Kári skrifar: ÁRATUGA ÁHUGI INNAN LANDSVIRKJUNAR Á SÆSTRENG

            Þessi grein er einungis stutt úttekt á áhuga Landsvirkjunar á sæstreng til Bretlands (Skotlands) og meginlands Evrópu. Stutt athugun á ársskýrslum, í safni Landsvirkjunar, sýnir vel að áhugi á sæstreng til Evrópu hefur lengi verið til staðar hjá stofnuninni. Í safninu er að finna skýrslur frá árinu 2001-2018. Í skýrslu Landsvirkjunar frá 2003 segir m.a.:

            „Rætt var við nokkra nýja aðila um rafmagnssölu til nýrra verksmiðja á ýmsum stöðum á landinu. Lokið var við forathugun á lagningu sæstrengs milli Íslands og meginlands Evrópu sem unnið var að með Statoil og Statnett í Noregi.[i] Niðurstaða þeirrar athugunar var að hagkvæmni slíkrar tengingar er enn ekki nægjanleg til að ráðast í hana að óbreyttum aðstæðum. Landsvirkjun fylgist þó áfram með breytingum í markaðsmálum umhverfisvænna orkugjafa og tækniframförum í lagningu sæstrengja[ii] sem geta haft áhrif á hagkvæmni slíkrar framkvæmdar.“[iii]Næst er fjallað um málið í skýrslu frá árinu 2009:

            „Íslendingar eru í hópi örfárra þjóða sem hafa yfir að ráða hreinum endurnýjanlegum orkulindum sem sífellt verða eftirsóknarverðari og verðmætari. Þessa möguleika á að nýta til að sinna orkumarkaði og atvinnustarfsemi innanlands og hugsanlega einnig til útflutnings á raforku um sæstreng til Englands eða meginlands Evrópu.[iv] Margt bendir til að sá möguleiki geti reynst hagkvæmur, enda hefur raforkuverð í Evrópu hækkað mikið á undanförnum árum.“[v]

            Árið 2010 verður hins vegar mikil breyting á umræðunni um sæstrenginn. Þá er hann ekki lengur „áhugaverð hugmynd“, heldur sýnist mun meiri alvara liggja að baki. Um þetta segir t.a.m.:

            „Fjögur stór nýsköpunarverkefni eru nú í vinnslu innan Landsvirkjunar; sæstrengur til Evrópu,[vi] virkjun vindorku á Íslandi, djúpborun á háhitasvæðum og áhrif loftslagsbreytinga á raforkuvinnslu. Auk þess eru fjölbreyttar grunnrannsóknir stundaðar af Landsvirkjun sem varpað geta nýju ljósi á orkunýtingu í framtíðinni.“[vii]

            „Lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu myndi opna fyrir möguleika á sölu endurnýjanlegrar orku frá jarðgufu- og vatnsaflsvirkjunum Landsvirkjunar til Evrópu.          Rannsókn á lagningu sæstrengs hófst um mitt ár 2010 og mun henni ljúka í lok árs 2011. Rannsókninni er ætlað að meta kosti þess að leggja heimsins lengsta rafmagnssæstreng og nær hún til mögulegra rekstrarlíkana, markaða og álagsstjórnunar. Rannsakaður er út- og innflutningur á rafmagni á grunni verðmismunar á evrópskum og íslenskum markaði. Einnig er Landsvirkjun að rannsaka áhrifin á íslenskan raforkumarkað, framboðsöryggi í raforkukerfi Íslands og aðfangastjórnun á Íslandi, með áherslu á notkun vatnsafls.

            Stysta mögulega lengd strengs frá Íslandi á land í Evrópu er um 1200 km, meira en helmingi lengri en NorNed-sæstrengurinn (Noregur-Holland), og sæstrengur til meginlands Evrópu yrði um 1900 km. Flutningsgeta sem verið er að skoða er á milli 600 og 1000 MW. Verið er að skoða tengingu við Noreg, Bretlandseyjar, Þýskaland og Holland.

