Fara í efni

ALMANNATENGSL OG STRÍÐIÐ GEGN LÍBÍU

Þann 17. febrúar 2011 gerðu skæruliðar í Líbíu árásir á vopnabúr ríkisins víða um landið og hófu um leið stríð sitt gegn ríkisstjórninni. Eftir að hafa barist í eina viku lýstu uppreisnarmennirnir yfir stofnun skuggaríkisstjórnar, sem bar nafnið „Bráðabirgðaþjóðarráðið“ (BBÞ) (enska: „Transitional National Council“), og hafði hún aðsetur í Benghaziborg, Al Bayda og Derna.

Er lögregla og her Líbíu hóf að svara fyrir sig sendi Alþjóðaglæpadómstóllinn (International Criminal Court) strax frá sér aðvörun til ríkisstjórnarinnar og Gaddafis um að hún hefði mögulega framið glæpi gegn mannkyni. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti umsvifalaust ályktun um að frysta eignir Gaddafis og tíu ráðgjafa hans, í raun án þess að kanna nokkuð hvort ásakanir sem voru að berast í gegnum samfélagsmiðla væru á rökum reistar. Í mars var gengið lengra og samþykktar ályktanir nr. 1970, sem bönnuðu vopnaflutning, og ályktun nr. 1973, sem áttu að gilda um flugferðabann (No-fly zone), en urðu skálkaskjól fyrir gríðarlegar loftárásir 17 erlendra herja ásamt stuðningi við hryðjuverkasamtök í landinu.

Með tímanum varð ljóst að upplýsingarnar sem notast var við þegar þessar ályktanir voru samþykktar voru ekki einungis rangar, heldur í mörgum tilfellum vísvitandi hannaðar af almannatengslasérfræðingum.

Almannatengsl í þágu skæruliða

Meðal allra fyrstu verka uppreisnarmanna var að fá til liðs við sig Luca M. Venturi, svissneskan sérfræðing í almannatengslum, til að sjá um áróðursstríð sitt. Venturi hafði langa reynslu í málefnum sem þessum. Hann var til dæmis sérstakur ráðgjafi Kuwait-stjórnar á meðan hernaðaraðgerðin Operation Desert Storm varði árin 1990 til 1991 og fékk hann það hlutverk að tala máli  Kuwaits á Vesturlöndum. Það ævintýri hans var einstaklega vel heppnað eins og frægt er orðið.

Þeir sem réðu Venturi til að sjá um áróðursstríðið var stofnunin „Democratic Libya Information Bureau“ (DLIB), sem var áróðursarmur samtakanna „Citizens for a Democratic Libya“. DLIB var strax með gríðarlega öfluga starfsemi og rak hún skrifstofur í Trípolí og Benghazi, en einnig víða um heim, s.s. í Genf, Lugano, Mílanó, Róm, London, Sao Paolo, Doha, Dubai og fleiri stöðum. Í umfjöllun Herberts A. Friedmans ofursta og sérfræðings í sálfræðihernaði fyrir Bandaríkjaher sagði: „Ég vissi að Gaddafi var nú í vondum málum“ vitandi að Venturi var kominn í málið. Venturi tjáði Friedman að fyrirtæki hans sendi efni sitt til alls 1289 einstakra blaðamanna, meðal annars starfandi á stórum dagblöðum á borð við Wall Street Journal, New York Times og jafnvel Drudge Report (Friedman, 2011).

Meðal fyrstu aðgerða Venturi var að senda myndir af uppreisnarmönnum í  hversdagslegum önnum til þess að sýna að þeir væru ekki íslamskir öfgamenn. Fljótlega fór svo af stað orðrómur þess efnis að Gaddafi notaðist við leiguliða sunnar úr Afríku sem beittu nauðgunum sem vopni. Þær sögur, þrátt fyrir að vera haugalygi, áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Eflaust átti Venturi þátt í þessum sögusögnum.

