Kári skrifar: ÁHRIF EVRÓPURÉTTAR Á RÉTT EINSTAKRA AÐILDARRÍKJA ESB

Eins og áður hefur komið fram, gengur Evrópuréttur framar rétti einstakra aðildarríkja ESB komi til árekstra þar á milli (sbr. Supremacy of EU Law[i]). Upphaf þess má rekja til til dóms Evrópudómstólsins frá árinu 1964, í málinu C-6/64 Costa gegn ENEL. Í dóminum segir m.a. (para 3) „...EBE-sáttmálinn [EEC Treaty] hefur myndað sitt eigið réttarkerfi, sem með gildistöku sáttmálans varð órjúfanlegur þáttur réttarkerfa aðildarríkjanna og dómstólum þeirra er skylt að framfylgja.“[ii]

            Síðan segir: „Færslu ríkjanna, frá innlendum réttarkerfum til réttarkerfis sambandsins [EBE], á réttindum og skyldum sem myndast í krafti sáttmálans, fylgir varanleg takmörkun á fullveldisréttindum þeirra.“[iii] Þ.e.a.s. þetta verður túlkað þannig að um varanlegt fullveldisafsal ríkjanna sé að ræða, hvað snertir ákveðin réttindi og skyldur sem felast í sáttmálanum [Rómarsáttmálanum].

            Þeirri túlkun hefur verið fylgt æ síðan. Það er ástæða þess að fyrirvara sem einstök ríki kunna að vilja setja við innleiðingar tilskipana [sbr. orkupakka 3] þarf að fá samþykkta á réttum vettvangi. Í tilfelli Íslands hjá hinni sameiginlegu EES-nefnd. Það er hinn lögformlegi vettvangur innan EFTA. Ríkin geta þannig ekki sett einhliða fyrirvara við innleiðingar tilskipana. Slíkir fyrirvarar hafa ekkert lagalegt gildi.

            Í máli nr. 106/77 Simmenthal II[iv]  er forgangur Evrópuréttar staðfestur frekar og „bein virkni“ hans (direct applicability). En það á t.a.m. við um reglugerðir ESB, þær fá lagagildi samtímis í öllum aðildarríkjum, án sérstakrar innleiðingar.

            Í máli nr. 92/78, Simmenthal gegn framkvæmdastjórninni,[v] komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að dómstólum aðildarríkja bæri að víkja til hliðar lögum sem stönguðust á við Evrópurétt, hvort heldur þau lög væru sett á undan eða eftir viðkomandi Evrópurétti.

            Í málinu C-14/83 Von Colson and Kamann gegn Land Nordhein-westfalen var mótuð sú almenna skylda að veita Evrópureglum réttaráhrif og túlka landsrétt í samræmi við Evrópurétt.[vi] Samkvæmt málinu C-6 og 9/90 Francovich og Bonifaci gegn Lýðveldinu Ítalíu[vii] geta ríki bakað sér skaðabótaskyldu ef tilskipanir eru rangt innleiddar eða alls ekki. Enda verði fólk af rétti sem það annars hefði haft ef tilskipun væri innleidd/rétt innleidd.

            Almennt má segja, að reglan um forgang Evrópuréttar taki til almennra laga aðildarríkjanna en einnig til stjórnarskráa þeirra. Það merkir að ekki skiptir máli hvaða réttarheimild er um að ræða innan aðildarríkjanna – Evrópurétturinn tekur til þeirra allra. Þetta er staðfest í málinu C-399/11 Stefano Melloni gegn Ministerio Fiscal.[viii] Af dóminum er ljóst að Evrópuréttur stendur ofar stjórnarskrám aðildarríkjanna, þar með töldum mannréttindaákvæðum þeirra.[ix]

            Rætt er um að setja beri auðlindaákvæði í íslenska stjórnarskrá. Markmiðið er bæði mikilvægt og rétt. En af framansögðu er ljóst að slíkt ákvæði þarf að gera þannig úr garði að ekki skapist hætta á árekstri við Evrópurétt.