            Rætt hefur verið um sæstreng á milli Íslands og nágrannalandanna í áratugi. Búið er að framkvæma ýmsar rannsóknir sem allar hafa leitt til sömu niðurstöðu, að verkefnið sé tæknilega mögulegt en ekki hagkvæmt. Könnun í samvinnu við Landsnet sem lokið var árið 2010 gaf til kynna að þetta gæti hafa breyst og að sæstrengur kynni að vera hagkvæmur kostur. Meginástæða þessarar breyttu niðurstöðu er hærra orkuverð í Evrópu og aukin eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku með engri eða lítilli losun gróðurhúsalofttegunda.[viii]

            Áætlað er að önnur fjögur til fimm ár taki að kanna mismunandi kosti og tæknilega og rekstrarlega þætti sæstrengs. Ef og þegar ákvörðun er tekin tekur það fjögur til fimm ár í viðbót að framleiða og leggja strenginn, byggja spennustöðvar og vinna önnur tengd verk. Sæstrengur kæmist því í gagnið í fyrsta lagi árið 2020.“[ix] Áfram er rætt um lagningu sæstrengs í Ársskýrslu Landsvirkjunar frá árinu 2011:

            „Landsvirkjun hefur einnig undanfarið unnið að því að meta fýsileika þess að leggja rafstreng um sæ til Evrópu. Lagning slíks rafstrengs hefur í áratugi verið í skoðun á Íslandi og lengi vel verið talinn tæknilega mögulegur en nokkuð hefur vantað upp á að hann stæði undir sér fjárhagslega. Vísbendingar eru um að það hafi breyst á undanförnum árum. Aukin eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku, hækkandi raforkuverð í Evrópu og tækniframfarir hafa breytt forsendum fyrir lagningu rafstrengs frá Íslandi. Hér gæti verið um arðsamt og áhugavert framtíðarviðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun[x] og þar með Ísland að ræða. Mikilvægt er að svona stórt verkefni verði rætt opið og fordómalaust og að vandað verði til verka þannig að um ákvörðun hvort leggja skuli sæstreng eða ekki geti skapast breið sátt.“[xi]

            Þáverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar, Bryndís Hlöðversdóttir, segir m.a. í inngangi ársskýrslu fyrir árið 2012:

            „Norðmenn, sem hafa reynslu af orkuútflutningi, bæði með olíuvinnslu og um sæstreng til Evrópu, leggja nú drög að því að leggja fleiri sæstrengi til Evrópu[xii] þannig að hægt verði að flytja út verðmæta orku unna úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Hvatinn að þessari þróun er augljóslega efnahagslegur ávinningur, til hagsbóta fyrir framtíðarkynslóðir Norðmanna ekki síður en þá sem nú búa í landinu. Íslendingar vinna nú þegar langmesta raforku í Evrópu ef miðað er við íbúafjölda og hún er öll unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslendingar standa þannig mögulega frammi fyrir einstöku tækifæri í þessum efnum ef vel er haldið á málum.“[xiii]

            Þessi ummæli endurspegla mjög líklega stefnu Samfylkingarinnar í orkumálum Íslands og afstöðu hennar til þriðja orkupakkans. Forstjórinn, Hörður Arnarson, segir m.a. í sömu skýrslu frá 2012:

            „Annað og umfangsmeira rannsóknarverkefni sem Landsvirkjun vann að á árinu er að meta möguleikann á að selja orku um sæstreng til Evrópu[xiv] til viðbótar við uppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Að tengja hið lokaða raforkukerfi Íslands við evrópskan raforkumarkað gæti falið í sér einstakt viðskiptatækifæri fyrir Ísland. Landsvirkjun hefur lagt áherslu á að enn er um rannsóknarverkefni að ræða og ekki er komið að þeim tímapunkti að fyrirtækið geti lagt til að verkefnið verði að veruleika. Ein forsenda þess að ráðist verði í lagningu sæstrengs er að um verkefnið ríki breið samfélagsleg sátt og samstaða hagsmunaaðila.“[xv] Enn fremur segir:

