Fara í efni

FÁTÆKT ER PÓLITÍSK ÁKVÖRÐUN

Efnahagsástandið á Íslandi er nú með þeim hætti að enginn íbúi landsins ætti að þurfa að búa við fátækt. Með réttri stefnu, ákvörðunum og aðgerðum geta stjórnvöld komið í veg fyrir fátækt. Fátækt er því í raun pólitísk ákvörðun.

Í janúar 2015 gaf Velferðarvaktin út skýrslu með tillögum um aðgerðir til að vinna bug á fátækt. Tillögurnar eru þessar í stuttu máli, en nánari útfærslu er að finna í skýrslunni:

  1. Barnabótakerfið verði einfaldað og gert réttlátara til að styðja vel við börn í tekjulágum fjölskyldum.
  2. Skilgreint verði lágmarksframfærsluviðmið sem miði að því að einstaklingar og fjölskyldur búi ekki við fátækt.
  3. Létt verði á útgjöldum efnalítilla fjölskyldna og einstaklinga sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað.
  4. Tryggt verði að efnalitlar fjölskyldur geti nýtt sér þá grunnþjónustu sem boðið er upp á í samfélaginu á hverjum tíma, t.d. með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa.
  5. Einstaklingsmiðuð þjónusta verði tryggð betur en nú með þverfaglegu samstarfi og samþættingu milli ólíkra þjónustukerfa, svo sem velferðarþjónustu, menntakerfisins og annarra.
  6. Stjórnvöld, í samvinnu við frjáls félagasamtök, aðstoði betur en nú er gert einstaklinga og fjölskyldur sem búa við sára fátækt m.a. til sjálfshjálpar og aukinnar virkni.

(Velferðarráðuneytið 2015, bls. 3-4).

Fátækt er augljós veruleiki þeim sem við hana býr en hvar mörk hennar liggja þarf þó að skilgreina til að hægt sé að takast á við hann. Hagstofa Íslands notar hugtakið lágtekjumörk, sem „miðast við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu taka mið af heildarráðstöfunartekjum heimilis og hversu margir þurfa að lifa af þeim." (Velferðarráðuneytið 2013 a, bls. 22).

Lágtekjumörkin eru hlutfallsleg mörk og þýða ekki endilega að þeir búi við skort sem eru neðan þeirra. En á það leggur Hagstofan einnig mat samkvæmt evrópskum matslista, þar sem gert er ráð fyrir níu þáttum sem gætu bent til skorts, svo sem að lenda í vanskilum vegna húsnæðislána, hafa ekki efni á heilsusamlegum mat, eða síma, bíl og fleiru. Ef þrír eða fleiri af þessum þáttum eiga við eru viðkomandi taldir búa við skort. Ef fjórir af þessum þáttum eiga við er talið að um verulegan skort sé að ræða. (Velferðarráðuneytið 2015, bls. 6 og Hagstofa Íslands 2015, bls. 10). Nánar er fjallað um mælingar á fátækt í skýrslu UNICEF á Íslandi frá 2016 (bls. 10-11).

Í gögnum Hagstofunnar eru þeir, sem eru undir lágtekjumörkum eða búa við efnislegan skort, greindir niður í hópa eftir ýmiskonar stöðu, svo sem kyni, aldri, búsetu, heimilisgerð, atvinnustöðu, menntun og fleiru, þannig að upplýsingarnar eru býsna ítarlegar.

Samkvæmt viðmiði Hagstofunnar voru lágtekjumörk árið 2014 fyrir einstakling 182.600 krónur en fyrir tvo fullorðna með tvö börn 383.400 krónur. Það ár voru 7,9% landsmanna undir þeim mörkum. Af þeim voru flestir einhleypir einstaklingar, 37,5 %, en einstæðir foreldrar voru 22,3%. (Hagstofa Íslands a).

Hlutfall þeirra sem skorti efnisleg gæði árið 2014 var 5,5%. 23% þeirra voru öryrkjar, 20,3% einstæðir foreldrar og börn og 11% einhleypir einstaklingar (Hagstofa Íslands a og Hagstofa Íslands 2015, bls. 1).

Í Hagtíðindum, 6. hefti 2015, er farið nánar í saumana á efnislegum skorti (Hagstofa Íslands 2015 a). Þar kemur raunar ýmislegt ánægjulegt fram. Hlutfall þeirra sem skortir efnisleg gæði lækkaði nokkuð á árunum 2008 og 2009, hækkaði síðan aftur en fór svo heldur lækkandi frá 2011 til 2014 og var reyndar lægra þessi ár en á árunum 2004 til 2007 (bls. 2). Í samanburði við önnur lönd í Evrópu er þetta hlutfall líka mjög lágt, í einungis fjórum löndum var það lægra árið 2013 (bls. 3). Árið 2014 var tekjudreifing líka jafnari en verið hafði frá fyrstu mælingu árið 2004. Og árið 2013 var tekjudreifingin hvergi jafnari í Evrópu að Noregi undanskildum (Hagstofa Íslands 2015 b).

það breytir því þó ekki að fyrir þá sem búa við efnislegan skort er það engin sárabót þótt þeir séu hlutfallslega færri hér en annars staðar, staða þeirra er jafn sár fyrir því. En á hinn bóginn skyldi maður ætla að það sé auðveldara að ráða bug á þessum vanda eftir því sem hlutfallið er lægra og því minni afsökun að láta það undir höfuð leggjast.

