Fara í efni

TVÆR LJÓSMYNDIR OG EINFÖLDUN REGLUVERKSINS

            Í Morgunblaðinu í dag, þann 21. október, er frétt um „einföldun regluverksins“. Með fréttinni fylgja myndir af tveimur ráðherrum. Myndirnar vekja strax upp minningar um aðra mynd, frá Bandaríkjunum. Skoðum þessar myndir betur.

Mynd 1[i]

TVÆR LJÓSMYNDIR OG EINFÖLDUN REGLUVERKSINS
Kristján Þór Júlíusson og Reykfjörð Gylfadóttir

            Mynd 1 sýnir á táknrænan hátt hina svokölluðu „einföldun regluverksins“. Hún ber ákveðin einkenni áróðursmynda. Reglugerðabunkinn á að sýna, svo ekki verði um villst, hversu miklar hömlur séu lagðar á íslenska „athafnamenn“. Fólki er ætlað að trúa því að þarna sé búið að finna vanda íslensks samfélags.

            Síðan er sett í gang „sjó“ (show) á blaðamannafundi til að sýna dugnað viðkomandi ráðherra sem láti verkin tala. Eitthvað hefur sá dugnaður þó látið á sér standa hvað snertir viðhlítandi varnir gegn peningaþvætti en það er annað mál. Líklega er þessu útspili ætlað (að ráði almannatengla) að draga athygli fólks frá landlægri mafíustarfsemi og peningaþvætti.

            En skoðun þá næstu mynd. Mynd 2 sýnir á táknrænan hátt afreglun í bandarísku samfélagi [Wall Street]. Þar létu menn ekki nægja að halda bara á regugerðabunkanum, á fremur látlausan hátt, eins og Kristján Þór gerir, með framtakssemi í fasinu, heldur stendur staflinn á gólfinu og komin eru til sögunnar mun stórtækari verkfæri, eins og keðjusög og boltaklippur[ii] (járnaklippur).

Mynd 2[iii]

 JARNKLIPPUR.png
           Myndinni er ætlað að sýna hvernig hindrunum er rutt úr vegi (fjárglæframanna) og reglugerðaumhverfið „einfaldað“ (sbr. deregulation). Þetta var í forsetatíð George W. Bush. En Clinton-stjórnin átti sinn hlut að máli líka, ekki síður. Í tíð Bill Clintons voru afnumin hin svonefndu GlassSteagall lög.[iv] En með þeim var skilið á milli annars vegar viðskiptabankastarfsemi og hins vegar fjárfestingabankastarfsemi. Nokkuð sem enn hefur ekki tekist á Íslandi! Það merkir, að almeningur er berskjaldaður fyrir bröskurum og fjárglæframönnum sem „gambla“ með sparifé almennings. Á Íslandi má með engu móti hefta „frelsi“ fjárglæframanna, manna sem stunda peningaþvætti, eða stunda stórfelld rán á eigum þjóðarinnar. Frelsi braskaranna er ofar öllu öðru frelsi.

[Einföldun regluverksins]

Nú rífum í tætlur regluverkið,

ránin einföldum mest.

Þannig skuluð þekkja merkið,

þetta við teljum best.

[i]      Morgunblaðið 21. október 2019. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/10/21/morg_hundrud_hindranir_i_idnadi_og_ferdathjonustu/

[ii]    Sjá t.d.: https://www.fossberg.is/voruflokkur/handverkfaeri/tangir/boltaklippur/

[iii]   https://www.vox.com/2015/4/9/8371417/jeb-bush-wall-street

[iv]    Sjá enn fremur: Baradaran, M. (2016). Banks: A Broken Social Contract. Democracy. https://democracyjournal.org/magazine/41/banks-a-broken-social-contract/