Nú gerðust hlutirnir hratt. Þann 21. febrúar fullyrti þáverandi varasendiherra Líbíu hjá Sameinuðu þjóðunum og liðhlaupi úr ríkisstjórninni að Gaddafi hefði í hyggju að stunda þjóðarmorð í Líbíu og krafðist þess að komið yrði á flugbannsvæði (No-fly zone) svo hægt væri að koma í veg fyrir vopnaflutninga til meintra málaliða Gaddafis og stöðva sókn stjórnarhersins. Tveim dögum síðar fór þáverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, fram með þá kröfu að Evrópusambandið setti af stað refsiaðgerðir gagnvart Gaddafi. Þann 28. febrúar stakk David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, upp á því að komið yrði á flugbannsvæði í þeim tilgangi að hindra Gaddafi í því að flytja leiguhermenn („airlifting mercenaries“) og að nota flugvélar „sínar“ og þyrlur til að ráðast á saklausa borgara. Daginn eftir, 1. mars, samþykkti Bandaríkjaþing einróma ályktun um að hvetja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að koma á flugbannsvæði og að krefjast afsagnar Gaddafis. Þann 10. mars 2011 viðurkenndi Frakkland hið svokallaða Bráðabirgðaþjóðarráð sem lögleg stjórnvöld Líbíu. Hinn 12. mars kröfðust níu af tuttugu og tveimur aðildarríkjum Arabaríkjaráðsins Sameinuðu þjóðirnar um að koma á flugbannsvæði yfir Líbíu til að vernda almenning frá flugárásum. Strax þann 19. mars hófu nokkur ríki sínar eigin flugárásir á Líbíu í krafti ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973. Sú ályktun var samþykkt að því er virðist á grundvelli fréttatilkynningar frá „Citizens for a Democratic Libya“. Sú tilkynning var svo hljóðandi:

Bráðabirgðaþjóðarráð Líbíu hafði samband við okkur frá Benghazi úr farsíma: „Venjulegar símalínur í Benghazi hafa verið rofnar. Hersveitir Gaddafis hafa komist inn til Ijdabiya og eru innan við 50 kílómetra frá Benghazi með skriðdreka og þungavopn.“

Við höfum fengið staðfestingu á því að stór hluti hersveita Gaddafis sé nú um 43 kílómetra frá Benghazi, á svæði sem ber nafnið Al-Maqroon.

Við áköllum alþjóðasamfélagið til að grípa TAFARLAUST inn í áður en fjöldamorð eiga sér stað í Benghazi, eftir það sem gerst hefur í Ijdabya (Agedabia) og Misurata, þar sem fjöldi látinna hleypur á þúsundum.

Dagurinn í dag er sá blóðugasti síðan byltingin hófst!

Yfirlýsing einræðisherrans um vopnahlé er helber lygi og fjöldamorð á saklausum borgurum í Líbíu á sér stað einmitt núna“.

Þann 20. mars opnuðu skæruliðasveitirnar í Líbíu sjónvarpsstöð í Katar sem bar nafnið „Libya“ (Burke, 2011). Þeir leituðu að „góðum Líbíumönnum“ sem hægt væri að taka viðtöl við og jafnvel senda erlendis í spjallþætti. Sjónvarpsstöðin fékk rífleg fjárframlög frá bönkum í Dubai og Abu Dhabi. Ritstjórnarstefna var ákveðin með ýmsum reglum. Til dæmis var samþykkt að kalla Gaddafi aldrei sínu rétta nafni, heldur fjalla um hann sem „einræðisherrann“.

Nú var hernaður Natóríkja hafinn að fullu gegn Líbíu. Flugherir 17 ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Noregs, Kanada, auk Katar og Sádí Arabíu, sendu ótal flugskeyta á Líbíu og sjóher Bretlands sá um hafnbann um landið. Nató tók formlega við stjórn yfir árásunum þann 24. mars. Reyndar var mikill hluti af „líbískum“ uppreisnarmönnum í raun erlendir hermenn. Þannig sendi Katar hundruð hermanna til Líbíu til að berjast með innlendum vígasveitum (Black, 2011).

