Kári skrifar: FÁEINAR "STEYPUSLETTUR" HREINSAÐAR UPP - ÞRIÐJI ORKUPAKKINN

            Hér á eftir verða nokkrar „steypuslettur“ hreinsaðar upp og tengjast þriðja orkupakkanum. Fyrst má nefna grein eftir Ketil Sigurjónsson í Morgunblaðinu í dag, 9. ágúst. Það sem nauðsynlega þarfnast leiðréttingar þar er eftirfarandi:

            „Þetta kemur t.a.m. með skýrum hætti fram í Samningnum um starfshætti Evrópusambandsins (Treaty on the functioning of the European Union; TFEU). Í þessu sambandi má vísa í 194. gr. umrædds samnings, þar sem segir að skipan orkumála hvers aðildarríkis sé í þess höndum.“[i] Þarna vísar Ketill til 194. gr. TFEU sem fjallar um orku. Það er rétt að 2. mgr. 194. gr. kveður á um rétt aðildarríkjanna hvað varðar eigin orkumál. Hér þarf hins vegar að greina á milli þess sem annars vegar kallast í Evrópurétti „exclusive competences“ og hins vegar „shared competences“. Það var þannig að aðildarríkin höfðu orkumálin algerlega á sínu valdi. Það á hins vegar ekki við lengur.

Orkumálin ekki lengur einvörðungu á forræði aðildarríkjanna

            Lissabon-sáttmálanum [og TFEU er hluti hans] fylgdu ýmsar breytingar. Meðal þeirra er nýr lagagrundvöllur ESB í orkumálum. Í sáttmálanum falla orkumálin undir „shared competences“ (deilast á milli ESB og aðildarríkjanna). Þannig að strax af þessari ástæðu er ljóst að orkumálin eru ekki lengur á valdi aðildarríkjanna einna.[ii] Orkustefna er ekki lengur, eftir tilkomu Lissabon-sáttmálans, einvörðungu á valdi aðildarríkjanna (exclusive competences). Stofnanir ESB koma þar til skjala með mjög vaxandi þunga.[iii] Það er því einfaldlega rangt að orkumálin séu algerlega á valdi einstakra aðildarríkja [ESB/EES]. Því fer fjarri. Það er ekki nóg að lesa einstaka lagagreinar, þær verður að skoða með markmið ESB í huga – kanna hver stefnan er.

            Í a-lið 1. mgr. 194. gr. er kveðið á um virkni orkumarkaðarins. Þar er lýst mjög mikilvægu markmiði; í b-lið er annað markmið skilgreint; að tryggja orkuöflun innan ESB; í c-lið er fjallað um að efla orkunýtingu og orkusparnað og þróun nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa; í d-lið að stuðla að samtengingu orkukerfa. Evrópuþingið og Ráðið hafa það á sínu valdi að ná þessu fram.

            Lagaverk ESB miðar að því að ná settum markmiðum. Þess vegna er nauðsynlegt að gaumgæfa málin út frá markmiðunum. Ákvæði einstakra lagagreina í Lissabon-sáttmálanum þarf að skoða í þessu ljósi. Það er augljóst að með innleiðingu orkupakka 3 (og annara pakka þar á eftir) er vald fært frá aðildarríkjum og til stofnana ESB. Þannig virkar miðstýring.

            Undir lok greinar sinnar segir Ketill: „Sem sagt: Hvort Ísland ákveður að tengjast öðru Evrópulandi með sæstreng til raforkuflutninga er alfarið í höndum Íslendingra [aths. Íslendinga] sjálfra. Eða öllu heldur á valdi Alþingis. Um þetta er enginn vafi.“[iv] Enginn vafi?! Þetta hljómar eins og bergmál af „rökum“ úr stjórnarráðinu. Það má e.t.v. segja að það sé enginn vafi, í því ljósi að íslensk stjórnvöld hafa með innleiðingu þriðja orkupakkans, og markmiða hans, veikt gríðarlega stöðu sína til þess að standa gegn „einkaframtakinu“ þegar það lýsir sig reiðubúið til þess að leggja sæstreng! Ketill segir: „Íslandi er í sjálfs­vald sett hvort slíkur sæstrengur yrði leyfður eða ekki.“ Strengurinn er forsenda þess að Ísland tengist innri orkumarkaði Evrópu!