Undanþágur og stefna til framtíðar

            Mörg dæmi er um undanþágur ríkja frá innleiðingu reglna í Evrópurétti. Þar má. t.d. nefna undanþágur frá reglum um opinber innkaup (public procurement rules).[x]

            Hins vegar má segja að það hafi ólíkar afleiðingar að fá annars vegar undanþágu frá ákvæðum tilskipunar (eða jafnvel tilskipun í heild) og hins vegar því að hafna innleiðingu án þess að fara lögformlega leið sem í þessu tilviki er skrifuð í EES-samninginn.

            En í ljósi þess hvernig mál hafa þróast á umliðnum árum, þar sem Evrópusambandið hefur öðlast æ meira vald frá þjóðríkjunum, verður sú spurning sífellt áleitnari hvort ekki sé kominn tími til þess virkilega að hugsa þessi mál öll upp á nýtt. Sumir vilja „ganga alla leið“ - í Evrópusambandið. Það sýnist að mörgu leyti mun verri kostur nú en stundum áður. Fyrrum utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur rætt um „brennandi hús“ í því sambandi. Flestir kjósa að koma sér út úr „brennandi húsum“ en ekki verða þar eftir eða ganga inn í þau. Helsta, og líklega hvað þekktasta, undantekningin á þeirri reglu er húsfreyjan á Bergþórshvoli sem kaus frekar að vera hjá manni sínum, Njáli, og brenna inni, en að ganga út.

            Hvað viðskiptahliðina snertir þá snýst málið mjög um fríverslun og lækkun tolla (afnám tolla), þannig að ábatasamt sé að flytja út vörur og afurðir og fá þannig dýrmætan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Nú er það svo að Ísland er aðili að alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO).[xi] Það samstarf nær til 164 aðildarríkja[xii] eða mun fleiri ríkja en mynda Evrópusambandið nú (28 ríki). GATT[xiii] samstarfið (WTO) gengur út á gagnkvæmni[xiv] og tollalækkanir (fríverslun). Enn er ekki útséð um útgöngu Breta úr ESB en líklegt verður þó að teljast að Bretland[xv] hverfi úr sambandinu (með eða án samnings þar um). Ef samstarf á að byggjast á „hótunum“ og einhverju „duldu ofbeldi“ þá má velta fyrir sér hvort ekki sé þá einmitt um „ofbeldissamband“ að ræða. Er yfirleitt verjandi að lúta slíku?

            Eftirspurn[xvi] víða um heim fer sífellt vaxandi, eftir orku, eftir fiskafurðum,[xvii] eftir vatni; nánast öllu sem þarf til þess að reka þjóðfélög nútímans.[xviii]

Lýðræði eða „þingræði“?

            Ef marka má suma fjölmiðla hefur forseti Alþingis „hugleitt“ ýmsar „lausnir“ á meintu „málþófi“ [þ.e. lýðræðislegri umræðu N.B.!] Miðflokksþingmanna. Má fullyrða, að grípi hann til einhverra „örþrifaráða“ muni talsvert stór hluti þjóðarinnar (þvert á flokka) líta á það sem ofbeldi, enda vart annað hægt.

            Þingið er ekki í takti við meirihluta þjóðarinnar í málinu og allt gerræði til þess að stöðva umræðu verður því strax túlkað sem ofbeldi gegn málfrelsinu (sem er varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu!) og lýðræðinu. Menn ættu því að hugsa sig tvisvar um áður en þeir grípa til einhverra „örþrifaráða“. Margir Íslendingar munu ekki taka því þegjandi. Umræðan á að sjálfsögðu að fá þann tíma sem ræðumenn telja nauðsynlegan. Eða telja menn einhver önnur mál brýnni, nú um stundir, en ræða framtíðar orkumál þjóðarinnar – hvernig þeim skuli háttað til langrar framtíðar? Hvað skýrir óðagotið? Er það stefna VG, þrýstingur fjárglæframanna, og/eða pólitískur þrýstingur Norðmanna?

