Kári skrifar: ALÞINGI HYGGST ÚTHLUTA TIL ÚTVALDRA EIGUM ÞJÓÐARINNAR

  Makrílfrumvarpið

            Makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra er vondur gerningur.[i] Frumvarpið er enn ein tilraun íslenskra græðgisafla, í skjóli Alþingis, til þess að festa í sessi rán á þjóðareign og koma í hendur fárra útvaldra. "Þrælslund þjóðarinnar" virtist í fyrstu ætla ráða för og alltof fáir láta sig það varða. Úr því hefur ræst. Vonandi taka sem flestir við sér. Þegar þetta er ritað hafa 39.020 manns ritað nafn sitt undir áskorun til forseta Íslands, þar sem skorað er á hann að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem binda úthlutun fiskveiðiauðlinda til lengri tíma en eins árs í einu.[ii]

            Þriðja grein frumvarpsins mælir fyrir um "tímabundnar aflahlutdeildir". Það er vægast sagt mjög villandi í ljósi þess að um sex sinnum lengri tíma er að ræða en nú er.

"Aflahlutdeildir sem úthlutað er skv. 4. gr. eru tímabundnar og halda gildi sínu í sex ár frá gildistöku laganna. Óheimilt er að fella þær úr gildi, að hluta eða öllu leyti, með minna en sex ára fyrirvara. Sex ára gildistími aflahlutdeilda framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn hafi ákvæði þessu ekki verið breytt fyrir 1. janúar ár hvert." Þarna er sem sagt gert ráð fyrir úthlutun til sex ára og að minnsta kosti sex ára uppsagnarfresti.

            Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a. um 3. gr. þess: "Til að stuðla að ákveðnum fyrirsjáanleika í veiðunum er kveðið á um að úthlutun aflaheimilda gildi í sex ár[iii] og verði ekki felld niður að hluta eða öllu leyti nema með minnst sex ára fyrirvara." Aftur er vikið að þessu: " Fyrir liggur að mikil náttúruleg óvissa fylgir veiðum á makríl og því er mikilvægt að skapa fyrirsjáanleika hvað aðra þætti varðar."

            Nú er það svo að "náttúruleg óvissa" fylgir nánast öllum þáttum hins jarðneska lífs og verður engan veginn séð að sú óvissa sé á einhvern hátt meiri í makrílveiðum en öðru - fjarri því. Eða hvaða atvinnugrein á ekki við að etja "mikla náttúrulega óvissu"? Landbúnaðurinn? Ferðaþjónustan? Byggingariðnaðurinn? Hafa þeir sem stunda nefndar atvinnugreinar gert sérstaka kröfu um "fyrirsjáanleika"? Eftir hrunið haustið 2008 var "fyrirsjáanleiki" í byggingariðnaði örugglega ekki mikill á Íslandi svo dæmi sé tekið. Sama gildir um margar aðrar atvinnugreinar. Væri fróðlegt að kanna hversu margir íslenskir útgerðarmenn (stórútgerðarmenn) hafa þurft að "flýja" til Noregs vegna þess að atvinnuöryggi þeirra hefur brugðist, eins og þekkist í ýmsum öðrum atvinnugreinum.

            Þessi "röksemd" í frumvarpinu er augljóslega þáttur í spuna. Honum er ætlað að réttlæta vondan málstað.

Getur "úthlutun" gæða skapað eignarrétt?

            Lögfræðileg- og hagfræðileg umræða á Íslandi um auðlindamál hefur lengi verið á formi áróðurs og herferðar gegn íslenskum almenningi. "Lögfræðiálit" miða að því að flækja tiltölulega einfalt mál sem snýst í grunninn um það hvort afhending á eigum annarra myndi eignarrétt þeirra sem fá eignirnar "afhentar". Í þeirri umræðu er oft gengið út frá því sem gefnu að Alþingi geti gert nánast hvað sem er og þurfi enga leiðsögn frá þjóðinni, í jafn stóru máli og kvótamálinu. Ætla mætti að gerðir Alþingis þurfi ekki að samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Að kosningar séu einungis "óútfyllt ávísun" á gerræði.