            „Einnig var hafin kynning á möguleikum tengdum sæstreng gagnvart íslenskum og erlendum hagsmunaaðilum en frekari tengslamyndun, þróun og greining í því sambandi eru forgangsmál á árinu 2013.“[xvi]

            „Fyrri athuganir Landsvirkjunar hafa gefið til kynna að sæstrengur frá Íslandi sé tæknilega mögulegur og að líkindum einnig fjárhagslega hagkvæmur.[xvii] Á árinu var unnið ötullega að því að auka skilning fyrirtækisins á fjárhagslegum áhrifum mögulegs sæstrengs á Ísland og í því tilliti hefur Landsvirkjun tekið þá ákvörðun að einbeita sér að því að skoða sæstreng til Bretlands. Sæstrengsathuganir munu halda áfram næstu misseri og er lögð áhersla á að sannreyna þær forsendur sem fyrirtækið hefur notað hingað til, meðal annars með óformlegum viðræðum við aðila í Bretlandi.

            Þá ber að nefna að á vegum iðnaðarráðuneytisins er að störfum 15 manna ráðgjafahópur sem vinnur að því að meta almenn samfélagsleg, umhverfisleg og þjóðhagsleg áhrif sæstrengs á Ísland og áformar sá ráðgjafahópur að skila áfangaskýrslu til iðnaðarráðherra í maí 2013. Forsenda þess að ráðist verði í lagningu sæstrengs er að um verkefnið ríki breið samfélagsleg sátt og samstaða hagsmunaaðila.“[xviii] Þá segir í skýrslunni:

            „Tenging íslenska raforkukerfisins við það evrópska um sæstreng hefur lengi verið möguleg. Árið 1962 flutti Jakob Gíslason, þáverandi raforkumálastjóri, erindi á 50 ára afmælishátið Verkfræðingafélags Íslands þar sem hann sagði: „Nú orðið leikur enginn vafi á því, að tæknilega er framkvæmanlegt að flytja raforku frá Íslandi til Skotlands um sæstreng.“ Í sömu ræðu kom þó fram að líklega væri innflutt rafmagn frá Íslandi ekki samkeppnishæft við rafmagn unnið með kjarnorku eða jarðefnaeldsneyti. Allar athuganir sem gerðar hafa verið frá þeim tíma fram yfir síðustu aldamót bentu til sömu niðurstöðu. Nú bendir hinsvegar margt til að þetta hafi breyst og að slík tenging sé arðbær.“[xix] Enn fremur segir: „Ljóst er að fleiri aðilar, bæði innlendir og erlendir, munu þurfa að koma að sæstrengsverkefninu.[xx] Landsvirkjun tekur ekki ákvörðun um lagningu strengs og fyrirtækið mun að öllum líkindum ekki verða eigandi í strengnum.“[xxi]

            Áfram er rætt um lagningu sæstrengs í ársskýrslu Landsvirkjunar frá árinu 2013. Í skýrslunni er m.a. fjallað um það hvaðan raforkan á að koma:

            „Hluti útfluttrar raforku yrði til með bættri nýtingu á Íslandi en með tengingu yrði unnt að vinna meira rafmagn í núverandi vatnsaflsvirkjunum. Innrennsli í vatnslón íslenskra virkjana er mismikið eftir árum en langflest ár er innrennslið meira en þarf til að hægt sé að uppfylla orkusölusamninga. Í einangruðu orkukerfi fer slík ótrygg orka til spillis en með tengingu við stærri markað myndi hún nýtast að hluta. Þar að auki nýta íslenskir viðskiptavinir sjaldnast alla þá orku sem þeir eiga rétt á sem eykur enn á vannýtingu í íslenskri orkuvinnslu. Á þurrkatímum eða ef upp koma ófyrirséðir atburðir í raforkukerfi Íslands, væri hægt að minnka útflutning um sæstreng eða flytja inn tímabundið.