Þá þegar hafði ályktunin um „flugbannsvæði“ verið útvíkkuð yfir í algjört árásarstríð, án þess að þing ríkjanna sem komu að hernaðinum tækju þá ákvörðun upp á nokkurn hátt. Ráðist var á Líbíuher alls staðar, bæði á landi, í lofti og á sjó. Þannig stærði Nató sig af því þann 19. apríl að hafa sprengt 11 skriðdreka eða brynvarða bíla og sama dag var ráðist að heimili Gaddafis í Trípólí. Þetta var ekki einungis brot á samþykkt Öryggisráðsins, heldur beinn stríðsglæpur, enda engin heimild fyrir því að taka opinberlega af lífi þjóðarleiðtoga án dóms og laga.

Árásirnar jukust dag frá degi. Á einum degi, 26. apríl voru gerðar 133 flugárásir víðs vegar um landið. Reynt var að eyða kerfisbundið öllum hervörnum landsins og um leið aðstoða skæruliða við að ná fótfestu um landið. Aldrei var minnst á  að þessir skæruliðar nutu lítils stuðnings í landinu.

Áróðursapparat skæruliða, undir handleiðslu Luca Venturi, sendi frá sér fjölda fréttatilkynninga og réðst á þá sem sagðir voru  ekki styðja loftárásir Nató nægilega. Þannig var send út  fréttatilkynning þann 6. apríl þar sem tyrknesk stjórnvöld voru sökuð um að hindra Nató-árásirnar þrátt fyrir það sem áróðursvélin kallaði fjöldamorð á almennum borgurum í Misrata og fleiri borgum. Vestrænir fjölmiðlar birtu efni fréttatilkynninganna möglunarlaust, að því er virðist án þess að  athuga hvort þær ættu við rök að styðjast.

25.maí gerði bandaríski olíurisinn Tesoro samning við hina svokölluðu bráðabirgðastjórn skæruliða um kaup á 1,2 milljónum tunna af hráolíu. Nú hafði hið 17 ríkja „alþjóðasamfélag“ (orðið alþjóðasamfélag gilti t.d. ekki um Afríkuríki, Kína, Indland, Suður Ameríkuríki o.s.frv., heldur um Nató og bandamenn þeirra, sem er athyglisvert í sjálfu sér) valið ríkisstjórn á eins ólýðræðislegan máta og mögulegt er.

Þann 1. júní voru 90 dagarnir sem samþykktir voru í Öryggisráðinu liðnir. Á þeim degi ákváðu forsvararmenn Nató sjálfir að framlengja herferðina um aðra 90 daga. Við tilefnið sagði þáverandi aðalritari Nató, Anders Fogh-Rasmussen, „Þessi ákvörðun sendir skýr skilaboð til harðstjórnar Gaddafi [Gaddafi regime]: Við erum staðföst að halda áfram aðgerðum sem miða að því að vernda íbúa Líbíu“.

Nú hófust gegndarlausar loftárásir á skotmörk víða um þetta rúmlega 6 milljón manna land. En þrátt fyrir sprengiregnið tókst enn ekki að brjóta hinn smáa her Líbíu á bak aftur. Því kallaði Robert Gates varnarmálaráðherra Bandaríkjanna eftir því að þær Natóþjóðir sem höfðu neitað að taka þátt í árásunum, t.d. Þýskaland, Spánn, Tyrkland, Pólland og Holland, sendu sínar flugvélar á vettvang. Hann kvartaði sáran undan því hversu illa gengi. Í ræðu sem hann hélt 10. júní sagði hann: „Öflugasta hernaðarbandalag sögunnar hefur einungis verið í 11 vikna hernaði gegn illa vopnaðri stjórn í fámennu landi. Þrátt fyrir það eru margir samherjar við það að hafa tæmt vopnabirgðir sínar og reiða sig enn og aftur á Bandaríkin í þeim efnum“(Traynor, 10. Júní 2018).

