Kári skrifar: ÞJÓÐAREIGN OG KVÓTAKERFI Í LJÓSI SAMKEPPNIS-RÉTTAR

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, undanfarið, hefur verið ákveðið að fresta lækkun veiðigjalda fram til næstu áramóta. En eins oft og mjög hefur verið dásamað hið "frábæra" íslenska kvótakerfi, og þá helst á forsendum hagfræði, er minna rætt um laga­lega vankanta á því sem eru margir.

[Brask með þjóðareign]

Selja eignir þjóðar þá,

þykir mörgum snilli.

Kvótaþegar kallast á,

krunka sín á milli.

T.a.m. hefur fyrrum ráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sagt að framsalið, og ákveðið var með lögum nr. 38/1990, hafi verið nauðsynleg ráðstöfun til þess að ná fram þeirri hagræðingu í sjávarútvegi sem stefnt var að. Það heitir með öðrum orðum sam­þjöppun og fákeppni. Hins vegar vill svo til að það sem "þjappa" átti saman og kallast í daglegu máli aflaheimildir var ekki á forræði þeirra sem með höndluðu, heldur eign ís­lensku þjóðarinnar - frá aldaöðli. Í tímaritinu Náttúrufræðingnum, árið 1944, er fróðleg grein eftir Björn Guðmundsson og ber heitið "Nokkur orð um selveiði á Íslandi fyrrum og nú". Þar segir Björn m.a.:

"Frá því að Ísland byggðist og til þessa dags, hafa íbúar þess stundað mjög veið­ar. En þær hafa að mestu leyti verið bundnar við dýr þau, sem lifðu í og á sjónum við strendur landsins, miklu minna verið veitt af landdýrum eða silungi og laxi í vötnum og ám. Sjórinn hefur verið - og er enn - að þessu leyti fjörgjafinn mikli í lífi þjóðarinnar, uppspretta auðs og bjargar í bú, bæði ríkra og fátækra."[i]

Þegar kemur að hefðarrétti þjóðarinnar skiptir þó ekki mestu máli hversu miklar veiðar voru stundaðar, eða með hvaða veiðarfærum, í gegnum aldirnar, heldur hitt að lengi voru stundaðar veiðar. Veiðar í þorskanet hefjast t.a.m. fyrst um miðja 18. öldina en sá tími er þó í öllu falli mun lengri en meintur "hefðarréttur íslenskra útgerðarmanna", frá því að sett voru lög um stjórn fiskveiða árið 1984!

Sé á annað borð stefnt að samþjöppun eigna af einhverju tagi þarf að vera ljóst í upphafi að menn hafi eignarrétt og ráðstöfunarrétt á því sem þjappa skal saman. Í þessu máli sýnist alveg ljóst að eigandinn, íslenska þjóðin, var aldrei spurð álits. En það hefði auðveldlega mátt gera með þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda mál sem stjórn fiskveiða er.

            Löggjafinn, Alþingi, er hins vegar rígbundinn margskonar hagsmunaöflum sem í raun stjórna ferðinni og því ekki við miklu að búast úr þeirri áttinni. Umræða um "hag­ræðingu" kemur fyrir lítið, eigi menn ekki það sem hagræðingin snertir. Með öðrum orðum; eignarréttur íslensku þjóðarinnar var hafður að engu. Þjóðareign varð að "þjófaeign". Það er kjarni málsins. Hið svokallaða "framsal" er því lögleysa frá upphafi þegar af þeirri ástæðu. Þar að auki hefur íslenska þjóðin notið í litlu meintrar hag­ræðingar sem hefur að stærstum hluta endað í vösum braskara og hluthafa útgerðarfyrirtækja.

Ekki hafa byggðir, þar sem kvótinn hefur verið seldur í burtu, notið ávinningsins. Þarna fara einfaldlega ekki saman hagsmunir útgerðarinnar [sérhagsmunir] og íslensku þjóðarinnar. Það er dagljóst. Er þá ótalið brottkastið margumtalaða sem sýnir vel þá sóun sem kerfinu fylgir. Veðsetning kvóta[ii] er síðan beintengd braskinu og sukkinu sem eru innbyggð í kerfið. Undirlægja sumra og lotning fyrir peningavaldinu er slík að furðu sætir. Virðast nánast telja það borgaralega skyldu sína að þjóna arðráni og auðvaldi, hvenær og hvar sem færi gefst, og vinna um leið dyggilega gegn þjóðinni [sérhagsmunir gegn almannahagsmunum]. Það er ákaflega aumt hlutskipti. En reisn er takmörkuð eins og fleira.

