Fara í efni

FÖLSK NEYTENDAVERND OG SÝNDARSAMKEPPNI - ORKUPAKKI 3

            Sumir þingmenn sem styðja þriðja orkupakkann telja felast í honum mikla „neytendavernd“ og „samkeppni“ sem muni gagnast neytendum. Þegar rætt er um „neytendavernd“ og „samkeppni“ þarf að byrja á byrjuninni. Hver er hún? Svarið felst í skoðun á grunnþáttum markaða, stærð markaða, skilvirkni markaða, teygni markaða og hegðun neytenda.

            Ísland er lokaður markaður þegar kemur að rafmagni og gjöfular náttúruauðlindir gert fært að framleiða tiltölulega vistvæna orku (að minnsta kosti miðað við kol, olíu og kjarnorku) þjóðinni til handa. Það, ásamt opinberu eignarhaldi á virkjunum og dreifikerfi, hefur tryggt íslenskum neytendum mjög hagstætt raforkuverð, til langs tíma.

            Augljóst er að séu málin skoðuð í samhengi við þróun orkuverðs í Evrópu er ekki að vænta lækkunar raforkuverðs á Íslandi, með tengingu við sameiginlegan orkumarkað Evrópu, heldur þvert á móti. Raforkuverðið mun að sjálfsögðu hækka, til samræmis við evrópskt verð. Allt tal um annað er bara blekkingarleikur þar sem þjóðinni er enn og aftur sagt ósatt. Skammarleg hegðun opinberra fulltrúa sem þar eiga hlut að máli.

Þróun raforkuverðs

            Samanburður á milli ríkja er nauðsynlegur svo greina megi þetta betur. Á mynd 1 má sjá samanburð á raforkuverði til heimilisnotenda í ýmsum Evrópuríkjum, á seinni árshelmingi 2018. Miðað er við að notkun liggi á bilinu 2.500 – 5.000 kílóvattstundir til á ári. Kílóvattstundin á Íslandi er þarna sögð 0.1457 evrur. Meðalverðið í Evrópusambandinu er hins vegar 0.2113 evrur og 0.2242 evrur á evrusvæðinu. Út frá þessu sést að kílóvattstundin í Evrópusambandinu (meðaltal) er um 45% hærri en á Íslandi.

            Það er verulegur munur, íslenskum almenningi og fyrirtækjum í hag. Kílóvattstundin er tæplega 54% hærri á evrusvæðinu. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við. Þetta er „neytendaverndin“ sem stuðningsmenn þriðja orkupakkans vilja færa þjóð sinni! Samræmingin verður að sjálfsögðu öll uppá við. Eða hvarflar það að einhverjum að kílóvattstundin í Evrópu muni lækka, til samræmis við raforkuverð á Íslandi? Verðið mun að sjálfsögðu ráðast af spákaupmennsku enda ætlunin með þriðja orkupakkanum að festa enn betur í sessi braskvæðingu orku.

            Eins og mynd 1 sýnir glögglega er raforkuverðið áberandi hátt í Danmörku, eða 0.3123 evrur á kílóvattstund. Það kemur þó ekki á óvart, enda ausa Danir ekki af allsnægtum orkulinda eins og Íslendingar hafa löngum gert.

Mynd 1

            Þingmenn Miðflokksins hafa borðið hitann og þungann af umræðunni um orkupakka 3 síðustu sólarhringana. Það er vel, að þingmenn fáist til að ræða málið! En það sýnir fádæma hroka og sambandsleysi við þjóðina að stuðningsmenn pakkans á þingi telja sér ekki skylt að taka þátt í þeirri umræðu en flytja áróður sinn frekar í blaðagreinum og frammíköllum.

            Það er þeim til lítils sóma. Sitjandi þingmaður á aldrei að telja sig of góðan til þess að ræða mál af fullri einurð og svara spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það er aldrei gagnrýnivert að menn vilji ræða málin og gegna þingskyldum sínum. Það er rétt sem komið hefur fram að málið er mjög vanreifað. Engin úttekt liggur fyrir á afleiðingum innleiðingar, t.d. til hækkunar raforkuverðs á Íslandi, stöðu Landsvirkjunar í bráð og lengd, efnahagsleg áhrif sæstrengs/strengja, áhrif á náttúru Íslands (virkjanaþrýsting) og fjölmargt annað.