Fáir virtust spyrja sig þeirrar spurningar, hvers vegna gengi svo illa að brjóta á bak aftur þessa litlu þjóð ef ríkisstjórn Líbíu væri  eins óvinsæl heima fyrir og af er látið. Ef þeirri spurningu hefði verið varpað fram af alvöru hefði líklega mörgum komið á óvart hvernig almannaálitið var í raun.

Það er erfitt að meta með fullri vissu hverjir almennir Líbíumenn vildu hafa við stjórnvölinn sumarið 2011. Þeirri spurningu var sjaldan varpað í fjölmiðlum okkar, en svo virðist sem að gert hafi verið ráð fyrir því að almenningur í Líbíu styddi uppreisnarmenn. Sagan var jú sú að almenningur hefði risið upp gegn ógnarstjórninni og það sem væri að gerast í Líbíu væri alþýðuuppreisn. En í einu skoðanakönnuninni sem gerð var af erlendum aðilum í höfuðborginni Trípólí kom annað á daginn. Þann 16. Ágúst 2011 birtist grein eftir Scott Taylor í Halifax Chronicle Herald sem bar heitið „Gadhafi support soars amid Nato bombings“ (Taylor, 2011). Í greininni segir: „Alþjóðlegir diplómatar sem eru enn í Trípólí greindu frá því að frá því að NATO hóf loftárásir sínar hefur stuðningur við Gaddafi í raun stóraukist upp í um 85 prósent. Af 2335 ættbálkum Líbíu heita enn um 2000 þeirra hollustu við hinn umdeilda forseta. Sem stendur er það eldsneytisskortur sem er kominn vegna viðskiptaþvingananna og rafmagnsleysi vegna NATO-árása sem veldur Líbíumönnum mestum óþægindum á svæðum sem eru undir stjórn Gaddafis. Hins vegar kennir fólk enn NATO um þetta – ekki Gaddafi. Til að sporna við þessu og til að hvetja til uppreisnar alþýðunnar hafa NATO flugvélar nú tekið til við að varpa dreifibréfum yfir götur Trípólí“ (Taylor, 2016).

Hægt væri að færa þau rök að þessi stuðningur, 85%, við Gaddafi væri ekki eðlilegur, fólkið væri hrætt við hann og þyrði ekki að segja annað, eða að stuðningurinn væri auðvitað mestur í vesturhluta landsins o.s.frv. En hvers vegna ekki að taka af allan vafa? Það er ljóst að hvorki NATO, né bandamenn þeirra hjá Sádí Arabíu, Katar og öðrum konungsríkjum við Persaflóa, höfðu ekki áhuga á að kynna sér hver sannleikurinn væri. Stjórn Líbíu bauð vopnahlé og kosningar undir alþjóðlegu eftirliti strax í byrjun mars 2011, svo aftur 16. Maí, í júní og loks ágúst. Í hvert skipti voru þau tilboð einfaldlega hundsuð. Þegar vígasveitir höfðu loks náð völdum og myrt svo gott sem alla meðlimi ríkisstjórnarinnar voru haldnar það sem kallað var á vesturlöndum „fyrstu frjálsu kosningar“ Líbíu, nokkuð sem er helber lygi, með þá takmörkun að enginn sem styddi grænu byltinguna (Jamahiriya) mættu bjóða sig fram. Þær kosningar voru sannarlega ekki frjálsa, og almenningur hafði þá virkilega ástæðu til að óttast að velja rangt, enda gengu þá morðsveitir um götur borganna.

Enginn virtist spyrja hverjir þessir skæruliðar sem Nató var að vernda voru, enda hefðu fáir haldið áfram stuðningi sínum ef þeir hefðu gert  sér grein fyrir því hverjir fóru þar fremst í flokki. Stærstu uppreisnarhóparnir voru meðlimir samtaka á borð við Libian Islamic Fighting Group sem má líta á sem forvera ISIS. Þetta voru harðsvíraðir vígamenn sem börðust fyrir innleiðingu íslamsks ríkis í Líbíu, en þessir hópar áttu einmitt eftir að stjórna landinu í raun..

