Kári skrifar: ORKUPAKKI 3 OG GREINING VILMUNDAR GYLFASONAR Á ÍSLENSKA VALDAKERFINU

            Fáir hafa greint íslenska valdakerfið betur en hugsjónamaðurinn og eldhuginn Vilmundur Gylfason. Enn er margt í fullu gildi sem hann sagði fyrir tæpum 40 árum síðan um það. Margt af því hljómar enn í hugskotinu enda í fullu samræmi við nútímann. Vilmundur Gylfason hélt eftirminnilega þrumuræðu á Alþingi þann 23. nóvember árið 1982. Þá lýsti hann valdakerfinu þannig að lengi verður í minnum haft.

            Þátturinn Vikulokin í morgun, á Rás eitt, er gott dæmi um það hvernig „varðhundar valdsins“ á Íslandi afbaka það sem raunverulega á sér stað og hamra á röngum fullyrðingum um stöðu valdsins. Í þættinum var mikið gert úr „málþófi“ á Alþingi vegna orkupakka 3 enda hefði þingið þegar sagt sitt álit, „þegar rætt málið“ og hvað væru þá „aðrir“ að „lengja umræðuna að óþörfu“. Málefnaleg umræða var engin, hvorki um gagnrýni á orkupakka 3 né lýðræðislegan vilja þjóðarinnar.

            Þetta er lýsandi viðhorf hjá sumu fjölmiðlafólki sem tilheyrir hjörð „varðhunda valdsins“ á Íslandi. En þessi sama afstaða hefur einnig verið augljós í ýmsum athugasemdum þingforseta (og varaforsetanna) undanfarið. Þeir hafa helst gert sér til dundurs að upplýsa hversu margar ræður þingmenn Miðflokksins hafa haldið um orkupakka 3. Þetta er liður í því sem Vilmundur nefndi að „að láta gagnrýni líta út sem gífuryrði og upphlaup.“ Þegar valdið hefur talað eiga aðrir ekki að bæta neinu við. „Málþóf“ er „valdsins orð“.

            Valdhrokinn skín allsstaðar í gegn, látið eins og umræða og sjónarmið sem „trufla valdið“ séu vandamál sem reynt sé að umbera og útheimti alla þolinmæði og „skilning“ sem hægt er að sýna. Enda vill valdið halda sinni stefnu án allrar „truflunar“ sem þessarar. Vilmundur ræddi spillinguna sem honum var hugleikin og sagði m.a.:

            „Háttvirtir alþingismenn eiga ekki að sitja í Kröflunefndum neins konar, ekki bankaráðum, ekki Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeir eiga ekki að sitja í útvarpsráði og ákveða hvaða varðhundur valdsins fær að tala um daginn og veginn[i] eða stjórna valdhlýðnum umræðuþáttum í sjónvarpi.[ii] Þetta lokaða valdakerfi verður brotið upp. Nú á rismikið fólk, allt fólk að fá sitt tækifæri. Nú skal bælingin í hinu niðurnjörvaða flokkavaldi vera á burt.“[iii] Fjölmiðlar, að undanskildum Morgunblaðinu og Útvarpi sögu, ræða ekki innihald orkupakka 3 né málefnalega gagnrýni á hann. Einungis er rætt um það hvaða afleiðingar „málþóf“ um hann hafi á stöðu valdsins á Íslandi og það hvort þingmenn komist tímanlega í sumarfrí. Margir þingmenn taka fullan þátt í þessu þótt þeir telji sér ekki skylt að mæta í málefnalega umræðu á Alþingi.

            Í byrjun síðasta árs bárust af því fréttir að stjórnvöld hyggðust ráðast í breytingar á stjórnarskrá Íslands.[iv] M.a. var rætt um auðlindaákvæði. Rétt er að hafa allan fyrirvara á útkomu þeirrar vinnu og má nefna að þingið hefur enn ekkert gert með útkomu úr þjóðaratkvæðagreiðslu, frá 2012, um breytingar á stjórnarskránni. Um stjórnarskrárbreytingar sagði Vilmundur í ræðunni frá 1982:

            „Síðan 1978 hefur setið stjórnarskrárnefnd undir forustu hæstvirts forsætisráðherra. Það að hann skuli enn sitja þar, þrátt fyrir sitt virðulega embætti nú, lýsir miklum metnaði en lítilli dómgreind.

            Nýlega hafa háttvirtir alþingismenn séð vinnugögn stjórnarskrárnefndar. Vinnan er lítils, jafnvel einskis virði. Það er umskrift á nokkrum gömlum greinum stjórnarskrárinnar.[v] Ekkert er komið um nútímaleg ákvæði eins og eignarréttarhugmyndir eða mannréttindi minnihlutahópa, ekkert um frelsi til tjáningar eða hagsmunasamtök. Og að því er kjördæmamálið sjálft varðar er nefndin í sömu sporum og hún var þegar hún byrjaði.

            Með örfáum virðulegum undantekningum sitja þarna varðhundar valdsins, varðhundar hins þrönga flokksræðis og hugsa um sjálfa sig og völd sín, völdin gegn fólkinu í landinu.[vi] Væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna hefur hins vegar flutt hér á Alþingi tillögur, sem ég veit að varla eiga enn mikinn hljómgrunn í þessu skelfilega húsi en ég er samt jafn sannfærður um að muni eiga fylgi að fagna út um hið víða og breiða land, ef tekst að brjótast fram hjá varðhundum valdsins og til fólksins sjálfs.“[vii]

            Það má spyrja, hefur valdakerfið eitthvað breyst? Er ekki inntakið í ræðu Vilmundar Gylfasonar enn í fullu gildi? Er ekki helsta breytingin sú að „varðhundar valdsins“ hafa endurnýjað sig en standa vörð um sömu gildi, sömu afstöðu og sömu skoðanir og áður?

            Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi á að hlusta eftir vilja þjóðarinnar og vísa málinu um innleiðingu þriðja orkupakkans til hennar, til bindandi ákvörðunar.„Varðhundar valdsins“ eiga ekki að hafa þann rétt af þjóðinni. Annað hvort verði málinu vísað til þjóðarinnar með sérstökum lögum um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu (um þetta tiltekna mál) eða með þingsályktun þar um. Þá sýndi Alþingi í verki hvert það sækir umboð sitt.

[„Valddruslur“]

Fjölmiðlanna færin lík,

frelsi orðsins plagar.

En pólitíkin veldur vík,

valdsins rógur nagar.

[i]      Þátturinn um daginn og veginn var á dagskrá RÚV um árabil. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=332246&pageId=5212484&lang=is&q=og%20%DE%E1tturinn%20um%20daginn%20og%20veginn

[ii]    Svartletrun mín.

[iii]   23.11.1982 Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing. 88. mál, vantraust á ríkisstjórnina.

[iv]    Fréttablaðið. 22. janúar 208. https://www.visir.is/g/2018180129710

[v]     Svartletrun mín.

[vi]    Svartletrun mín.

[vii]  23.11.1982 Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing. 88. mál, vantraust á ríkisstjórnina.

Fréttabréf