            Allt regluverk þriðja orkupakkans gengur út á samtengingu ríkjanna. Það er býsna galin nálgun að hægt sé að samþykkja pakkann í íslenskan rétt en halda því svo fram að það hafi enga þýðingu – sé bara grín – allt í plati! Þannig, að þetta tal sumra um „sjálfsvald“ er í meira lagi afbökun á því hvernig hlutir virka í raun. Eins og komið er fram, fer vald ESB vaxandi á sviði orkumála. Síðan er borðleggjandi að það er ekki hægt að innleiða tilskipanir og reglugerðir án þess að sömu gerðir hafi réttaráhrif. Það er því ekkert til sem kalla má „óvirka innleiðingu“. Sé hins vegar „rangt innleitt“ geta aðildarríkin bakað sér skaðabótaskyldu.[v]

            Kemur þá aftur að þeirri miklu þversögn að ætla sér að samþykkja aðild að sameiginlegum orkumarkaði en taka samt ekki þátt í þeim sama markaði, enda sé þetta bara grín af hálfu stjórnvalda og embættismanna sem ekki beri að taka alvarlega! Menn hljóta að spyrja; trúir þessu einhver? Vitandi, að þegar eru uppi áform um lagningu sæstrengs (sbr. IceLink) þá hljómar þetta hreint ekki sannfærandi. Rætt er um uppsetningu vindmyllugarða á Íslandi. Er líklegt að ætlunin sé að selja raforku frá þeim eingöngu innanlands?

            Það er nær sanni að ætlunin sé sú, að virkja „hverja sprænu“, reisa vindmyllugarða hringinn í kringum landið, bora eftir gufu, og selja síðan raforku í gegnum tvo sæstrengi (jafnvel fleiri) til Bretlands/meginlands Evrópu. Það er kallað að „hugsa stórt“ á Íslandi og margir þekkja frá árunum fyrir hrun. Fjárglæframenn munu hagnast gríðarlega og þjóðin tapa stórt, eins og svo oft áður. Það er langlíklegasta útkoman úr þessu dæmi. Nýtt gullæði rennur á marga sem láta „greipar sópa“. Ber þar flest að sama brunni. Þá verða e.t.v. dregin fram áform Landsvirkjunar, frá því um 1970, og fjallað er m.a. um í Morgunblaðinu, laugardaginn 10. mars árið 1979. Áformin hafa stundum gengið undir nafninu „Lang stærsti draumurinn[vi] [LSD]. Þessi vanhugsuðu áform, með gríðarlegum neikvæðum umhverfisáhrifum, snérust um virkjun þriggja jökuláa á Norð-Austurlandi (Austurlandsvirkjun).[vii] Með lagningu sæstrengs/strengja er hægt opna á „óendanlega“ eftirspurn á raforku sem aftur ýtir mjög undir frekari virkjanir.

            Það er í besta falli villandi að halda því fram að „Alþingi“ muni ráða þessu. Fjárglæframenn ráða yfir Alþingi og stjórna í raun ferðinni (fara með „dagskrárvaldið“). Það er mikilvægt að gera sér ljóst að sumir þeir þingmenn sem mest tala fyrir þriðja orkupakkanum gæta ekki hagsmuna almennings, heldur einmitt fjárglæframanna (fjármagnsins). Þeir hafa nákvæmlega engan áhuga á þjóðinni, nema rétt fyrir kosningar! Hvarflar það að einhverjum heilvita manni að þriðji orkupakkinn snúist um hag almennings á Íslandi? Almenningur á Íslandi sér í gegnum blekkingarvefinn. Þess vegna vill meirihlutinn á Alþingi ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um málið – hann óttast vilja þjóðarinnar [en vill þó eiga hann að í kosningum].