Í júní hófust árásir með herþyrlum. Nató hafði ekki viljað nota þyrlur fyrr því óttast var að ef Líbíuher næði að skjóta niður þyrlu og handsama flugmennina væri hægt að nota  þann gjörning í áróðursskyni. Natóherir höfðu sallað niður hermenn Líbíu í þrjá mánuði og nú þótti óhætt  að taka þessa áhættu. Stjórnmálamenn á borð við William Hague frá Bretlandi og John McCain frá Bandaríkjunum ferðuðust nú til Líbíu til að stappa stálinu í skæruliða.

Áróðursherferðin var farin að taka á sig æ furðulegri blæ. Gróusögur bárust alla leið til aðal saksóknara Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag um að Gaddafi keypti Viagra í stórum stíl fyrir hermenn sína svo að þeir ættu hægara með að stunda fjöldanauðganir. Þrátt fyrir að enginn fótur væri fyrir þessum sögum dreifðust þær um fjölmiðla á Vesturlöndum. Um leið og slíkar gróusögur fengu byr undir báða vængi á síðum dagblaðanna þurfti að grafa með skeið eftir fréttum um stórfellda og hrikalega glæpi skæruliða og Natóflugvéla gegn almenningi í landinu. Tilefnislausar sprengiárásir Nató á íbúðahverfi, spítala og opinberar stofnanir, auk mikilvægra innviða samfélagsins á borð við vatnsveitukerfið (en Natóflugvélar eyðilögðu til dæmis hið mikla manngerða fljót sem tengdi vatnsból landsins við afskekktustu sveitir í eyðimörkinni), pyntingar og fjöldamorð skæruliða á saklausum borgurum, stórfelldar þjóðernishreinsanir gegn hörundsdökku fólki (t.d. var bærinn Tawergha, þar sem bjuggu um 40 þúsund hörundsdökkir Líbýumenn, algjörlega tæmdur) og opinberar aftökur voru einfaldlega ekki með í fréttaumfjölluninni.

Eftir 6 vikna umsátur um Sirte, heimabæ Gaddafis, þar sem bærinn var lagður algjörlega í rúst af skæruliðum auk 418 loftárása Nató, náðist loks fréttaskotið sem virðist hafa verið beðið eftir. Franskar flugvélar löskuðu bílalest Gaddafis er hann reyndi að flýja í eyðimörkina frá bænum þar sem íbúar sem höfðu reynt að vernda hann lágu dauðir í vatnsfylltum götum borgarinnar svo að skæruliðar næðu honum. Fjölmiðlar víluðu ekki fyrir sér að sýna frá því er Gaddafi var nauðgað í endaþarm með hnífi áður en hann var pyntaður og smáður og loks dreginn eftir götum heimabæjar síns.
Al Kaída, og síðar ISIS, fékk yfirráð yfir bænum og lík Gaddafis var haft til sýnis í frystigeymslu í bænum Misrata. Eftir þetta hættu fjölmiðlar að fjalla um Líbýu, einnig þegar skæruliðar og Nató krömdu síðasta stóra bæinn til hlýðni, Bani Walid, sem hélt uppi andspyrnu við skæruliðana löngu eftir að Gaddafi var allur.

Fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á Líbýu meir. Botn Miðjarðarhafsins er nú þakinn líkum fólks sem hefur reynt að flýja hina hryllilegu ógnarstjórn sem ríkt hefur frá 2011 í Líbýu. Þrælahaldi hefur aftur verið komið á og fleiri hafa verið myrtir frá lokum ársins 2011 heldur en öll árin frá árinu 1969 samanlagt, þar með talið á meðan á stríðinu stóð.