Fleiri skýrslur hafa verið gerðar nýlega um fátækt á Íslandi og má þar nefna ítarlega skýrslu Rauða kross Íslands 2014, skýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins í Reykjavík 2012, Farsæld - baráttan gegn fátækt, tillögur velferðarráðuneytisins 2013 byggðar á þeirri skýrslu um aðgerðir til að vinna gegn fátækt, skýrslu Hagstofu Íslands 2016 um sárafátækt, unnin að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, og loks skýrslu UNICEF á Íslandi frá 2016 um börn sem líða efnislegan skort á Íslandi. Í heimildaskrám þessara rita er vísað í fleiri rit, skýrslur og rannsóknir.

Það verður því ekki annað sagt en talsverðar upplýsingar liggi fyrir um fátækt á Íslandi. En þó hefur nokkuð skort á og hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna ítrekað bent íslenskum yfirvöldum á skort á víðtækri og reglulegri gagnaöflun um stöðu barna hér á landi. UNICEF á Íslandi hefur brugðist við því með því að ganga til samstarfs við Hagstofu Íslands um greiningu á gögnum sem varða fátækt meðal barna með aðferð sem rannsóknarstofnun UNICEF hefur þróað. Afrakstur þeirrar vinnu kom út árið 2016 í skýrslunni Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort.

Þótt efnislegur skortur sé tiltölulega fátíður hér miðað við önnur lönd gefa niðurstöðurnar í skýrslu UNICEF sannarlega tilefni til viðbragða. Samkvæmt henni hefur hlutfall þeirra barna sem líða skort á Íslandi rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009. Þá liðu 4,0% barna hér á landi skort en árið 2014 var hlutfallið komið upp í 9,1%. Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn líði efnislegan skort hér á landi. Af þeim líða tæplega 1.600 börn verulegan skort. Hlutfall barna sem líða verulegan skort hefur þrefaldast frá árinu 2009 og er nú 2,4%. Í skýrslunni er nánari greining á þessum skorti og stöðu þeirra barna sem búa við hann.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands (2016 a) var verg landsframleiðsla á mann á Íslandi árið 2013 17% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna og var Ísland í ellefta sæti í röð allra 37 Evrópuríkjanna. Einstaklingsbundin neysla á mann var þetta sama ár 12% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna og var Ísland í þrettánda sæti allra Evrópuríkjanna. Samkvæmt bráðbirgðaniðurstöðum fyrir árið 2015 hafði Ísland þá færst heldur ofar.

Efnahagsástandið á Íslandi er nú þannig að engin afsökun er fyrir því að hefja ekki nú þegar markvissan undirbúning að því að uppræta fátækt á Íslandi. Vissulega þarf líka að verja miklu fé til lagfæringar á ýmsum innviðum á Íslandi en galli í ýmsum innviðum er  líka meðal orsaka fyrir fátækt.

Fátækt er pólitísk ákvörðun.

(Þessi fullyrðing, „fátækt er pólitísk ákvörðun," er reyndar ekki mín uppfinning. Ég rakst á þetta í viðtali í Fréttatímanum 20. október 2016 við Hildi Oddsdóttur sem sagði frá reynslu sinni af að þurfa að leita eftir mataraðstoð til hjálparsamtaka, en hún er félagi í Pepp, samtökum sem berjast gegn fátækt á Íslandi.

http://www.frettatiminn.is/fataekt-er-politisk-akvordun/

https://www.facebook.com/eapn.pepp/?ref=page_internal)

Apríl 2017

Einar Ólafsson


Skýrslur og aðrar heimildir:

Hagstofa Íslands (a).

http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__4_tekjur__4_tekjurEldra/?rxid=560313e0-f784-4ebd-b7ad-2210ed17b23a

Hagstofa Íslands (2015 a). Hagtíðindi, 2015:6. Félagsvísar: Skortur á efnislegum gæðum 2014. 3. júlí 2015.

https://hagstofa.is/media/49160/hag_150703.pdf

Hagstofa Íslands (2015 b). Dreifing tekna jafnari en áður. 5. júní 2015.

https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/lifskjor/dreifing-tekna-jafnari-en-adur/

Hagstofa Íslands (2016 a). Magntölur vergrar landsframleiðslu og einstaklingsbundinnar neyslu á mann í Evrópuríkjum 2013-2015. 14. desember 2016.

https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/verdlag/magntolur-vergrar-landsframleidslu-og-einstaklingsbundinnar-neyslu-a-mann-i-evropurikjum-2013-2015/

Hagstofa Íslands (2016 b). Sárafátækt.

https://www.velferdarraduneyti.is/media/skyrslur2016/Skyrsla-um-sarafataekt-13.9.2016.pdf

Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn í Reykjavík (2012). Farsæld - baráttan gegn fátækt.

http://www.help.is/doc/119

Rauði kross Íslands (2014). Hvar þrengir að? Könnun á hvaða hópar í samfélaginu eigi helst undir högg að sækja.

https://www.raudikrossinn.is/media/skyrslur/hvar_threngir_ad_2014--1-.pdf

UNICEF á Íslandi (2016). Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort.

https://www.unicef.is/sites/unicef.is/files/atoms/files/unicef_rbai.skyrsla.2016_vef_2.pdf

UNICEF á Íslandi. Mælaborð fyrir gagnasafn skýrslunnar Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort.

https://unicef.is/skortur-medal-barna

Velferðarráðuneytið (2013 a). Félagsvísar. Unnir fyrir velferðarráðuneytið af Hagstofu Íslands. Önnur útgáfa 2013.

https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Felagsvisar_18102013.pdf

Velferðarráðuneytið (2013 b). Aðgerðir til að vinna gegn fátækt. Tillögur byggðar á skýrslunni Farsæld - baráttan gegn fátækt á Íslandi.

https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Farsaeldarskyrsla--24042013.pdf

Velferðarráðuneytið (2015). Skýrsla Velferðarvaktarinnar. Tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt. Jnaúar 2015. https://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarvakt09/Skyrsla_Velferdarvaktar_Jan2015.pdf