            Þetta sýnir auðvitað vel firringu spunameistaranna, þingmanna og ráðherra. Afhjúpar að Alþingi Íslendinga er ekki, og hefur ekki verið áratugum saman, í neinu sambandi við umbjóðendur sína, þjóðina, heldur starfar í raun eins og sérhagsmunabandalag. Sumir háskólakennarar í lögfræði hafa rætt og ritað um málið á grundvelli eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða, án fyrirvara um grundvallaratriði. En aldrei er vikið að kjarna málsins. Hann er einkum fjórþættur:

  • 1) Íslenska þjóðin er eigandi fiskistofna á Íslandsmiðum og aflaheimilda þeim tengdum.

  • 2) Eignarréttur útgerðarmanna myndast ekki á þeim grundvelli að Alþingi færi þeim eigur þjóðarinnar, endurgjaldslaust [hvort sem um ræðir beinan eignarrétt eða nýtingarrétt].

  • 3) "Framsal" á eigum annarra (þjóðarinnar) myndar ekki eignarrétt útgerðarmanna.

  • 4) Kvótakerfið byggir beinlínis á forréttindum fárra sem viðgangast í krafti pólitískrar spillingar.

            Orðhengilsháttur sumra lögmanna, og háskólakennara í lögfræði, felst í því að þykjast ekki skilja íslensku. Telja hugtök eins og þjóðareign[iv] mjög torskilin enda fellur hugtakið illa að hagsmunagæslunni sem þetta snýst allt um. Nefndir aðilar eru langt frá því að vera hlutlausir í umræðunni og líkjast helst þeim sem mest töluðu fyrir hönd greiningardeilda bankanna, árin fyrir hrunið mikla. Í báðum tilvikum er um ómerkilegan áróður að ræða sem klæddur er í búning fræðimennsku. Er það vel þekkt aðferð við blekkingar að flækja einföld mál sem mest má verða.

            Víkjum þá að skilyrðum fyrir myndun eignarréttar og spurningunni um það hvort "úthlutun" geti myndað eignarrétt. Almennt má segja að eignarréttindi yfir landi, námum og öðrum auðlindum feli í sér ákveðna útilokun annarra, en handhafa eignarréttindanna, frá nýtingu auðlindanna.

            Breski heimspekingurinn John Locke áleit eignarrétt geta myndast með blöndun vinnuframlags við eitthvað sem skapar verðmæti. Þannig myndi eplatínsla eignarrétt þess sem tínir eplin.[v] Locke telur jörðina, og "óæðri skepnur", sameiginlega öllum. Hins vegar eigi hver maður sjálfan sig (every Man has a Property in his own Person) og þar með vinnuframlag sitt.[vi]

            Við þetta verður að gera athugasemdir. Í fyrsta lagi myndi dæmið um eplin ekki eiga við ef þegar væri eigandi að landinu þar sem eplin eru tínd. Íslenska þjóðin hefur þannig um aldir verið eigandi fiskimiðanna við Ísland, og hagnýtt þau sem slík, meira eða minna. Í öðru lagi verður ekki framhjá því litið að bæði menn og dýr deila um margt sömu grundvallarforsendum lífs s.s. að anda og nærast. Skipting í "æðri" og "óæðri" lífverur á sér því varla stoð í raunveruleikanum þegar betur er að gáð. Allar lífverur eru í raun "æðri lífverur". Má í því sambandi benda á erfðamengi manna og dýra sem um margt er líkt. T.d. hafa kettir um 90% sama erfðamengi og menn. Þá hafa kýr um 80% sama erfðamengi og menn.[vii] Í ljósi erfðafræðinnar er því ljóst að umrædd aðgreining Locke fær ekki staðist.