"Öfundarrökin" er algerlega óþarft að ræða í þessu sambandi, enda einungis ein af mörgum leiðum sem farin er til þess að dreifa athygli fólk frá aðalatriðum málsins. Eru ekki svara verð. En hvað snertir hinar lagalegu hliðar málsins koma strax til álita, mannréttindi (atvinnufrelsi, eignarréttur og fleira) en ekki síður samkeppnisréttur og þau fjölmörgu atriði sem honum tengjast.

Íslenskir "fræðimenn" geta skrifað hverja "fræðigreinina" á eftir annari og birt um alla veröld - það breytir engu um staðreyndir málsins. Enda birtist í þeim  harðsvíruð sérhagsmunagæsla sem hefur enga merkingu í samhengi sannleikans. Mætti kalla hana; baráttuna gegn þjóðinni.

Að "framselja" það sem menn eiga ekki

            Segja má að kvótakerfi, úthlutunarkerfi, sé andstæða uppboðskerfis þar sem byggt er á frjálsri samkeppni. En þar sem eðlileg samkeppni ríkir myndast verð á grund­velli framboðs og eftirspurnar. Úthlutunarkerfi byggir hins vegar á því að fáir aðilar fá afhentar gjafir úr hendi veitingarvaldsins. Það er því ekki að ástæðulausu að kvótakerfið er stundum kallað "gjafakvótakerfi". Það er fullkomið réttnefni. Upphaflegu gjafirnar hafa hins vegar gengið "kaupum og sölum" síðan "framsalið" komst á. En "tilfærsla" á "eign" sem er illa fengin í upphafi öðlast ekki lögmæti og réttmæti þótt "eignin" skipti oft um hendur. Það er einhver misskilningur sem stundum sést á prenti. Slík skipti breyta í engu hinum upphaflega rétti sem er eignarréttur þjóðarinnar.

[Þjóðareign afhent]

Hefðarréttinn höfum enn,

heldur áfram slagur.

Eignir þjóðar þáðu menn,

þótti góður bragur.

Í íslenskri nútímamálsorðabók er skilgreining á orðinu "þjófsnautur". Þar segir: "sá eða sú sem hagnýtir sér stolinn varning."[iii] Íslenska þjóðin er þó ekki óvön því að eignir hennar séu teknar traustataki, með "lögmætisstimpli" Alþingis, og færðar aðilum sem stjórnvöldum eru þóknanlegir. Gott dæmi um það er auðvitað stuldurinn á banka­kerfinu, árið 2002, eins og frægt er orðið - að endemum - og kallað var "einkavæðing". Réttnefni er hins vegar þjófavæðing/einkaránsvæðing, eins og síðar kom glöggt í ljós.

Kvótakerfi og samkeppnisréttur

Þessu næst er ekki úr vegi að skoða hvað rætt hefur verið og ritað erlendis um samband (framseljanlegra) kvóta annar vegar og hins vegar samkeppnisréttar. Er þá ekki fjallað um það hvernig eignarhaldinu (eignarréttinum) var háttað áður en "framsal" var tekið upp. En oft er það afgreitt með því að segja að "enginn hafi átt" þá auðlind sem um ræðir heldur hafi hún verið "almenningur", öllum opin. Það eru rök sem oft falla illa að hefðarrétti og eignarrétti þjóða á sömu auðlindum. Enda ljóst að ef einstak­lingar geta myndað eignarrétt í krafti nýtingar, þá geta þjóðir það líka! Eins og margir vita, er hinn svokallaði innri markaður Evrópusambandsins (Internal market) samkeppnismarkaður.

            Á þeim markaði gilda leikreglur evrópska samkeppnisréttarins. Grundvallarreglur hans eru skilgreindar í greinum 101-102 í Lissabon-sáttmálanum (TFEU). Þessar reglur er nauðsynlegt að hafa í huga þegar samkeppni og reglur hennar koma til álita. Sameiginlega landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnan kemur hins vegar fram í greinum 38-39 í sama sáttmála. Í 1. mgr. 38. gr. er m.a. tiltekið að innri markaðurinn skal ná til landbúnaðar, fiskveiða og verslunar með landbúnaðarvörur.