[Stjórnvöld beita ofríki]

Þau ólmast á almannahag

og ætla við þjóðina í slag

skynsemi skekkja

blaðra og blekkja

skrattanum skemmta í dag

            Annað er enn fremur ljóst. Þegar svo háttar til að eftirspurn er viðvarandi meiri en framboð, eins og gildir t.d. um orku á meginlandi Evrópu, getur afleiðingin einungis orðið: verðhækkun. Meint „samkeppni“ mun ekki breyta því. Einhverjir kunna að vilja halda því fram að hátt raforkuverð á útfluttu rafmagni (um sæstreng) muni vega upp á móti miklum hækkunum innanlands á rafmagni, eftir innleiðingu orkupakka 3. Rétt er að vara við slíkum falsrökum. Ávinningurinn, af sölunni um sæstreng, mun lenda í vösum fjárglæframanna en almenningur á Íslandi mun taka á sig hærra raforkuverð. Það er fyrirsjáanlegt. Þannig virkar braskvæðing í raun.

            Almenningur stórtapar, fjárglæframenn stórgræða [og hér má ekki gleyma sjálftökunni á formi bónusa og „arðgreiðslna“] (á kostnað almennings auðvitað). Það er því dagljóst að ef eitthvað er virkilega fjandsamlegt hagsmunum almennings þá er það braskvæðing í anda orkupakka 3 (og þeirra pakka sem á eftir koma). Enda hefur „einkavæðing“ [sem orkupakki 3 miðar að] aldrei snúist um bættan hag almennings (neytenda). Hún er þvert á móti hönnuð til þess að færa háar fjárhæðir frá almenningi og til fjárglæframanna. Stjórnmálamenn, sem fulltrúar fjármagnsins, ná því markmiði með lagasetningu og innleiðingu sumra Evrópugerða í íslenskan rétt. Forherðing þeirra í þeim efnum hefur orðið lýðum ljós undanfarna mánuði!

Enn um samningsbrotamál

            Eins og áður hefur komið fram ákvað framkvæmdastjórn ESB að vísa málum, sem snerta meint brot Þýskalands og Ungverjalands, á ákvæðum sem snerta þriðja orkupakkann til Evrópudómstólsins í Lúxemborg. Miklar líkur eru fyrir því að Íslandi lendi í sömu stöðu ef ekki verður farið að ítrustu kröfum um aðskilnað þátta í raforkukerfinu og um sjálfstæði „landsreglara“.

            Í fréttabréfinu Balkan Green Engergy News er grein frá 1. febrúar 2018. Þar kemur fram að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi farið þess á leit að Búlgaría innleiddi rafmagns- og gastilskipanir ESB í landsrétt. Frestur til þess er sagður tveir mánuðir. Að öðrum kosti muni framkvæmdastjórnin íhuga að vísa málinu til Evrópudómstólsins. Þar er um að ræða skilyrði sem snerta „aðgreiningu“ (unbundling), form á eignarhaldi og sjálfstæða „flutningskerfisstjóra“ (transmission operator) og „dreifikerfisstjóra“ (distribution system operator).

            Í greininni er vísað til þess að „greina skuli í sundur“ á einu af þremur mögulegum sviðum samkvæmt þriðja orkupakkanum, eftir vali ESB ríkjanna. Þ.e.a.s. „aðgreining“ verði á sviði eignarhalds (ownership unbundling), á sviði dreifikerfis [independent system operator] og á sviði flutnings [independent transmission system operator].

            Þá taldi framkvæmdastjórnin að reglur um aðgang að dreifikerfum ekki rétt innleiddar þar sem „gasflutnings-kerfisstjóra“ væri heimilað að neita aðgangi að kerfi, á þeim forsendum að kerfið skorti burðargetu (system capacity).[viii]

            Á heimasíðu írsku lögfræðistofunnar A&L Goodbody er að finna grein frá 25. júlí 2016. Þar er fjallað um samningsbrotamál framkvæmdastjórnar ESB gegn Frakklandi og Írlandi vegna raforkutilskipunar 2009/72/EC sem er hluti þriðja orkupakkans.

            Þann 20. febrúar 2014 vísaði framkvæmdastjórn ESB máli gegn Írlandi til Evrópudómstólsins, vegna innleiðingar raforkutilskipunar 2009/72/EC, sem einungis var innleidd að hluta. En henni er ætlað að tryggja að rafmagn sé framleitt, því dreift og það selt á samkeppnismarkaði. Skyldi tilskipunin innleiðast í landsrétt Írlands fyrir 3. mars 2011.