            Í þriðja lagi er engin sérstök ástæða til þess að ætla að annars konar "eignarhald" eigi við um menn og dýr. Locke telur jörðina og dýr "sameign" allra (manna). Hvers vegna skyldi ekki hið sama gilda um menn, að hver maður sé í sameign allra? Ef fallist er á það er ljóst að hver maður á ekki sjálfan sig heldur hefur sig að láni ef svo má að orði komast. Hefur þannig fullan umráðarétt yfir sjálfum sér en ekki eignarrétt og nýtur að sjálfsögðu mannréttinda í krafti umráðaréttarins. Í fjórða lagi er ljóst að jafnvel þótt menn ættu sjálfa sig þá leiðir ekki sjálfkrafa að því að menn eigi tilkall til eigna utan við sjálfa sig.

            J.F.A. Taylor telur að lög (og lögregla) standi einungis vörð um eignir en myndi þær ekki.[viii] Samkvæmt því verður eignarréttur ekki myndaður á grundvelli lagasetningar þar sem Alþingi stundar "eignatilfærslur" frá almenningi. Taylor bendir á að eignir manna á markaði byggist ekki á efndum sem þeir krefjast af öðrum, heldur umburðarlyndi sem aðrir krefjast af sjálfum sér. Umburðarlyndið er siðferðilegt val.[ix] Felur í sér að eignarréttur fær ekki staðist nema hann sé almennt viðurkenndur. Andstaða íslensku þjóðarinnar við kvótakerfið sýnir vel að hún viðurkennir ekki eignarrétt eða umráðarétt útgerðarmanna á aflaheimildum og braskið sem af þeim leiðir.

            Í tilviki sjávarauðlindarinnar, í lögsögu Íslands, hefur veiðirétturinn lengstum fylgt þjóðinni, ekki ákveðnum einstaklingum. Það er því veiðiréttur[x] íslensku þjóðarinnar sem er helgaður af aldagamalli hefð. Alþingi Íslendinga er í vinnu hjá þjóðinni og ber að fara að vilja umbjóðanda síns, þjóðarinnar, í hvívetna. En Alþingi hefur, fyrir þrýsting sérhagmunaflanna (útgerðarmanna), markvisst grafið undan rétti þjóðarinnar. Íslenskir prófessorar, einkum á sviði hagfræði og lögfræði, hafa þar heldur ekki látið sitt eftir liggja.

            Í Bandaríkjunum er eignum gjarnan skipt í tvennt: einkaeignir og ríkiseignir. Þriðja hugtakið, sameign, hefur eiginleika beggja þeirra fyrrnefndu. Í hagfræðilegri umræðu er stundum ruglað saman sameign (common property) við aðgangsfrjálsar eignir (open access property). Hið síðarnefnda er ekki skilgreint af eignarrétti og viðkomandi auðlind því opin til nýtingar eða nota fyrir hvern sem er.[xi]

Fiskveiðar og fiskveiðistjórnun innan Evrópusambandsins

            Tekist var á um fullveldi aðildarríkja og fiskveiðistefnu ESB fyrir Evrópudómstólnum, í máli C-804/79, Commission of the European Communities v United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland.[xii]

            Forsaga málsins er eftirfarandi. Frá 1970 hefur ráðið samræmd fiskveiðistefna inna ESB og samræming á markaði fyrir fiskafurðir. Reglugerðir ESB sem teknar voru upp á grunni stefnunnar innihalda sameiginlegar reglur um veiðar í sjó og krefjast samræmingar á landsrétti aðildarríkjanna. Það á við um þróun fiskveiða og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda. Aðildarríki ESB skulu tryggja jafnan aðgang að fiskimiðum fyrir öll skip sem sigla undir þjóðfána aðildarríkis og skráð er innan sambandsins.

            Ráðinu (the Council) er fengið vald til þess að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til verndunar ef stefna þykir í ofveiði. Samkvæmt aðildarsáttmála Bretlands að ESB skyldi sameiginlega fiskveiðistefnan ná til bresks hafsvæðis frá 1. janúar 1979. Með ályktun Ráðsins, í Hag árið 1976, var fiskveiðilögsaga ESB færð út í 200 mílur, frá ströndum Norðursjávar og Norður Atlandshafsins. Af sama tilefni samþykkti Ráðið ályktun til framkvæmdastjórnarinnar sem kölluð er "Hag ályktunin". Samkvæmt henni skyldu aðildarríki ESB undirgangast að taka engar einhliða ákvarðanir sem snertu verndun fiskistofna. Einungis í undantekningartilvikum, þegar ekki næðist samkomulag inna ESB um sameiginlegar aðgerðir, gætu einstök aðildarríki gripið til tímabundinna aðgerða, án mismununar, að fengnu samþykki framkvæmdastjórnarinnar.