            Með reglugerð Ráðsins[iv] (The Council) nr. 768/2005 var sett á laggirnar skrif­stofa sem árið 2012 hlaut nafnið Evrópska fiskveiðistjórnunin (European Fisheries Control Agency - EFCA). Verkefni hennar eru m.a. að berjast gegn ólöglegum, stjórn­lausum og ótilkynntum veiðum, í samræmi við lög Evrópusambandsins. Stofnunin hefur einnig að markmiði að tryggja samkeppnisgrundvöll og minnka samkeppnisröskun á sama vettvangi.

            Á Íslandi sér Fiskistofa "...um úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa, samkvæmt ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um leyfilegan heildarafla. Útgerðum skipa er heimilt að flytja aflamark og aflahlutdeildir á milli skipa upp að ákveðnu marki samkvæmt reglum þar um og framkvæmir Fiskistofa þann flutning."[v]

Ásókn í náttúrugæði, s.s. fiskistofna, hefur víða gert að verkum að einhvers konar stýringu er beitt á sóknina í viðkomandi gæði (auðlind). Spurningin er hins vegar sú hvers konar stýringu er um að ræða og hvort þar er gætt jafnræðis- og réttlætissjónarmiða en einnig hvort aðferðin samrýmist ákvæðum mannréttinda og samkeppnisréttar. Uppboðsleið tryggir í senn hæsta verð fyrir eiganda aflaheimildanna, þ.e. þjóðina, jafnræði, þar sem bjóðendur njóta jafnstöðu gagnvart kerfinu sem um ræðir sem um leið felur í sér mun meira réttlæti en lokað úthlutunarkerfi felur í sér. Enda nær engri átt að sá sem hyggst öðlast aflaheimildir sé ofurseldur kvótaþegum í greininni sem síðan leigja eða selja öðrum á okurverði.

            Auðveldlega má setja takmarkanir í uppboðskerfi, t.d. gagnvart erlendu eignarhaldi. En slíkar takmarkanir er þegar að finna t.a.m. í 4. gr. laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.[vi] Nauðsynlegt er að binda ákveðinn hluta veiðiheimilda við byggðarlög og tryggja þannig að afkomugrundvelli fólks sé ekki kippt undan því í einni svipan.

            Framseljanlegir aflakvótar eru af sumum taldir ýta undir fækkun starfsfólks og minnka innstreymi fjármagns. Hins vegar hafa þeir jafnframt leitt til félagslegs óstöðugleika, þar sem úthlutun hyglir einum á kostnað annars.[vii] Greint er á milli annars vegar framseljanlegra einstaklingskvóta (ITQ) og hins vegar tímabundinna kvóta (TTQ).

            Í Bandaríkjunum þarf stjórn fiskveiða að standast ákvæði alríkislaga, hinna svokölluðu Magnuson-laga (Magnuson Act[viii]) frá 1976. Þar í landi eru aflakvótar ekki skilgreindir sem varanleg eign, heldur forréttindi sem veitast tímabundið og hægt er að framlengja eða afturkalla.[ix]

Ætlunin, samkvæmt skilgreiningu á framseljanlegum einstaklingskvótum, er að mynda vel útfærðan einkaeignarrétt í fiskveiðum og ýta undir hagkvæmni í veiðunum sem aftur gagnist viðkomandi auðlind til langs tíma.[x] Rannsakað hefur verið í Banda­ríkjunum hvort þetta fyrirkomulag kunni að brjóta gegn samkeppnislögum (antitrust law).

Spurningarnar, í skilningi samkeppnisréttar, er þá þær hvort hlutabréf (shares) í sjávarútvegi muni í viðskiptum enda í höndum fárra aðila sem þá ná einokunaraðstöðu og þar með brjóta gegn ákvæðum nefndra samkeppnislaga. Enn fremur hvernig verð myndast á sömu hlutabréfum.

Í því sambandi voru skoðuð ákvæði Sherman-laganna (The Sherman Antitrust Act[xi]), Clayton-laganna (the Clayton Act[xii]) og alríkislaga (Federal Trade Commission Act[xiii]). En þessi lög hafa öll að markmiði að verja neytendur gegn hegðun sem skaðar samkeppni. Rannsóknin leiddi í ljós að helstu hætturnar í tengslum við framseljanlega einstaklingskvóta, út frá samkeppnislögum, voru helst taldar einokun og verðsamráð (price fixing). Hætturnar þóttu hins vegar ekki yfirgnæfandi, ef gerðar væru viðeigandi ráðstafanir.[xiv] Margir Íslendingar minnast þess að "fiktað" hafi verið í gengi hlutabréfa (markaðsmisnotkun). Það var mjög tíðkað í hinu einkarekna bankakerfi fyrir hrun.

