprófessora á Íslandi sem þá yrðu einnig betur undirbúnir til dómarastarfa síðar.[xxvii]


[i]      http://www.jm.nrw.de/Gerichte_Behoerden/fachgerichte/Verwaltungsgericht/einstweilige_anordnung/index.php

[ii]    Sjá t.d.: http://legal-dictionary.thefreedictionary.com/Restraining+Order

[iii]    http://www.lexsoft.de/cgi-bin/lexsoft/justizportal_nrw.cgi?xid=140233,1

[iv]   http://ec.europa.eu/justice/criminal/victims/index_en.htm

[v]     http://www.iflg.uk.com/news/new-eu-law-in-force-today-providing-cross-border-protection-for-victims-of-domestic-violence-and-others

[vi]   Svartletrun mín.

[vii]  Svartletrun mín.

[viii] Sjá einnig: http://www.asca.org.au/About/Resources/Types-of-child-abuse.aspx

[ix]   Sjá t.d.: http://www.lawphil.net/statutes/repacts/ra2004/ra_9262_2004.html

[x]    http://www.echr.coe.int/Documents/Convention_ENG.pdf

[xi]    http://www.legifrance.gouv.fr/affichTexte.do?cidTexte=JORFTEXT000022454032&categorieLien=id

[xii]  Loi no. 2010-769 du 9 juillet 2010, relative aux violences faites specifiquement au femmes, aux violences au sein des couples et aux incidences de ces dernières sur les enfants.

[xiii] http://www.legifrance.gouv.fr/affichCode.do?cidTexte=LEGITEXT000006070719&dateTexte=20120308

[xiv] http://www.althingi.is/lagas/137/1998015.html

[xv]   http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/21/erla_hlyns_gridarlegar_gledifrettir/

[xvi] Um hæfniskröfur þýskra dómara vísast til þýskra dómstólalaga (á ensku): http://www.iuscomp.org/gla/statutes/DRiG.pdf

[xvii]         http://www.enm-justice.fr/anglais/home.php

[xviii]        Sjá einnig: http://ec.europa.eu/civiljustice/legal_prof/legal_prof_ger_en.htm

[xix] Sjá enn fremur: http://www.euro-justice.com/member_states/france/country_report/2782/

[xx]   http://www.enm-justice.fr/_uses/lib/5773/catalogue_DI_EN_2013_BD.pdf

[xxi] http://www.justice.gouv.fr/art_pix/french_legal_system.pdf

[xxii]         Sjá enn fremur frönsku dómstólalögin: http://www.legifrance.gouv.fr/affichTexte.do?cidTexte=JORFTEXT000000339259

[xxiii]        Hægt er að þreyta prófin sem nemandi (concours étudiant), embættismaður (concours fonctionnaires) eða eftir að hafa hlotið kosningu (sbr. electoral mandate) eða með sambærilega starfsreynslu.

[xxiv]        Sjá t.d.: https://e-justice.europa.eu/content_legal_professions-29-fr-maximizeMS-en.do?member=1

[xxv]          http://www.conseil-constitutionnel.fr/conseil-constitutionnel/english/constitution/constitution-of-4-october-1958.25742.html

[xxvi]        Sjá og þýska útgáfu dómstólalaganna: http://www.gesetze-im-internet.de/bundesrecht/drig/gesamt.pdf

[xxvii]       Sjá einnig: http://www.europaeische-juristenausbildung.de/Laender/deutschland.htm

Fréttabréf