            Frá 1977 til 1979 tókst Ráðinu ekki að ná samkomulagi um nýja sameiginlega fiskveiðistefnu, einkum vegna andstöðu Breta við opinn aðgang flota annarra aðildarríkja að breskum fiskimiðum. Að lokum tilkynntu Bretar að þeir myndi grípa til einhliða ráðstafana (lagasetningar) ef Ráðinu tækist ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það taldi Evrópudómstóllinn brot á skyldum Bretlands samkvæmt Rómarsáttmálanum [EEC Treaty] í dómi sínum þann 5. maí 1981.

            Í málinu C-213/89, The Queen v Secretary of State for Transport, ex parte: Factortame Ltd and others[xiii] (dómur frá 19. júní 1990) var fjallað um vald dómstóla aðildarríkja ESB til þess að leggja tímabundið lögbann á réttindi sem sótt eru í krafti Evrópuréttar. Málið snéri að veiðirétti ríkja innan lögsögu ESB. Forsendur málsins eru þær að þáverandi House of Lords (nú Hæstiréttur Bretlands) óskaði forúrskurðar Evrópudómstólsins (ECJ, nú CJ) í tveimur álitamálum.

            Skipting fiskveiðiheimilda (kvóta) milli aðildarríkja er viðfangsefni í samningaviðræðum innan Ráðsins (the Council). Minnkandi náttúruauðlindir á síðari tímum hafa orsakað harðari samkeppni milli þeirra aðildarríkja sem hafa stóra veiðiflota og fjölda starfa sem byggja á veiðum. Innganga Spánar í ESB, árið 1986, hafði í för með sér umtalsvert minni veiðiheimildir fyrir spænska útgerðarmenn. Til að bregðast við því stofnuðu þeir fyrirtæki í Bretlandi og endurskráðu skip sín undir breskum fána eða keyptu skip sem þegar voru skráð í Bretlandi. Með þessu móti fengu útgerðarmennirnir aðgang að mun gjöfulli breskum veiðiheimildum.

            Til að bregðast við því var lögum um skráningu skipa breytt í Bretlandi, árið 1988, og skilgreind skilyrði fyrir bresku eignarhaldi. Yfirlýst markmið breytingarinnar var að koma í veg fyrir "kvótahopp" (quota hopping) þar sem breskum kvóta væri "hnuplað" af skipum sem sigldu undir breskum fána en skorti þó raunverulega tengingu við Bretland.

            Framkvæmdastjórn ESB taldi ýmislegt athugavert við þetta nýja fyrirkomulag breskra yfirvalda. Áleit það fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis og hóf málarekstur gegn Bretlandi, á grundvelli þáverandi 169. gr. Rómarsáttmálans, nú 258. gr. í Lissabonsáttmálanum, TFEU. En þar er fjallað um brot á skyldum ríkja til að standa við sáttmála ESB.

            Samtímis höfðuðu eigendur og útgerðarmenn 95 fiskiskipa (53 þeirra voru áður skráð á Spáni og 42 keypt með breskri skráningu) mál gegn ráðuneyti breskra samgöngumála þar sem krafist var lögbanns á hið nýja fyrirkomulag, enda væri óbætanlegt tjón útgerðarmanna yfirvofandi. Samkvæmt breskum lögum höfðu þarlendir dómstólar ekki vald til þess að víkja til hliðar breskum lögum með lögbanni. Í því ljósi sendi House of Lords spurningar sínar til Evrópudómstólsins.