Í nýjum færeyskum lögum, og fjallað verður um hér á eftir, eru auðhringavarnir (antitrust) miðaðar við 20%. Þ.e.a.s. samþjöppun færeyskra veiðileyfa má ekki fara yfir það mark. En fyrir þrjár helstu veiðarnar: uppsjávarveiðar, innlendar botnfiskveiðar og botnfiskveiðar í erlendri lögsögu, er markið sett við 35%. Reglurnar eru ekki afturvirkar og inni­halda ekki útboðsleyfi til eins árs eða skemur.[xv]

            Þá hefur úthlutun aflaheimilda í Danmörku verið gagnrýnd, ekki síst vegna mik­illar samþjöppunar. Rætt er um "kvótakónga" í því sambandi. Þar í landi hefur verið ákveðið að grípa til ráðstafana vegna þessa. En danska ríkisendurskoðunin hefur gert fjölmargar athugasemdir við það hvernig staðið er að úthlutun aflaheimilda.[xvi]

Þjóðareign

Þegar áróðursmeistarar kvótakerfisins, á sviði hagfræði og lögfræði, reka áróður sinn, heima og erlendis, hafna þeir gjarnan hugtakinu þjóðareign (national ownership/national property).[xvii] Líkleg ástæða gæti verið sú að þeir telji þjóðareign hættulega nálægt því sem þeir skilgreina sem sósíalisma. En hann óttast þeir meira en nokkuð annað á okkar jarðríki. Einkaeignarréttur er talinn nánast af guðlegum toga. Hann er álitinn öðrum eignarrétti æðri og jafnvel ná yfir eignir sem þegar eru í þjóðar­eign.

Þannig er einkaeignarrétturinn trúarsetning þeirra sem fylgja Frjálshyggjukirkjunni að málum. En í hana safnast fólk sem á ekki samleið með öðru fólki. Það tilbiður að nafninu til "frelsi" en bara á sumum sviðum og ekki handa öllum, heldur þeim útvöldu, sem þótt hafa sýna einstakan dugnað og áræði við að ná til sín eignum þjóða í nafni "einkavæðingar". Kirkja þessi hefur fjölda presta og postula sem sjá um að breiða út "orðið" og miðla "orðinu" sem víðast. Á Íslandi má t.d. nefna fólk innan Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, hagfræðiprófessora, lögfræðiprófessora og aðra sem mögulega geta vettlingi valdið. Allt hefur þetta fólk svarið Frjálshyggjukirkjunni dýran eið.

[Prestur Frjálshyggjukirkjunnar]

Hólmsteinsfræðin henta best,

ef heildarkvóta þjöppum.

Í frjálsri kirkju fundu prest,

á fúnum gæsalöppum.

En þá aftur að þjóðareigninni. Enda þótt hugtakið þjóðareign hafi ekki verið áberandi í umfjöllun sumra, og aðrir afneitað gildi þess, hefur rétturinn sem það felur í sér lengi verið til staðar. Þessu má líkja við lög sem sett eru til þess að festa í sessi rétt sem helgast af hefð.

Þekkt er kenning John Locke um myndun eignarréttar (einkaeignarréttar[xviii]). Hann gekk út frá því að hver maður ætti sjálfan sig og þar með vinnu sína. Þá forsendu þarf enginn að samþykkja, enda nær lagi að hver maður hafi "sjálfan sig að láni" og sé í sameign allra. Það er líka á engan hátt ósamrýmanlegt mannréttindum. En með því að blanda vinnu sinni við "almenning" (auðlind "án eignarhalds") taldi Locke að menn mynduðu sér eignarrétt í viðkomandi "almenningi". Locke "endurbætti" síðan kenninguna með hinum kunna "fyrirvara" (Locke's provision) þar sem augljóst mátti vera að þegar margir einstaklingar nýta sömu auðlindina minnkar það sem eftir er til skiptanna handa öðrum.

Með öðrum orðum, kenningin gengur ekki vel upp. Það er mun rökréttara að í stað einkaeignarréttar myndist þjóðareign á sömu auðlind, þar sem sama þjóð hefur nýtt hana, mikið eða lítið, í gegnum aldirnar. Þá þarf engan "fyrirvara" - auðlindin er þjóðar­eign - frá fornu fari.