Það var ekki fyrr en 2015 að bandarískir leyniþjónustumenn viðurkenndu í ítarlegri greiningu Washington Times að allar forsendur fyrir stríðinu gegn Líbíu hefðu verið rangar. Leyniþjónustur hersins og ríkisins í Bandaríkjunum höfðu engar sannanir fyrir því að forsendur ályktana Öryggisráðsins nr. 1970 og 1973 væru sannar, enda voru þær það ekki. „Ég fékk aldrei nokkrar sannanir fyrir því að nokkrar aðgerðir væru yfirvofandi sem gætu kallast blóðbað… ég sá ekkert varðandi herflutninga, ekkert varðandi ógnanir frá ríkisstjórn [Líbíu] eða neinar aðgerðir“, sagði Alan Kuperman, prófessor í opinberri stefnumótun hjá háskólanum í Texas, en hann framkvæmdi ítarlega rannsókn á tilurð árásarstríðsins gegn Líbíu. Rannsóknir hans sýndu í raun að yfirlýsingar um að fjöldamorð eða jafnvel þjóðarmorð væru í aðsigi í byrjun mars 2011 voru ekki studdar með nokkrum raunverulegum gögnum. Yfirlýsingar Gaddafis voru teknar úr samhengi og ósannaðar, og reyndar upplognar, yfirlýsingar ónafngreindra manna voru teknar sem sannanir (Riddel og Shapiro, 2015).

Sama niðurstaða fékkst í sérstakri þingrannsókn á ákvörðunartöku ríkisstjórnar Noregs gagnvart Líbíu, en Norðmenn stærðu sig af því að hafa gert rúmlega 600 loftárásir á landið árið 2011. Rannsóknin sýndi ekki einungis að forsendur þeirrar ákvörðunar hefðu verið rangar og byggðar á blekkingum, heldur kom í ljós að þeir ráðamenn sem tóku þessar örlagaríku ákvarðanir vissu ekkert um Líbíu og sýndu engin merki um að þeir hefðu gert það. Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra og núverandi yfirmaður Nató, virðist hafa haft það í huga að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjaforseta og ná frekari pólitískum frama. Utanríkisráðherrann þáverandi, Jonas Gahr Støre, fyrirskipaði þátttöku Noregs í gegnum síma án þess að taka sér svo mikið sem dagsstund til íhugunar. Rannsóknarskýrslan er sláandi lesning þar sem meðal annars er greint frá stríðsglæpum norska flughersins og brotum á alþjóðalögum í krafti villandi upplýsinga (Petersen, 2018). En vegna lítils áhuga fjölmiðla hefur almenningur ekki fengið að vita um skýrslur sem þessar.

Heiðarlegir fjölmiðlamenn myndu ekki einungis biðjast afsökunar, heldur reyna að breyta rétt og segja rétt frá eftir allt sem í ljós hefur komið. En það er greinilegt að erfitt er að finna heiðarlega fréttamenn nú á dögum.

 Heimildir

Black, I. (26. október 2011). Qatar admits sending hundreds of troops to support Libya rebels. The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/world/2011/oct/26/qatar-troops-libya-rebels-support

Burke, J. (30. mars 2011). Libyan opposition set to launch TV channel from Qatar. The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/world/2011/mar/30/libya-opposition-television-channel-qatar

Friedman, H. A. (2011). Libya psyop – 2011. Psywarrior. Aðgengilegt á http://www.psywarrior.com/LibyaPsyop.html.

Petersen, J. [stjórnandi „Libya-utvalget“]. Evaluering av norsk deltakelse i Libya-operasjonene i 2011: Rapport fra Libya-utvalget. Statsministerens Kontor, Noregi. Sótt af https://www.regjeringen.no/globalassets/departementene/fd/dokumenter/rapporter-og-regelverk/libya-rapporten.pdf

Riddel, K. og Shapiro, J. (29. janúar 2015). Hillary Clinton‘s WMD moments: U.S. intelligence saw false narrative in Libya. Washington: The Times. Sótt af https://www.washingtontimes.com/news/2015/jan/29/hillary-clinton-libya-war-genocide-narrative-rejec/

Taylor, S. (16. ágúst 2011). Gadhafi support soars amid Nato bombing. Halifax Chronicle Herald.

Traynor, I. (10. Júní 2011). US defence chief blasts Europe over NATO. The Guardian.