            Niðurstaða Evrópudómstólsins varð í stuttu máli sú að landsréttur sem stangast á við Evrópurétt skal víkja (sbr. supremacy of EU Law) komi upp árekstur þar á milli. Í þessu felst að breskur dómstóll gat ekki, á grundvelli breskra laga, neitað lögbannskröfu spænsku úgerðarmannanna. Almennt má segja að dómafordæmi Evrópudómstólsins eru mjög skýr hvað snertir forgang Evrópuréttar.

            Innan Evrópusambandsríkjanna er í gildi reglugerð Ráðsins (Council regulation[xiv]) nr. 2371/2002 um verndun og sjálfbæra nýtingu fiskistofna samkvæmt hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.[xv] Í 1. mgr. 9. gr. er fjallað um ákvarðanir ríkja innan 12 mílna lögsögu.

            "Aðildarríki er heimilt að grípa til ráðstafana, án mismununar, vegna verndunar og stjórnunar auðlinda sjávar og til að lágmarka áhrif veiða á verndun vistkerfis sjávar innan 12 sjómílna frá grunnlínu, að því gefnu að Bandalagið hafi ekki samþykkt ráðstafanir sem taka til náttúruverndar og stjórnunar á viðkomandi svæði sérstaklega. Ráðstafanir aðildarríkis skulu vera í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í 2. gr. og ekki vægari en gildandi löggjöf Bandalagsins."

            Í 20. gr. reglugerðarinnar er fjallað um úthlutun veiðiheimilda. Í 1. mgr. 20. gr. segir svo:

            "Ráðið skal, með auknum meirihluta og að tillögu frá framkvæmdastjórninni, ákveða aflamagn og/eða sóknarviðmiðanir og úthlutun veiðiheimilda milli aðildarríkja, sem og skilyrði tengd aflamagni. Veiðiheimildum skal skipt milli aðildarríkja þannig að hverju aðildarríki sé tryggður hlutfallslegur stöðugleiki[xvi] við veiðar á hverjum fiskistofni." Í 2. mgr. 20. gr. segir síðan: "Þegar Bandalagið [ESB] opnar á nýjar veiðar [ný tegund] skal Ráðið ákvarða um úthlutun í þeim veiðum, að teknu tilliti til hagsmuna hvers aðildarríkis."

            Í 3. mgr. 20. gr. er síðan mælt fyrir um það hvernig aðildarríkin skulu útdeila veiðiheimildum sem þeim eru ætlaðar. "Hvert aðildarríki skal ákveða, vegna skipa er sigla undir fána þess, aðferð við úthlutun veiðiheimilda, sem viðkomandi aðildarríki hlýtur, í samræmi við Evrópurétt. Skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um úthlutunaraðferðina."

            Af framansögðu má ljóst vera að heildarafli tegunda, og skipting milli ríkja, innan ESB er ákveðinn á grundvelli sameiginlegu sjávarútvegsstefnunar. Það er síðan sett í sjálfsvald hvers aðildarríkis hvernig það kýs að haga úthlutun þeirra veiðiheimilda sem koma í hlut þess. Þannig er ekkert út frá Evrópurétti sem hindrar aðildarríki í því að leggja á veiðigjöld eða bjóða upp aflaheimildir.

Auðlindir og alþjóðaréttur

            Alþjóðarétturinn (International Law) hefur að geyma ýmsar reglur sem snerta auðlindanýtingu ríkja og undir hvaða kringumstæðum ríki geta krafist eignarréttar yfir auðlindum. Segja má að samskipti einstaklinga stjórnist mikið af eignarrétti en samskipti ríkja af fullveldi þeirra. Á hinn bóginn stjórnast eignarréttur af fullveldi. Hvert fullvalda ríki stýrir þannig með löggjöf umgjörð um eignarrétt og takmarkanir á honum.