Þar með er heldur ekkert rými fyrir einkaeignarrétt[xix] á sömu auðlind - rétt sem þar að auki kemur til mun síðar - eins og margir telja. En samkvæmt speki sumra hag­fræðinga má rekja upphaf einkaeignarinnar til vinnu einstaklinga. Hins vegar sýna rann­sóknir innan þjóðfræðilegrar félagsfræði (Ethnographic sociology) þvert á móti fram á það, að einkaeign, af hvaða tagi sem er, á uppruna sinn í ofbeldi og valdaráni.[xx] Sam­eignarréttur er þannig að öllum líkindum hið "upprunalega eignarform". Einkaeignarrétturinn[xxi] kemur til síðar (löngu síðar) þegar græðgin tekur öll völd og menn fara að ásælast eignir almennings, sjálfum sér til handa.[xxii]

Íslendingur fyrr á öldum, sem réri til fiskjar, styrkti um leið þjóðareignina á miðum við Ísland. Hann myndaði engan eignarrétt í krafti eigin persónu. Þegar sýnt verður fram á að ákveðin auðlind hafi aldrei verið nýtt af neinum er fyrst hægt að tala um "almenning" í þeim skilningi að "enginn eigi" auðlindina. En hafi hún verið nýtt, meira eða minna, af sömu þjóðinni, er hún undir þjóðareign. Hins vegar hentar margs konar "einkaránsfólki" vel að stilla hlutum upp þannig að "enginn hafi átt neitt", enda þá auðveldara að réttlæta tilkomu einkaeignarréttarins í kjölfarið. Um það snýst málið.

Í ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1803 frá 1962, um varanlegt fullveldi ríkja yfir eigin náttúruauðlindum, segir m.a. "Rétti fólks og ríkja til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðlindum sínum og auðlindum verður að beita í þágu þjóðarbúsins og velferðar fólks í viðkomandi ríki."[xxiii]

Undir lok ályktunarinnar segir: "Brot á rétti fólks og ríkja til fullveldis yfir náttúruauðlindum sínum og auðlindum er í bága við anda og reglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna [UN Charter] og hindrar þróun alþjóðlegs samstarfs og varðveislu friðar."[xxiv]

Þá vaknar sú spurning hvort íslenska kvótakerfið uppfylli nefnd skilyrði. Svarið er nei. Það gerir það að sjálfsögðu ekki. Enda hannað fyrst og fremst til þess að þjóna allt öðrum hagsmunum en hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er sérhagsmunakerfi, kerfi sem veitir langstærstum hluta auðsins framhjá þjóðinni og í vasa braskara og hlut­hafa útgerðarfyrirtækjanna. Þannig er það. Alþingi er ofurselt kerfinu og þorir ekki að taka á vandanum. Kerfið stjórnar Alþingi en ekki öfugt.

Hugtakið þjóðareign[xxv] hefur verið skilgreint þannig að það vísi til eignar þjóðar, undir umsjá ríkisins sem ekki verður seld. Hversu óljóst sem ýmsum áróðursmeisturum kanna að þykja hugtakið er hitt alveg ljóst að það útilokar einkaeignarrétt á sömu auð­lind eða náttúruperlu sem um ræðir. Auðlind í þjóðareign getur ekki á sama tíma verið undir einkaeignarrétti.

Hugtakið þjóðareign er skylt hugtakinu þjóðlenda og skilgreint er í lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. En þar er þjóðlenda skilgreind sem: "Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lög­aðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi." Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur hins vegar fram að það er í raun ríkið sem er eigandinn: "Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti."

En í þjóðlendumálum var fjölda einkaaðila gert að sanna eignarrétt sinn á jörð­um og landsvæðum með landamerkjabréfum og fleiru. Áratuga og aldalöng búseta skipti engu máli. Ef sú aðferðafræði væri lögð til grundvallar, er hætt við að mörgum útgerðarmanninum reyndist erfitt að sanna "eignarrétt" sinn á auðlindum sjávar. En því er á það minnt að sumir lagaprófessorar hafa haldið því fram að útgerðarmenn mynduðu sér eignarrétt á auðlindinni með tímanum. Ber að hafna slíkum kenningum með öllu, af ýmsum ástæðum, en sérstaklega þeirri að fyrir er aldagamall eignarréttur íslensku þjóðarinnar á sömu auðlindum. Það er algerlega fráleitt að yfir þann rétt verði valtað - óháð því hvað Alþingi kann að þóknast.