            Framkvæmdastjórnin taldi hæfilegar sektir vera 20.358 evrur á dag og var þar horft til lengdar og alvarleika brotanna. En ekki kom þó til frekari málareksturs þar sem umrædd ákvæði tilskipunarinnar voru innleidd í írskan landsrétt í framhaldi af aðgerðum framkvæmdastjórnarinnar.[ix]

            Þann 20. júlí 2016 fór framkvæmdastjórn ESB formlega fram á það við frönsk yfirvöld að tryggja innleiðingu nefndrar raforkutilskipunar. Kvörtunarefnin voru þau að frönsk lög hindruðu fyrirtæki (önnur en opinber) í því að reisa og starfrækja tengingar (interconnectors) við önnur aðildarríki ESB.

            Formlegt erindi var sent frönskum yfirvöldum í febrúar 2015 vegna þessa. En þar sem ekki var brugðist við sendi framkvæmdastjórnin frá sér rökstutt álit vegna sömu atriða. Framkvæmdastjórnin gaf frönskum yfirvöldum tvo mánuði til þess að uppfylla kröfurnar. Að þeim tíma liðnum kynni málinu að verða vísað til Evrópudómstólsins.[x]

             Það er augljóst af rýni samningsbrotamála framkvæmdastjórnar ESB, og snerta innri orkumarkað Evrópu, að innleiðingu tilskipana þriðja orkupakkans er fylgt mjög fast eftir af hálfu ESB. Fyrirkomulaginu skal þröngvað upp á aðildarríkin, hvað sem hver segir. En hvað er til ráða? Um það verður fjallað stuttlega hér á eftir.

Evrópurétturinn er sjálfstætt réttarkerfi

            Eins og áður hefur komið fram, í fyrri skrifum, hafa túlkunarreglur alþjóðaréttar einungis þýðingu að nafninu til innan Evrópuréttarins. Þótt alþjóðaréttur (International law) sé réttarheimild í Evrópurétti fer Evrópudómstóllinn „eigin leiðir“ þegar kemur að túlkun og beitingu réttarheimilda. Enda gildir almennt um dómstóla að þeim verður ekki sagt fyrir verkum um það hvaða réttarheimildum þeir beita og hvernig þeir beita þeim. Kjósi Evrópudómstóllinn að beita ekki túlkunarreglum alþjóðaréttar er það endanleg niðurstaða. Henni verður ekki áfrýjað til æðra dómstigs.

            Nokkur ágreiningur er uppi meðal fræðimanna um það hvort skoða beri Evrópurétt sem hluta alþjóðaréttar eða hvort hann sé „sjálfstætt réttarkerfi“ sinnar eigin gerðar.[xi] Í máli nr. 6/64 Flaminio Costa v ENEL, og markaði tímamót hjá Evrópudómstólnum, er skýrt tekið fram að Evrópuréttur sé sérstakt réttarkerfi, sérstakrar gerðar (sui generis).[xii]

            Hvað snertir EFTA-ríkin sérstaklega, þá ber EFTA-dómstólnum að fylgja réttarþróun Evrópuréttarins og þar er Evrópudómstóllinn leiðandi. Það hefur komið til tals hvað muni „gerast“ ef innleiðingu þriðja orkupakkans yrði hafnað og málið sent aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar [the EEA Joint Committee]. Þar koma einkum til skoðunar fjórar lagagreinar í EES-samningnum. Það eru 102. gr.; 103. gr. og 104. gr. Enn fremur 111. gr. sem fjallar um lausn deilna (settlement of disputes).

            Á heimasíðu EURACTIV er grein frá 26. mars 2018. Fyrirsögnin er: „Norway accepts EU energy rules, avoids dispute with Brussels“. Undir lok greinarinnar segir að samkvæmt EES-samningnum hafi Noregur rétt til þess að hafna upptöku Evrópureglna en hafi aldrei gert það, sökum þess að það gæfi ESB færi á að grípa til gagnaðgerða (retaliation) með því að gera aðra hluta samningsins óvirka.[xiii] Það er hins vegar verulegur munur á því hvort ríki hafnar einhliða upptöku Evrópugerðar eða hvort fengin er varanleg undanþága innan sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mörg dæmi eru um varanlegar undanþágur.