            Auðlindanýting og umhverfismál eru órjúfanlega tengd alþjóðarétti.[xvii] Hvað snertir yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna (og eru ekki bindandi að þjóðarétti, "soft law", en þó mjög leiðbeinandi) má nefna Stokkhólmsyfirlýsinguna.[xviii] En Sameinuðu þjóðirnar héldu ráðstefnu í Stokkhólmi 5.-16. júní árið 1972 þar sem rætt var um "mannlegt umhverfi". Var kallað eftir meginreglum til þess að hvetja og leiðbeina þjóðum heimsins við varðveislu og endurbætur á umhverfi mannsins. Vísast sérstaklega til 3. gr. auk reglu 2 (Principle 2), reglu 3, 5, 7, 12 og 13 í yfirlýsingunni sem fjalla sérstaklega um auðlindir.

            Þá má nefna sáttmála[xix] Sameinuðu þjóðanna frá 1982 (World Charter for Nature) og kunngerður var á allsherjarþingi þeirra. Í honum er m.a. vísað til ályktana allsherjarþingsins nr. 35/7 (1980) og 36/6 (1981) sem taka til náttúruverndar. Tilgreindur er réttur bæði núverandi og komandi kynslóða til gæða jarðar í krafti náttúruverndar. Áherslan er á hófsemi í nýtingu og sjálfbæra þróun. Í 4. gr. (General Principles) segir efnislega: Vistkerfi og lífverur, auk lands, sjávar og auðlinda í andrúmslofti sem nýttar eru af mönnum, skal stjórnað til þess að ná og viðhalda hámarks sjálfbærri framleiðni, en ekki þannig að öðrum vistkerfum eða tegundum sé stefnt í hættu.

            Í Ríó-yfirlýsingu[xx] ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, frá 1992, er einnig fjallað um umhverfi og þróun. Þar er í reglu 2 (Principle 2) vísað til Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna (UN Charter) og alþjóðaréttar og þar ítrekaður réttur fullvalda ríkja til þess að hagnýta auðlindir sínar, í samræmi við eigin umhverfis- og þróunarstefnu. En einnig skyldur til þess að tryggja að starfsemi innan eigin lögsögu valdi ekki skaða á umhverfi annarra ríkja.

            Þess má geta að svo venja (custom) geti myndast í alþjóðarétti er almennt talið að tvennt þurfi til að koma:

  • 1. Iðkun ríkis (State practice - usus eða diuturnitas).

  • 2. Tiltrú þess efnis (opinio juris eða opinio necessitatis) að iðkun skv. 1. lið endurspegli eða jafngildi lögum, eða sé krafist vegna brýnna félagslegra, hagrænna eða pólitískrar nauðsynjar (opinio necessitatis).[xxi]

            Af þessu má ljóst vera að "hegðun ríkja" yfir lengri tíma skiptir miklu máli þegar kemur að því að skapa rétt sem viðurkenndur er af öðrum ríkjum. Má nefna fiskveiðar á ákveðnum miðum. Almennt má segja að þótt fullveldisréttur ríkja sé sterkur til að ráða eign málum eru þó á honum ýmsar undantekningar sem enginn "afsláttur" er veittur af. Þar má nefna grundvallarreglur í alþjóðarétti (ius cogens) sem banna m.a. árásarstríð (réttur til sjálfsvarnar er skilgreindur undir 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna[xxii]), glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi, sjórán, þjóðarmorð, aðskilnaðarstefnu, þrælahald og pyndingar.[xxiii] Listi yfir umræddar grundvallarreglur er ekki tæmandi og verður ekki fjallað frekar um þessi atriði hér.

            Þessu næst má nefna sáttmála um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns sem hlýst af starfsemi hættulegri umhverfinu[xxiv] á vegum Evrópuráðsins (Council of Europe). Um tilgang og markmið segir í 1. gr. samningsins: "samningur þessi miðar að því að tryggja fullnægjandi bætur fyrir tjón sem leiðir af starfsemi sem hættuleg er umhverfinu og kveður einnig á um  leiðir til að koma í veg fyrir og bæta fyrir."