Auðlindanýting og almannaréttur

Þann 13. desember 2017 samþykkti færeyska þingið lög sem fela í sér miklar breytingar á fiskveiðistjórnun í Færeyjum. Tóku þau gildi 18. desember það sama ár. Samkvæmt nýju lögunum er skýrt kveðið á um það að allar sjávarauðlindir við Færeyjar eru eign færeysku þjóðarinnar.[xxvi] Slíkar auðlindir geta aldrei lotið einkaeignar­rétti, hvorki samkvæmt lögum né hefð. Þá geta veiðileyfi aldrei gengið kaupum og sölum beint á milli einkaaðila heldur verða að fara í gegnum opinber uppboð.[xxvii] Þarna er komin uppskrift að kerfi sem taka ber upp á Íslandi og Alþingi Íslendinga hefur ekki ráðið við að koma í framkvæmd, þrátt fyrir meirihlutavilja þjóðarinnar. Ekki vefst það fyrir Færeyingum að skilja hugtakið þjóðareign. Gætu íslenskir lagaprófessorar og fleiri einnig þar margt af Færeyingum lært.

Til að bæta aðgengi að sjávarútvegi miðast nýju lögin við réttindi fyrirtækja en ekki takmarkaðan fjölda leyfa, bundin við fjölda skipa, eins og í eldri lögum. Þetta felur í sér að allir geti fengið leyfi til veiða frá stjórnvöldum, hafi menn skip til umráða sem samþykkt er til veiða á færeysku hafsvæði.[xxviii]

Danska fiskveiðistjórnunarkerfið lýtur sameiginlegri stjórn Evrópusambands­ins (Common Fisheries Policy) og danskra stjórnvalda. Stýringar í Danska fiskveiðistjórnunarkerfinu samanstanda af ýmsum þáttum sem um margt þekkjast vel í öðrum fiskveiðistjórnunarkerfum. Skoðum þær betur:

 • l Inntaksstýringar:

 • l fiskveiðileyfi;

 • l fjöldi daga á sjó;

 • l Framleiðslustýringar (output control):

 • l leyfilegur heildarafli (TAC) sem samið er um í ESB kerfinu;

 • l framseljanlegur einstaklingskvóti (ITQ), til veiða á síld og makríl;

 • l kvótahlutdeild til einstakra skipa (má sameina fyrir hópa skipa).

 • l Tæknilegar ráðstafanir:

 • l fyrir fjölbreytt úrval tegunda, lágmarks löndunarstærð afla; í sumum tilfellum eru mörkin hærri en þau sem tilgreind eru í sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópu­sambandsins;

 • l eftir tegundum, lágmarksstærð möskva á botnvörpu (og danskri nót) og fyrir samsett net (þ.e. net, samsett úr hefðbundnu neti og tröllaneti) og hringnót;

 • l lokuð svæði;

 • l lokun eftir árstíðum; svo vernda megi fisk meðan á hrygningu og/eða flutningum stendur, en einnig að tryggja gæði afurða og endurspegla markaðsaðstæður;

 • l takmarkanir á stærð skipa og vélarafli;

 • l takmarkanir á notkun tiltekinna veiðarfæra á ákveðnum svæðum (s.s hringnót, og bjálkatrolli - beam trawl);

 • l ítarleg fyrirmæli um fylgihluti veiðarfæra eins og öryggispoka, hringband, útgangsop/skiljur; og,

 • l ítarleg fyrirmæli um stærð möskva á troll-endum (cod-ends) og fyrir gerð neta,[xxix] s.s. ferhyrnda möskva (T45) "spjöld" og snúna möskva (T90).[xxx]

Það er gömul saga og ný að mikil spilling fylgir oft úthlutunarkerfum, af hvaða tagi sem er. Eins og komið er fram, hefur danska fiskveiðistjórnunarkerfið sætt gagn­rýni. Framkvæmdastjóri Evrópudeildar alþjóðlegu samtakanna Oceana,[xxxi] Lasse Gustavsson, segir m.a.:

"Í Danmörku hefur meirihluta fiskveiðikvóta verið úthlutað til örfárra "kvóta­kónga" og almenningur hefur fulla ástæðu til þess að vera hneykslaður. Ríkisstjórnin og ráðherrar ættu að þjóna almenningi og sjálfbærum fiskveiðum og ekki skammtíma hags­munum fárra iðnvæddra útgerðarfyrirtækja."[xxxii] Sama staða er uppi í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar hefur samþjöppun (í nafni "hagræðingar" fyrir hina fáu) og byggðaeyðingarstefna ráðið ríkjum.