            Í 3. mgr. 102. gr. segir m.a. að sérstaklega skuli EES-nefndin kappkosta að finna ásættanlega lausn þegar alvarleg vandamál koma upp. Spurningin í framhaldi af þessu er eftirfarandi: hafa íslensk stjórnvöld leitað eftir því við sameiginlegu EES-nefndina að fá undanþágu? [vegna rafmagns]. Allt bendir til þess að svarið við spurningunni sé nei.

            Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. EES-samningsins getur EFTA-ríki skotið ágreiningsefni sem snertir túlkun og beitingu samningsins til sameiginlegu EES-nefndarinnar, í samræmi við eftirfarandi ákvæði:

            Samkvæmt 2. mgr. getur sameiginlega EES-nefndin sett niður deilur. Til þess skal hún fá allar upplýsingar, sem að gagni mega verða við rækilega athugun máls, með það að markmiði að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Skal nefndin kanna allar leiðir svo samningurinn haldist virkur.

            Samkvæmt 3. mgr. geta aðilar deilumáls vísað því til Evrópudómstólsins, hafi sameiginlega EES-nefndin ekki komist að niðurstöðu innan þriggja mánaða frá því að málið kom til kasta nefndarinnar. Enda varði málið túlkun lagaákvæða í EES-samningnum sem eru samsvarandi ákvæðum Evrópusáttmálanna.

Að lokum

            Það sýnist alveg ljóst að stjórnvöld á Íslandi leyna þjóðina mikilvægum upplýsingum um forsendur þrákelkni sinnar við innleiðingu þriðja orkupakkans. Þar hangir augljóslega miklu meira á spýtunni en af er látið. Eindreginn stuðningur sumra gamalreyndra flokkshesta segir fólki strax að einhver flétta er í gangi. Það skyldi þó aldrei vera að þeir hinir sömu vilji reynast ættmennum sínum vel og tala máli þeirra? Það er meira en líklegt að eitthvert „heiðursmannasamkomulag“ liggi fyrir á bakvið tjöldin. Gæti stuðningur við þriðja orkupakkann verði hluti af slíku samkomulagi? Það er ekki óhugsandi. Eða hafa íslensk stjórnmál einhvern tíma snúist um annað en undirferli og hagsmunabaráttu fyrir fjárglæframenn?

            Þessir umboðslausu flokkar sem styðja orkupakkann, í blóra við vilja meirihluta kjósenda, eiga sannarlega skilið að fá stóran skell í næstu kosningum – algert afhroð – takist þeim að troða orkupakka 3 ofan í kok á þjóðinni. Þeir eiga að standa uppi sem „ruslflokkar“. Margir munu bölva þegar rafmagnsreikningar næstu ára birtast þeim. Þá ekki síður þegar fjárglæframenn taka til óspilltra málanna við sæstreng, virkjanir og vindmyllugarða.[xiv] Þá virða menn engin mörk (sbr. vegalagningu vegna Hvalárvirkjunar) og böðlast yfir allt sem fyrir verður. „Gullæðið“ tekur öll völd.

            Stjórnmálin brugðust algerlega árin fyrir hrun. Þau munu gera það aftur. Vandamálið er þó ekki bundið einvörðungu við flokka. Þarna birtist ákveðinn lýðræðisvandi. Þetta snýst að stórum hluta um „eðli valdsins“.[xv] Hins vegar má með gildum rökum halda því fram að það séu ekki merkilegir stjórnmálaflokkar sem láta fjárglæframenn og embættismenn teyma sig á asnaeyrunum og hundsa vilja kjósenda sinna.

            Á því eiga menn að taka ábyrgð, að minnsta kosti í næstu kosningum! Sú kaldhæðnislega staða gæti verið uppi, verði orkupakkinn innleiddur, að EES-samningurinn verði í uppnámi og andstaða gegn honum vaxi til muna. Líklegt er að stjórnmálaflokkur sem hefði (raunverulega) uppsögn hans á stefnuskrá sinni gæti unnið stórsigur í næstu kosningum. Málið kann því að snúast illilega í höndum þeirra sem nú sýna einbeittan ásetning.