            Hluti orkuöflunar yrði með nýframkvæmdum og koma þar til greina hvort sem er verkefni á núverandi orkuvinnslusvæðum eða nýjum.  Nýframkvæmdir í vatnsafli, jarðvarma eða vindorku og eru háðar þeim ramma sem íslensk stjórnvöld setja orkuvinnslufyrirtækjum, t.d. með rammaáætlun.“[xxii]

            Þarna er ýmislegt verulega málum blandið. Það má vera ljóst að strengur (einn eða fleiri) sem hefur flutningsgetu upp á 1200 megavött, eins og rætt hefur verið um, verður ekki fóðraður nema að mjög litlu leyti með „umframorku“. Það þarf verulega mikið meira til svo „fjárfestingin borgi sig“ eins og gerð verður krafa um. Þá verður rammaáætlun ekki pappírsins virði eftir innleiðingu þriðja orkupakkans sem aftur þýðir að „markaðslögmálin“ ráða. Stjórnun þessara mála færist til „landsreglara“ og stofnana í Evrópu.

            Afleiðingarnar verða neikvæðar fyrir íslenskan almenning en fjárglæframenn, innanlands og utan, munu sópa til sín arði sem með réttu tilheyrir þjóðarbúinu. Það er athyglisvert að sumir þeir sem virðast hafa nokkuð heilbrigða sýn á virkjanamálin og náttúruvernd skortir tengingu við áhrif og afleiðingar þriðja orkupakkans. Telja hann bara „storm í vatnsglasi“. Vísa einna helst til þess að það standi ekkert um neikvæð áhrif hans í tilskipunum og reglugerðum. Sumt af þessu fólki virðist illa fært um að greina hvernig afleiðingar leiða af orsökum. Þarna gildir að sjá hvaða áhrif verða. Sumt er ekki skrifað beinum orðum í lagatexta heldur verður afleiðing af innleiðingu. Það er mikilvægt að sama fólk reyni að gera sér það ljóst.

            Í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2014 er enn rætt um lagningu sæstrengs. Þar segir m.a.: „Landsvirkjun hefur lengi haft til skoðunar tengingu íslenska raforkukerfisins við það evrópska um sæstreng. Vísbendingar eru um að raforkusala um sæstreng kunni að vera samkeppnishæf við erlenda raforkuvinnslu. Er það bæði komið til vegna breytts landslag [aths. landslags] á orkumörkuðum en einnig vegna tæknilegra framfara í lagningu sæstrengja. Slíkir strengir verða sífellt lengri og öflugri og eru í auknum mæli lagðir um dýpri og erfiðari hafsvæði.“[xxiii] Einnig kemur fram að „Athuganir gefa til kynna að raforkuviðskipti um sæstreng séu arðbær íslenskum raforkuvinnsluaðilum og á sama tíma hagkvæm raforkukaupendum í Evrópu.“[xxiv]

            Í ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 2015 er enn rætt um mögulega lagningu sæstrengs. Þar segir t.a.m.: „Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Landsnets og National Grid í Bretlandi um mögulegan sæstreng hélt áfram á árinu.“[xxv] „Vísbendingar eru um að raforkusala um sæstreng kunni að vera samkeppnishæf við erlenda raforkuvinnslu. Er það bæði komið til vegna breytts landslag á orkumörkuðum en einnig vegna tæknilegra framfara í lagningu sæstrengja. Slíkir strengir verða sífellt lengri og öflugri og eru í auknum mæli lagðir um dýpri og erfiðari hafsvæði.“[xxvi]

            Ekki verður séð að fjallað sé um lagningu sæstrengs í ársskýrslum Landsvirkjunar fyrir árin 2016, 2017 og 2018. Möguleg skýring gæti verið sú að þá þegar hafi verkefnið verið langt komið, tæknilega og hvað snertir fjármögnun, og því talið óþarft að ræða það lengur sem einhverja „framtíðarmúsík“. Ef marka má fréttir frá Englandi, nú í vor, er áætlun um lagningu sæstrengs langt komin og þegar til staðar. Ekki hefur þó íslenska þjóðin þó verið spurð álits á því. Eitt er að kanna hlutina, annað að framkvæma þá jafnóðum. Þriðja orkupakkanum er mjög sennilega ætlað að gulltryggja framkvæmdina.