            Í 10. tölul. 2. gr. eru skilgreindir þættir sem falla undir "umhverfi". Þar eru taldar náttúruauðlindir, bæði ólífrænar og lífrænar, s.s. loft, vatn, jarðvegur, dýralíf og gróður, og samspil milli sömu þátta. Einnig atriði sem teljast hluti af menningararfi sem og sérstætt landslag. Um orsakasamband (Causality) á milli skaðaverks og tjóns vísast til 10. gr. sáttmálans.

            Sýnt hefur verið fram á það að ákveðin veiðarfæri (botntroll) hafa valdið skemmdum á hafsbotninum á Íslandsmiðum. Frá því greinir m.a. í ágætu riti frá Hafrannsóknarstofnun sem nefnist: "Kóralsvæði á Íslandsmiðum: Mat á ástandi og tillaga um aðgerðir til verndar þeim" (2004).[xxv] Segja má að þróun í umhverfis- og auðlindarétti sé í þá veru að auðlindanýtingu skuli fylgja ábyrgð. Þessi atriði má hafa til hliðsjónar þegar rætt er um fiskveiðistjórnun og nýtingu auðlinda á Íslandi. Í því ljósi má spyrja hvort útgerðarmenn hafi mögulega bakað sér skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem þeir hafa valdið við veiðar? Þá vaknar sú spurning hvort útgerðarmenn eru tilbúnir til þess að leggja til hliðar fjárhæð (og lækka arðgreiðslur á móti) til greiðslu skaðabóta handa íslensku þjóðinni sem eiganda fiskimiða og fiskistofna við Ísland? Eða vilja útgerðarmenn einungis nýta, hirða arð, en bera enga ábyrgð?[xxvi]

           


[i]     http://www.althingi.is/altext/144/s/1165.html

[ii]    http://www.thjodareign.is/

[iii]   Svartletrun mín.

[iv]   Sjá einnig: http://www.law.unimelb.edu.au/files/dmfile/04PereiraGough-Depaginated.pdf

[v]    Locke, John. Second Treatise, §§ 25--51, 123-26.

      http://press-pubs.uchicago.edu/founders/documents/v1ch16s3.html

[vi]   Sama heimild.

[vii]  http://genome.cshlp.org/content/17/11/1675.full

[viii] Taylor, J.F.A. (1966). The Masks of Society: An Inquiry into the Covenants of Civilization. New York, Appleton-Century-Crofts.

[ix]    Sama heimild bls. 110.

[x]     Sjá einnig: http://www.mineaction.org/sites/default/files/publications/Transitioning-to-National-Ownership-2013.pdf

[xi]    Gorman, Robert. (2001). "Common Property And Natural Resource Management". Property Rights: A Primer. Neil Meyer ed. P. 13. Web. 26 May 2015.

[xii]    http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:61979CJ0804

[xiii]   http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=CELEX:61989CJ0213:EN:HTML

[xiv] http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2002:358:0059:0080:EN:PDF

[xv]  Um sameiginlega landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB er fjallað í bálki III, gr. 38-44 í Lissabonsáttmálanum (TFEU).

[xvi] Sjá einnig: http://ec.europa.eu/fisheries/cfp/fishing_rules/tacs/index_en.htm

[xvii]          Sjá t.d.: Cassese, Antonio (2005). International Law 2nd.ed. Oxford University Press, bls. 482.

[xviii]          http://www.unep.org/Documents.Multilingual/Default.asp?documentid=97&articleid=1503

[xix]  http://www.un.org/documents/ga/res/37/a37r007.htm

[xx]    http://www.un.org/documents/ga/conf151/aconf15126-1annex1.htm

[xxi]  Cassese, Antonio (2005). International Law 2nd.ed. Oxford University Press, bls. 156-157.

[xxii] http://www.un.org/en/documents/charter/chapter7.shtml

[xxiii]          Sjá einnig: https://ghum.kuleuven.be/ggs/publications/working_papers/archive/wp01.pdf

[xxiv]         http://conventions.coe.int/Treaty/en/Treaties/Html/150.htm

[xxv] http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/korall.pdf

[xxvi]         Sjá einnig 145. og 263. gr. Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. http://www.un.org/depts/los/convention_agreements/texts/unclos/unclos_e.pdf

Fréttabréf