            Í umræðum á eldhúsdeginum mátti greina talsverða nauðhyggju í sumum stuðningsmönnum þriðja orkupakkans. Frasar eins og þeir að „framtíðin verði ekki stöðvuð“. Það er rétt hjá hinu ástsæla skáldi, Davíð Stefánssyni, að „enginn stöðvar tímans þunga nið.“ En menn geta þó stjórnað því talsvert mikið hvernig hlutir þróast á þeim tíma sem er til umráða. Menn stöðva sannarlega ekki tímann,[xix] en hann felur í sér tækifæri, bæði til góðs og ills. Örugglega hafa fáir gert sér það betur ljóst en einmitt Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

[i]      Die Vorherrschaft des EU Rechts.

[ii]    Judgment of the Court of 15 July 1964. Flaminio Costa v E.N.E.L. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61964CJ0006

[iii]   Ibid.

[iv]    Mál 106/77 Amministrazione delle Finanze dello Stato v Simmenthal SpA. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61977CJ0106

[v]     Mál 92/78 SpA Simmenthal v Commission of the European Communities. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/GA/TXT/?uri=CELEX:61978CJ0092

[vi]    Mál 14/83 Sabine von Colson and Elisabeth Kamann v Land Nordrhein-Westfalen. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61983CJ0014

[vii]  Mál C-6/90 og C-9/90 Andrea Francovich and Danila Bonifaci and others v Italian Republic. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61990CJ0006

[viii] Mál C-399/11 Stefano Melloni v Ministerio Fiscal. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=CELEX%3A62011CJ0399

[ix]    Sjá einnig - para 59. „It is settled case-law that, by virtue of the principle of primacy of EU law, which is an essential feature of the EU legal order (see Opinion 1/91 [1991] ECR I-6079, paragraph 21, and Opinion 1/09 [2011] ECR I-1137, paragraph 65), rules of national law, even of a constitutional order, cannot be allowed to undermine the effectiveness of EU law on the territory of that State (see, to that effect, inter alia, Case 11/70 Internationale Handelsgesellschaft [1970] ECR 1125, paragraph 3, and Case C-409/06 Winner Wetten [2010] ECR I-8015, paragraph 61).“

[x]     European Commisson. https://ec.europa.eu/growth/single-market/public-procurement/rules-implementation/exempt-markets_en

[xi]    https://www.wto.org/

[xii]  https://www.wto.org/english/thewto_e/whatis_e/what_stand_for_e.htm

[xiii] Sjá t.d: Irwin, Douglas A. (2019). Free Trade Agreements and Customs Unions. [online] Econlib.org. Available at: http://www.econlib.org/library/Enc1/FreeTradeAgreementsandCustomsUnions.html [Accessed 30 May 2019].

[xiv]  Sbr. regluna um „Most favoured nation“ (MFN).

[xv]   Sjá einnig: Independent. https://www.independent.co.uk/news/business/analysis-and-features/world-trade-organisation-rules-mean-brexit-no-deal-tariffs-checks-a8752811.html

[xvi]  WATERBORNE. https://www.waterborne.eu/vision/trends-and-drivers/food-and-water-demand-and-supply/

[xvii] Ofveiði er þó víða vandamál: „Looking at the fishery industry, there is a growing concern for sustainability issues. These include overutilization of fishing grounds and declining fishing populations and the influence of large fishing vessels on the economic viability of local fishers in developing countries. The abundance and distribution of fish populations shifts because of climate change, decreasing fisheries outputs.“

       WATERBORNE. https://www.waterborne.eu/vision/trends-and-drivers/food-and-water-demand-and-supply/

[xviii]       Sjá enn fremur: Wong, E. (2018), Will the BRICS Union survive the next 10 years?

https://medium.com/@edwardwong_61578/will-the-brics-union-survive-the-next-10-years-258218962b74

[xix]  Skáldið Einar Benediktsson orðar þetta svo: „Eilífðin sjálf, hún er alein til. Vor eiginn tími er villa og draumur.“

Fréttabréf