Í tímaritinu Vistfræði og samfélag (Ecology and Society) er grein frá 2015. Þar er sett fram afar áhugaverð gagnrýni á framseljanlega einstaklingskvóta (ITQ). Óhætt er að mæla með þessari merku grein[xxxiii] og hvetja sem flesta til þess að lesa hana vandlega. Eins og mörgum er kunnugt, var Ísland meðal allra fyrstu ríkja til þess að taka upp framseljanlega einstaklingskvóta. Það var mikil lögleysa sem helsta "markaðsflokki" Íslands, Sjálfstæðisflokknum, verður þó ekki kennt um (þótt hann standi dyggilega vörð um fyrirkomulagið nú) og verður hver að fá að eiga það sem hann á í þeim efnum.

En það er að sjálfsögðu ætíð lögleysa að taka eignir fólks og færa þær öðrum, afnotarétt af þeim eða hvað annað tengt, án þess svo mikið sem spyrja eigandann fyrst um leyfi. Alþingi er þar ekki undanskilið. Raunar er auðlindastuldur útbreitt vandamál, víða um heim. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar boðar hins vegar að þannig eigi það að vera - það komi almenningi best að láta ræna/arðræna sig.

En mikilvægi sameignarréttar (þjóðareignar) á náttúruauðlindum er í auknum mæli viðurkennt t.a.m. víða í þróunarlöndum.[xxxiv] Í nefndri grein (frá 2015) er m.a. á það bent á að fyrirbærið framseljanlegir einstaklingskvótar er tiltölulega nýtt af nálinni og af hagfræðilegum rótum runnið. En komið hefur í ljós að hagfræðin hefur ekki ævinlega verið í fullum tengslum við raunveruleikann, eins og dæmin sýndu vel fyrir og eftir síðasta fjármálahrun. Kenningum hagfræðinga sem aðhyllast, "einkavæðingu" óhefta einstaklingshyggju, og framseljanlega aflakvóta, ber því að taka með miklum fyrirvara. Þær eru fyrst og fremst áróður en ákaflega lítil vísindi.

Á Íslandi skortir enn ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum. Í stjórnarskrá Túnis, frá 2014, segir m.a. í 13. gr.: "Náttúruauðlindir eru eign túnísku þjóðarinnar og ríkið fer með fullveldi yfir þeim í umboði hennar." Svona ákvæði er líklegt til þess að takmarka mjög ágengni græðgis- og einkaránsfólks sem víða fer með ránshendi um heilu þjóðfélögin - stundum með aðstoð þjóðþinga!

           

[i]Björn Guðmundsson. (1944). Nokkur orð um selveiði á Íslandi fyrrum og nú. Náttúrufræðingurinn, 14(3.-4.), 149.

[ii]Sjá einnig: "Skiptar skoðanir á stjórnarfrumvarpi um samningsveð - Veðsetning kvóta útilokuð eða heimiluð í reynd?". Morgunblaðið, 13. desember 1996. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/304419/

[iii]http://kata.arnastofnun.is/kata?ord=47206&

[iv] https://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2005:128:0001:0014:EN:PDF

[v]Fiskistofa. http://www.fiskistofa.is/veidar/aflaheimildir/

[vi]Sjá einnig: England, J.R. (2012). Real Estate Investing In The Middle East: Foreign Ownership Restrictions In The GCC. Corporate Councel Business Journal,. Retrieved, from http://ccbjournal.com/articles/17520/real-estate-investing-middle-east-foreign-ownership-restrictions-gcc

[vii]Sullivan, J. M. (2000). Harvesting Cooperatives and U.S. Antitrust Law Recent Developments and Implications. IIFET,. Retrieved, from https://ir.library.oregonstate.edu/downloads/ks65hd308

[viii]Magnuson Act. 16 U.S. Code § 1851 - National standards for fishery conservation and management. https://www.law.cornell.edu/uscode/text/16/1851

[ix]H. Buck, E. (1995). Individual Transferable Quotas in Fishery Management. [online] Washington, DC: National Council for Science and the Environment. Retrieved, from: http://dlc.dlib.indiana.edu/dlc/bitstream/handle/10535/4515/fishery.pdf [Accessed 13 Jun. 2018].

[x]Milliken, W.J. (1994). Individual Transferable Fishing Quotas And Antitrust Law. Ocean and Coastal Law Journal, 1(1). Retrieved, from http://d igitalcommon s.mainelaw.maine.edu/ocl j

[xi] https://www.ftc.gov/tips-advice/competition-guidance/guide-antitrust-laws/antitrust-laws

[xii]https://www.ftc.gov/enforcement/statutes/clayton-act

[xiii] https://www.ftc.gov/enforcement/statutes/federal-trade-commission-act

[xiv]Milliken, W.J. supra.