            Rætt hefur verið um þrýsting sem stjórnvöld séu undir, að samþykkja orkupakka 3 enda verði allt EES samstarfið í uppnámi ef pakkinn verði ekki innleiddur. Þetta er vafalaust rétt. En þá ættu menn að hafa í huga almennar reglur sem víða gilda í samningarétti. Samningur sem gerður er undir þvingun/valdbeitingu (duress[i]) er ógildur (void). Það er ekkert eðlilegt við samninga þar sem samningsaðili (einn eða fleiri) er beittur hótunum eða þvingunum, standi hann ekki og hlýði eins og öðrum þóknast. Þá er orðið skammt í hreina nauðung.

            Tafla 2 sýnir meðalverð í evrum á kílóvattstund síðastliðin þrjú ár. Miðað er við síðari árshelming hvers árs svo leiðrétt sé fyrir árstíðabreytingum.

el.PNG
Tafla 2

Sýndarsamkeppni

            Samkeppni á Íslandi snýst fljótlega upp í fákeppni og jafnvel einokun. Um það eru fjöldamörg dæmi í sögunni. Má nefna matvörumarkað, tryggingastarfsemi, rekstur banka, eldsneyti (olía, bensín) flutningastarfsemi og fleira. Alveg sérstaklega er það slæmt fyrir neytendur þegar starfsemi sem að mestu, eða alveg, hefur verið á vegum hins opinbera er síðan einkavædd/markaðsvædd og færð undir einokun einkaaðila. En áróðurinn er allur á þann veg að það sé svo óskaplega óheilbrigt að þjónusta og rekstur sé á vegum hins opinbera. Minna er rætt um hitt, hvað gerist þegar búið er að einkaránsvæða sama rekstur. Almennt gerist þá tvennt:

1) verðið fyrir þjónustuna hækkar út fyrir allt velsæmi

2) þjónustan versnar, oft til mikilla muna

            Á Íslandi má helst nefna millilandaflug sem dæmi um hið gagnstæða. Þar eru nægjanlega mörg flugfélög sem keppa og bjóða sum hver hagstæð verð á grundvelli raunhæfrar samkeppni. Eftir að Ísland hefur tengst sameiginlegum orkumarkaði Evrópu, með sæstreng/sæstrengjum, munu reglur evrópsks samkeppnisréttar ráða, ásamt reglum innri markaðarins og reglum orkupakkanna (tilskipanir, reglugerðir).

            Evrópudómstóllinn hefur þróað próf til þess að skera úr um það hvort samkeppnishindranir séu til staðar. Prófið er að finna, m.a. í viðmiðunarreglum framkvæmdastjórnar[ii] ESB (para 23) frá árinu 2004. Tilgangur hugtaksins, „getur haft áhrif“, er að skilgreina eðli umræddra áhrifa á viðskipti milli aðildarríkja. Þar segir í lauslegri þýðingu: „Samkvæmt þessu staðlaða prófi Evrópudómstólsins, merkir hugtakið „getur haft áhrif“ [may affect] að mögulegt sé að sjá með nægum líkindum, á grundvelli hlutlægra lagalegra þátta eða staðreynda, að háttsemi hafi áhrif, bein eða óbein, á viðskipti milli aðildarríkja.“[iii] Rafmagn mun falla undir samkeppnisreglur Evrópuréttar eftir tengingu við innri orkumarkað ESB. En tölfræðin að framan sýnir vel að samkeppnin innan ESB hefur ekki tryggt lægra raforkuverð en á Íslandi. Það er því mjög vandséð hverju meint, aukin samkeppni á raforkumarkaði á að skila íslenskum neytendum! Talið um „neytendavernd“ og „samkeppni“ mun þannig ekki færa Íslendingum neitt sem þeir ekki hafa nú þegar á sviði orkuverðs. Það er einmitt þvert á móti: mun gera stöðuna mun verri, hækka verð, eins og verðsamanburðurinn sýnir best. Til hvers er þá barist?

[i]      The Free Dictionary. https://legal-dictionary.thefreedictionary.com/duress

[ii]    Commission Notice-Guidelines 2004. https://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2004:101:0081:0096:EN:PDF

[iii]   Sjá einnig [para 7]: Societe Technique Miniere v Maschinenbau Ulm GmbH (56/65) European Court of Justice, 30 June 1966. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/FR/TXT/?uri=CELEX%3A61965CJ0056