            Ummæli forsætisráðherra um að hún telji málið „fullrætt“ eru alveg út í hött en má e.t.v. skýra í þessu ljósi, að embættismenn og stjórnmálamenn telji það einungis spurningu um tíma að „klára málið“ með innleiðingu þriðja orkupakkans. Sé það svo, er morgunljóst að stjórnmálamenn, og margir fjölmiðlar, hafa algerlega brugðist almenningi á Íslandi. Fjölmiðlar verða varla sóttir til ábyrgðar þótt þeir standi sig ekki í stykkinu um að upplýsa almenning. Öðru máli gegnir um stjórnmálamenn. Þeir eiga sannarlega að fá „rauða spjaldið“ fyrir það að leyna þjóðina því hvað raunverulega á sér stað og fyrir hitt að styðja málið beint – þ.e. áform um lagningu sæstrengs og innleiðingu þriðja orkupakkans, gegn íslenskum hagsmunum. Það á að verða sömu stjórnmálamönnum dýr lexía, hvar í flokki sem þeir standa.

[i]      Svartletrun mín.

[ii]    Svartletrun mín.

[iii]   Ársskýrsla Landsvirkjunar 2003. https://www.landsvirkjun.is/Media/LVArsskyrsla_2003.pdf

[iv]    Svartletrun mín.

[v]     Ársskýrsla Landsvirkjunar 2009. https://www.landsvirkjun.is/Media/LVArsskyrsla_2009.pdf

[vi]    Svartletrun mín.

[vii]  Ársskýrsla Landsvirkjunar 2010. https://www.landsvirkjun.is/Media/LVArsskyrsla_2010-2.pdf

[viii] Svartletrun og undirstrikun mín.

[ix]    Ársskýrsla 2010 op. cit.

[x]     Svartletrun og undirstrikun mín.

[xi]    Ársskýrsla Landsvirkjunar 2011. https://www.landsvirkjun.is/Media/LVArsskyrsla_2011-2.pdf

[xii]  Svartletrun mín.

[xiii] Ársskýrsla Landsvirkjunar 2012. http://media.landsvirkjun.is/media/PDF/LV_arsskyrsla2012.pdf

[xiv]  Svartletrun mín.

[xv]   Ársskýrsla 2012 op. cit.

[xvi]  Ibid.

[xvii] Svartletrun mín.

[xviii]       Ársskýrsla 2012 op. cit.

[xix]  Ibid.

[xx]   Svartletrun mín. Þetta merkir með öðrum orðum að fjárglæframenn munu „raða sér á garðann“ og þannig, í krafti þriðja orkupakkans, troða sér inn á íslenskan orkumarkað. Allt í nafni „markaðsvæðingar“. Niðurstaðan verður hins vegar okur og ránsvæðing.

[xxi]  Ársskýrsla 2012 op. cit.

[xxii] Ársskýrsla Landsvirkjunar 2013. https://arsskyrsla2013.landsvirkjun.is/rannsoknir-umhverfi-og-samfelag/rannsoknir-og-thrun

[xxiii]       Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014. https://arsskyrsla2014.landsvirkjun.is/aukin-eftirspurn-og-ny-taekifaeri/saestrengur

[xxiv]       Ibid. Svartletrun mín.

[xxv] Ársskýrsla Landsvirkjunar 2015. https://arsskyrsla2015.landsvirkjun.is/verkefni/saestrengur#Saestrengur

[xxvi]       Ibid.

Fréttabréf