[xv]The Faroese Parliament passes fisheries reform. (2018, January 3). The Government of The Faroe Island. Retrieved June 17, 2018, from http://www.government.fo/en/news/news/the-faroese-parliament-passes-fisheries-reform/

[xvi]  Sjá: Statsrevisorerne, Folketinget Christiansborg (2017). Rigsrevisionens beretning om kvotekoncentrationen i dansk fiskeri afgivet til Folketinget med Statsrevisorernes bemærkninger. [online] København: Statsrevisorerne. Available at: http://www.rigsrevisionen.dk/media/2104617/sr2216.pdf [Accessed 26 Jun. 2018].

[xvii]Sjá einnig: Water should be considered national property. http://debatepedia.idebate.org/en/index.php/Resolved:_Water_should_be_considered_national_property

[xviii]Sjá einnig: Alternative Models of Ownership. Report to the shadow chancellor of the exchequer and shadow secretary of state for business, energy and industrial strategy. https://labour.org.uk/wp-content/uploads/2017/10/Alternative-Models-of-Ownership.pdf

[xix]Sjá enn fremur: Bergel, P. Appropriation de l'espace et propriété du sol - L'apport du droit immobilier à une étude de géographie sociale. https://journals.openedition.org/norois/479

[xx]Letourneau, C. (1892). PROPERTY: ITS ORIGIN AND DEVELOPMENT. London: WALTER SCOTT, LTD, p.91.

[xxi]Sjá einnig: Woodin, T., Crook, D. and Carpentier, V. (2010). Community and mutual ownership - A historical review. [online] York: Joseph Rowntree Foundation. Available at: https://www.jrf.org.uk/sites/default/files/jrf/migrated/files/community-mutual-ownership-full.pdf [Accessed 13 Jun. 2018].

[xxii]Letourneau, C. supra, p. 285-286.

[xxiii]General Assembly resolution 1803 (XVII) of 14 December 1962, "Permanent sovereignty over natural resources". https://www.ohchr.org/EN/ProfessionalInterest/Pages/NaturalResources.aspx

[xxiv]Ibid.

[xxv]Sjá einnig: Heltberg, R. (2002). Property Rights and Natural Resource Management in Developing Countries. Journal of Economic Surveys, [online] 16(2), pp.189-214. Retrieved, from: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/pdf/10.1111/1467-6419.00164 [Accessed 13 Jun. 2018].

[xxvi]The Faroese Parliament passes fisheries reform. (2018, January 3). The Government of The Faroe Island. Retrieved June 17, 2018, from http://www.government.fo/en/news/news/the-faroese-parliament-passes-fisheries-reform/

[xxvii]Ibid.

[xxviii]Ibid.

[xxix]Sjá einnig: Arkley, K. (2001). Improving Selectivity in Towed Fishing Gears - Guidelines on the Rigging of Square Mesh Panels. [online] Hull: Gear Technology Department -Sea Fish Industry Authority. Available at: http://www.seafish.org/media/publications/guideline_rigging_square_mesh.pdf [Accessed 25 Jun. 2018].

[xxx]European Parliament. (2013). Directorate-General for internal policies - Policy department B: Structural and cohesion policies. Fisheries in Denmark. Retrieved, from http://www.europarl.europa.eu/RegData/etudes/etudes/join/2013/513972/IPOL-PECH_ET(2013)513972_EN.pdf

[xxxi]https://oceana.org/

[xxxii]Barrett, M. (2017, August 18). Danish government under fire in fisheries scandal. The Local. Retrieved June 26, 2018, from https://www.thelocal.dk/20170818/danish-government-under-fire-in-fisheries-scandal

[xxxiii]      Acheson, J., Apollonio, S., & Wilson, J. (2015). Individual transferable quotas and conservation: A critical assessment. Ecology and Society, 20(4). Retrieved June 26, 2018, from https://www.ecologyandsociety.org/vol20/iss4/art7/ES-2015-7912.pdf

[xxxiv]Aggarwal, S. and Elbow, K. (2006). The role of property rights in natural resource management, good governance and empowerment of the rural poor. USAID From The American People. [online] Available at: https://land-links.org/wp-content/uploads/2016/09/USAID_Land_Tenure_Property_Rights_and_NRM_Report.pdf [Accessed 27 Jun. 2018].

Fréttabréf