Einar Ólafsson skrifar: AF HVERJU FÓRU LÆKNARNIR EKKI Í VIÐSKIPTAFRÆÐI?

Einkarekstur heimilislækna eða heilsugæslu - um hvað er verið að tala?
Að undanförnu hefur æ oftar borið á góma að farsælast yrði að auka einkarekstur í heilsugæslunni.
Í fréttum Ríkisútvarpsins 27. febrúar var þetta: "Breyta þarf heilsugæslukerfinu hér á landi og leyfa heimilislæknum í auknum mæli að starfa sjálfstætt eins og gert hefur verið víða á Norðurlöndunum segir framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins."
Og 7. mars þetta: "Formaður heimilislækna segir einkarekna heilsugæslu með tvíhliða samning við ríkið vera lausn á skorti á heimilislæknum á Íslandi. Heilbrigðisráðherra segir vel koma til greina að fara þá leið."
Þá skrifaði ég athugasemd á Facebook og af henni spruttu ágætar umræður.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá áhuga heimilislækna á einkarekstri heilsugæslunnar, sem sagt að þeir fái einkarekstrurinn í sínar hendur. Og þeir rökstyðja það með því að það hafi tekist svo ljómandi vel á Norðurlöndunum, þar hafi skortur á heimilslæknum snarminnkað. Ég er svo sem ekkert vel að mér um rekstur eða fyrirkomulag heilsugæslunnar. Ég veit heldur ekki alveg hvernig þetta fyrirkomulag er á Norðurlöndunum eða hvernig fyrirkomulag íslenskir heimilislæknar hugsa sér. En það vakna nokkrar spurningar. Hvað er heilsugæslustöð? Er það ekki rétt að það sé staður þar sem fólk getur fengið allskyns grunnþjónustu varðandi heilsutengd vandamál? Þar sé hægt að leita til heimilislækna, þar séu hjúkrunarfræðingar (sem vel að merkja eru ekki bara aðstoðarfólk læknanna heldur fagfólk sem veitir ýmsa sérhæfða þjónustu), ljósmæöur, sjúkraliðar, sálfræðingar og fleira starfsfólk sem í sameiningu veitir alhliða grunnþjónustu á þessu sviði. Sem sagt, læknarnir eru bara hluti af stærra teymi. Eða hvað?
Er hugmyndin sú að gerður sé samningur við læknana um að reka Heilsugæslustöðina? Af hverju á þá ein fagstétt innan teymisins að taka að sér reksturinn, fagstétt sem er ekki einu sinni menntuð til að annast rekstur? Af hverju þá ekki hjúkrunarfræðingarnir eða sjúkraliðarnir...?
Hvað með þau rök að með þessu sé hægt að bæta úr skorti á heimilislæknum? Ég ætla ekkert að rengja það. En af hverju er eftirsóknarverðara fyrir þá að starfa á þessum grundvelli?
Er það af því að þeim þykir í raun mest gaman að reka fyrirtæki? Af hverju fóru þeir þá ekki í viðskiptafræði? Eða er það af því að með því fá þeir meiri tekjur? Hvaðan koma þá þessar meiri tekjur? Er þarna um að ræða einhvers konar dulbúna launahækkun? Eða arðrán á öðru starfsfólki? Ég bara spyr."
Í umræðunum var m.a. bent á að hér hefðu heimilislæknar verið með einkarekstur um langt skeið. En ég hélt að einangraðir heimilislæknar tilheyrðu liðinni tíð, að nú væri horft til alhliða heilsugæslu þar sem ýmsar fagstéttir koma að þjónustunni. Ég bætti við þessari athugasemd: "... ég veit að sú var tíðin að það voru engar heilsugæslustöðvar, það voru bara heimilislæknar með sína stofu. Síðan fóru að koma heilsugæslustöðvar með margvíslegu starfsfólki. Á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti starfa t.d. 8 hjúkrunarfræöingar, 2 ljósmæður, 7 læknar, 4 móttökuritarar, 2 heilsugæsluritarar, 1 sálfræðingur, 1 hreyfistjóri og 1 skrifstofustjóri. Eiga þá læknarnir að reka stöðina? Ef svo, af hverju þá þeir? Eða eiga þeir að vinna þar á verktakasamningi? Á þá kannski að ráða allt starfsfólkið sem verktaka?
Nei, ég bara spyr. Hvað er svona sérstakt við lækna?"

Fréttabréf