            Það liggur fyrir að þriðji orkupakkinn er bara byrjunin. Fjórði pakkinn er þegar tilbúinn. Einkavæðing vatnsins er í sjónmáli. Eftir er andrúmsloftið (einkavæðing þess er þegar á fullri ferð, með braski, kvótum etc.) og síðan útsýnið. Þar með hafa fjárglæframenn náð alvaldi (total control) á þjóðfélaginu. Þá er fátt eftir nema koma „þjóðarsjóðnum[xvi] í „Asíubankann“ og leggja lýðveldið formlega niður [ekkert mark tekið á vilja kjósenda hvort sem er]. „Handvelja“ síðan einræðisherra sem líkist Ferdinand Marcos.[xvii] Sá ríkti á Filippseyjum og er af sumum talinn þjóðhetja. Það er raunar merkilegt hvað þessi tvö eyríki, Ísland og Filippseyjar, eiga margt sameiginlegt þegar allt kemur til alls. Núverandi stjórnvöld á Filippseyjum standa sig þó mun betur í baráttunni við fíkniefnafjandann og gera sér ljóst að „með illu skal illt út reka“!

           

[i]      Morgunblaðið. 9. ágúst 2019.

[ii]    The Lisbon Treaty and Sustainable Energy. December 2010. http://www.inforse.org/europe/eu_table_lisbon.htm

[iii]   Sjá enn fremur: Szulecki, K., Fischer, S., Gullberg, A. T., & Sartor, O. (2016, March 1). Shaping the 'Energy Union': between national positions and governance innovation in EU energy and climate policy. Available at: https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/14693062.2015.1135100

[iv]    Morgunblaðið. 9. ágúst 2019.

[v]     Sjá einnig mál C-6/90, Francovich v Italy.

[vi]    Að þessum áformum er vikið í mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Okkar á milli: Í hita og þunga dagsins frá 1982 og sýnd var á RUV í sumar. Myndin á brýnt erindi við nútímann. Enda firringin allsráðandi í myndinni, eins og t.d. á Alþingi árið 2019!

[vii]  Morgunblaðið. 10. mars 1979. http://timarit.is

[viii] Balkan Green Energy News. (February 1, 2018). EC asked Bulgaria to comply with Third Energy Package. [online] Available at: https://balkangreenenergynews.com/ec-asked-bulgaria-to-comply-with-third-energy-package/ [Accessed 11 Aug. 2019].

[ix]    A&L Goodbody. https://www.algoodbody.com/insights-publications/actions-against-member-states-by-the-european-commission-for-eu-law-infring

[x]     Ibid.

[xi]    Sjá t.d.: Kumm, Mattias, "How does European Union Law Fit into the World of Public Law? Costa, Kadi and Three Conceptions of PublicLaw" (2011). New York University Public Law and Legal Theory Working Papers.Paper 262.http://lsr.nellco.org/nyu_plltwp/262

[xii]  Flaminio Costa v E.N.E.L. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A61964CJ0006

BY CONTRAST WITH ORDINARY INTERNATIONAL TREATIES, THE EEC TREATY HAS CREATED ITS OWN LEGAL SYSTEM WHICH, ON THE ENTRY INTO FORCE OF THE TREATY, BECAME AN INTEGRAL PART OF THE LEGAL SYSTEMS OF THE MEMBER STATES AND WHICH THEIR COURTS ARE BOUND TO APPLY.“

[xiii] euractiv.com. (2019). Norway accepts EU energy rules, avoids dispute with Brussels. [online] Available at: https://www.euractiv.com/section/energy/news/norway-accepts-eu-energy-rules-avoids-dispute-with-brussels/ [Accessed 12 Aug. 2019].

[xiv]  Sjá einnig: Climate Action Network Europe. http://www.caneurope.org/energy-union-governancehttps://www.eceee.org/

[xv]   Sjá t.d.: The Economist. Feb 3rd 2016. Economics and democracy - Political power follows economic power. [ONLINE] Available at: https://www.economist.com/buttonwoods-notebook/2016/02/03/political-power-follows-economic-power. [Accessed 12 August 2019].

[xvi]  Sjá einnig: https://star.worldbank.org/corruption-cases/node/18497

[xvii] http://www.dnd.gov.ph/ferdinand-e-marcos.html

 

Fréttabréf