Kári skrifar: BREYTINGAR Á ÍSLENSKUM LÖGUM VEGNA ORKUPAKKA 3

            Það er vísað til lagabreytinga á tvennum lögum, meðfylgjandi þessu ólánsmáli sem orkupakkinn er, þ.e. frumvarps til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og laga um Orkustofnun, nr. 87/2003. Í inngangi greinargerðar með frumvarpi til breytingar á raforkulögunum nr. 65/2003 segir m.a.:

            „Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með því er lagt til að við III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, verði bætt nýju ákvæði þess efnis að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“[i]

           Ég velti fyrir mér hvort sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson, forseti, hafi íhugað afleiðingar þessa fyrir íslenskan efnahag, raforkuverð og náttúruvernd. Það er sláandi að lítið sem ekkert heyrist í ýmsum forystumönnum náttúruverndar á Íslandi um þetta mál. En Alþýðusamband Íslands hefur gengið á undan með góðu fordæmi og lýst andstöðu við þriðja orkupakkann. Það var skorinorð og skynsamleg afstaða, enda fjarri því að launafólk á Íslandi komi til með að njóta þess í bættum kjörum að auðlindir landsins verði gerðar að fóðri fyrir braskara.[ii] Þvert á móti mun raforkuverð hækka upp úr öllu valdi.[iii] Það er reynslan í öðrum ríkjum, víða um heim.

            Annað er ljóst í mínum huga (aðrir kunna að vera því ósammála). Oft er rætt um það að eina aðkoma þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu sé í gengum 26. gr. stjórnarskrárinnar og synjun forseta á staðfestingu laga. Nú er ljóst að þingið hefur löggjafarvaldið. Ef vilji væri þar fyrir hendi sé ég ekkert, í fljótu bragði, því til fyrirstöðu að þingið setti sérstök lög um þjóðaratkvæðagreiðslu sem þá væri bindandi.

            Hvað á að útiloka það stjórnskipulega? Þingið væri þannig að vísa máli til þjóðarinnar, til bindandi ákvörðunar. Oft rætt um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu en að hún sýnist allt eins geta verið bindandi.

            Sigðurður Líndal og Þorsteinn Pálsson nefndu báðir þann möguleika, árið 2014, að þingmenn [þingið] gætu bundið sjálfa sig.[iv] Sigurður Líndal sagði um þetta: „Auðvitað getur Alþingi bundið sjálft sig með þingsályktun.[v] Þingið getur ákveðið það með þingsályktun að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, og þannig getur Alþingi bundið sjálft sig,“[vi]

            Hitt er svo pólitíska hlið málsins að þingið myndi mjög ógjarnan fara þessa leið. Er nú ekki vant því að virða vilja þjóðarinnar! En það er pólitískt vandamál, ekki lögfræðilegt. Þarna kristallast lýðræðisvandinn á Íslandi. Þjóðinni er treyst til þess að kjósa í alþingiskosningum en ekki til þess að taka ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þá vill Alþingi [eða „djúpríkið“?] ráða, þvert á vilja þjóðarinnar. Ef einhver sómi ríkti á Alþingi væri fyrir löngu búið að ákveða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu þriðja orkupakkans. Yfirgnæfandi líkur eru fyrir því að þjóðin myndi fella þennan vonda gerning. Hitt er og ljóst, að þar með væri komin fram breið samstaða um að innleiða ekki nefndan orkupakka sem aftur myndi styrkja mjög samsvarandi ákvörðun Alþingis. Þ.e.a.s. það væri mun erfiðara fyrir aðrar þjóðir, og erlent yfirvald, að gera við það athugasemdir þar sem niðurstaðan væri fengin í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki tekin einvörðungu innan þingsins. Ákvörðun þingsins (neitun) hefði þannig breiða skírskotun um allt þjóðfélagið. Versta mögulega niðurstaðan er sú að Alþingi innleiði orkupakkann [með haldlausum fyrirvörum] án beinnar leiðsagnar frá þjóðinni sjálfri. Skynsemin býður að þegar verði hafist handa við bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Spurningin hljóðist svo:

„Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt?“

[i]      Vefur Alþingis: https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/1253.pdf

[ii]    Sjá t.d.: O., Leith van. „How Privatisation Pushed-up Australia’s Electricity Costs.“ MacroBusiness, MACROBUSINESS, 28 July 2017, www.macrobusiness.com.au/2017/07/privatisation-pushed-australias-electricity-costs/.

[iii]   Sjá einnig.: “Electricity Prices Increase Due to Privatisation, Waste & 'Big Stick': TAI Report.” Energy Matters, 24 Jan. 2019, www.energymatters.com.au/renewable-news/electricity-prices-increase-privatised-sector/.

[iv]    Kjartan Atli Kjartansson. „Þingmenn Geta Bundið Sjálfa Sig.“ Vísir/Fréttablaðið, 5. Mars. 2014, www.visir.is/g/2014140309437

[v]     Svartletrun mín.

[vi]    Kjartan op. cit. 2014

Fréttabréf